Norðurslóð - 04.07.1986, Blaðsíða 7

Norðurslóð - 04.07.1986, Blaðsíða 7
HEIMAN ÉG FÓR Sjóari gerist lögregluforingi Bjarki Elíasson tekinn tali Einn af þeim Svarfdælingum sem flutt hafa burt og gert hafa það gott í öðrum plássum er Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Hann hefur lengi verið ein aðaldriffjöður Svarf- dælingasamtakanna í Reykja- vík og er þess utan einlægur velunnari Norðurslóðar. Má því heita Iöngu tímabært að við hann birtist viðtalskorn í þessum þætti. Við gefum Bjarka orðið: Ég er fæddur að Jaðri þann 15. maí 1923. Þar var þá mikið fjölmenni þó ég muni nú ekki svo glöggt eftir því því við fluttum í gamla Víkurhól sem pabbi byggði árið 1928. Árið 1934 reið síðan jarðskjálftinn yfir eins og allir vita og í honum gjöreyðilagðist gamli Víkurhóll. Jarðskjálftinn er sá atburður bernsku minnar sem mér er lang minnisstæðastur og gildir það líklega um flesta sem í honum lentu. Hann átti líka eftir að hafa nokkuð varanleg áhrif á líf mitt. Það var í sjálfu sér yfrið nóg átak fyrir pabba að byggja gamla Víkurhól en að þurfa að hefjast handa aftur eftir aðeins 6 ár og í miðri kreppunni að auki það þýddi náttúrulega skulda- súpu og kippti um leið stoðum undan því að maður færi í menntaskólann eins og maður hafði hugsað sér. Ég varð að fara að vinna strax og ég hafði vit til og ég man að mér þótti oft súrt að þurfa að horfa á eftir félögunum í menntaskólann en komst ekki sjálfur. Það er þó ekki þar með sagt að mín braut hafi verið verri en þeirra. Það held ég ekki. Kúasmalar En mér eru fleiri atburðir minnisstæðir frá þessum árum. Ég gleymi t.d. aldrei því þegar við Ottó Jóns vorum kúasmalar og týndum kúnum. Þá vpru um 60 - 70 kýr á Dalvík og ég man að við fengum 10 kr. fyrir hverja kú í kaup eftir sumarið. Við þurftum þá að taka við kúnum kl. 7 á morgnana og reka þær suður á Flæðar, kl. 12 rákum við þar upp í Hóla og skiluðum þeim síðan af okkur kl. 7 á kvöldin. Þetta var því heilmikið púl fyrir 10-12 ára stráklinga. En þennan dag var svartaþoka og við finnum ekki nema hluta af hjörðinni uppi í Hólum. Okkur tekst að koma þeim út að Brimnesá og niður með henni en erum þó ekkert sérlega glaðir í bragði vegna þess að við erum sannfærðir um að kýrnar séu horfnar fyrir fullt og allt og við munum þurfa að borga brúsann. Þar sem við röltum eftir kúnum niður með ánni og reiknum út í huganum hvað þetta muni nú kosta okkur kemur Mundi á Ögðum askvaðandi á móti okkur og verður öskuillur þegar hann sér að kýrnar hans vantar í hópinn. Síðan sjáum við á eftir honum uppí þokuna og líður ekki á löngu áður en hann er kominn með afganginn af safn- inu og þá urðum við nú fegnir Ottó og ég. Ungir sjóarar Við Beyi bróðir vorum farnir að gera út á trillu strax á unga aldri og hét hún Vonin. Ég man eftir því einu sinni að við vorum á línu út í Vogum við Ólafsfjörð og búnir að fylla svo að báturinn lá eins og fjöl við hafflötinn. Við siglum heim á leið og sjáum þá hvar breskt fisktökuskip liggur við Hrísey og ákveðum að fara þangað og selja aflann í skipið. Þá byrjar hann að hvessa af landi og við neyðumst til að beita upp í vindinn því báturinn var svo yfirfullur að ekkert mátti út af bera. En frekar en að kasta einhverju af aflanum útbyrðis börðumst við áfram upp í vindinn og komumst þannig inn að árkjaftinum og dömluðum síðan meðfram Sandinum og komumst loks við illan leik að Valensíubryggju. Þar biðu þeir eftir okkur karlarnir og voru svo ekkert að vanda okkur kveðjurnar. Það var tekið á móti okkur með óbótaskömmum og við áttum það víst skilið. í annað skipti vorum við hætt komnir á Voninni, ég og Beyi bróðir, út við Hrólfssker þegar herskip siglir með boðaföllum inn fjörðinn. Við vorum þarna á línu og tókst okkur með naum- indum að skera á línuna og forða okkur sem mest við máttum undan skipinu. Þegar boðinn af herskipinu náði svo trillunni þá svoleiðis enda- stakkst hún að minnstu munaði að henni hvolfdi. Það má nærri geta hvað hefði skeð hefðum við ekki skorið á línuna og forðað okkur. Nú, svo fer ég 17 ára gamall á mína fyrstu vetrarvertíð í Sand- gerði og það var nú býsna lærdómsríkt. Á þessum árum þekktist ekki að róið væri frá Dalvík á vetrum. Bæði stafaði það af vantrú á að eitthvað fengist og eins því að aðstaðan var slæm, bátarnir litlir og hafnaraðstaðan vægast sagt bágborin. Bryggjurnar voru tré- bryggjur og mátti heita að þær eyðilegðust með nokkuð reglu- legu millibili þegar ís rak inn fjörðinn eða þá í ofsaveðrum. Hér var það því síldin á sumrin og svo annað hvort að bíða eftir vorinu eða þá að fara á vertíð suður. Ég var á Jóni Stefánssyni þessar vetrarvertíðir ásamt með fleirum dalvíkingum og bjugg- um við skipshöfnin plús ráðs- kona, þetta 13, 14 manns í einu herbergi. Ekkert klósett var þarna og vatnið sem var hálf- salt var pumpað úr brunni og ég man að einu sinni stífiaði rotta pumpuna. Bátarnir lágu á þurru á fjörum og allt var vaðandi í drullu. Þarna skólaðist maður í að sjá á eftir félögum sínum í sjóinn. Ég fer í Stýrimannaskólann 1947, klára hann 1949 og er upp úr því stýrimaður og skipstjóri á ýmsum bátum. 1950 fer ég á Kaldbak frá Akureyri og er á honum þangað til ég byrja í lögreglunni 1953. Lögreglumaður Eiginlega er það Bretum að kenna að ég skyldi enda í lögreglunni svo undarlega sem það kann nú að hljóma. 1952 lendum við sællar minningar í landhelgisstríði við Breta og erum þá útilokaðir frá löndun í Bretlandi. Þetta þýddi fyrir okkur að í stað þessara gömlu góðu 10 - 12 daga túra hrökt- umst við á „saltfiskveiðar" á Grænlandsmið og gat þá túrinn farið upp í allt að 2 mánuði. Þetta þýddi líka það að verri mannskapur fékkst á togarana. Krakkarnir þekktu mann varla þegar maður kom heim svoleiðis að þetta gat ekki gengið svona lengur. Þess vegna fór ég að huga að nýju starfi. Það var svo vinur minn Guðmundur Þorvalds- son frá Koti sem þá var byrjaður í lögreglunni sem hvatti mig til að sækja um það sem ég og gerði. Ég var hinsvegar búinn að ráða mig á síldarbát fyrir austan þegar þeir gáfu mér grænt ljós og því var það ekki fyrr en um haustið sem ég byrjaði í lögregl- unni. Og lögreglan hefur haldið mér síðan. Árið 1959 var ég sendur til Bandaríkjanna í nám í hálft ár. 1962 var ég gerður aðalvarð- stjóri og 1966 varð ég loks yfirlögregluþjónn. Þetta er nú í stuttu máli atvinnusagan en á síld fór ég hvert einasta sumar allar götur fram til 1969. í lögreglunni skiptast á skin og skúrir eins og sjálfsagt í fiestum öðrum störfum. En starfið býður upp á að betrum- bæta ýmislegt það sem miður er í samfélaginu og það er nú ekki lítils virði. Hér á ég sérstaklega við þá sem eiga um sárt að binda, eiga við óreglu að stríða o.s.frv. Þegar ég byrjaði í lögreglunni var almennt viðhorf bæði innan lögreglunnar og eins úti í þjóðfélaginu að líta á svokallaða róna sem algert undirmálsfólk sem ekki væri hægt að bjarga. Oft blöskraði manni meðferðin á þeim. Þetta hefur sem betur fer breyst mikið svo jafnvel má tala um hugar- farsbyltingu í þessum efnum. Þetta er ósköp venjulegt fólk ekki verra eða betra en við hin og sé því hjálpað sér maður árangur. Sama máli gegnir um fangana en ég hef einmitt starfað mikið við fangahjálpina og verið bæði formaður og varaformaður Verndar. Svarfdælingur fyrst og síðast Svo eru það Svarfdælinga- samtökin blessuð. Upphaflega var það Snorri Sigfússon sem fékk mig til að taka að mér formennsku í Svarfdælinga- samtökunum og gegndi ég því embætti í ca. 8 ár og átti þar ánægjulegt samstarf við marga góða sveitunga. Bókin Svarf- dæiingar trúi ég að sé það sem upp úr stendur af afrekum samtakanna og ætti hún ein að nægja til að halda nafni þeirra á lofti um ókomna framtíð. Mig langar sérstaklega til að minnast á Kristján Eldjárn í þessu samhengi hans framlag er ómetanlegt. Já ég er mikill Svarfdælingur eða öllu heldur Dalvíkingur í mér. Ég fer heim á hverju ári og hef það fyrir sið að fara alltaf í ber og á sjó. Frá því verður ekki brugðið. Það fer alltaf um mann notaleg tilfinning þegar maður kemur upp á hálsinn og Dalvíkin blasir við. Mér finnst sérstak- lega ánægjulegt hve allt er snyrtilegt bæði á Dalvík ogeins í sveitinni bæði garðar og hús til mikillar fyrirmyndar. Það eina sem mér finnst hafa hrakað verulega á Dalvík síðan ég var að alast upp er knattspyrnu- áhuginn. Við vorum alltaf með meiriháttar knattspyrnulið hér áður fyrr og stóðum okkur vel í keppnum við bæði Akureyringa og aðrar nágrannabyggðir. Tveir úr okkar röðum komust m.a. í landsliðið, þ.e. þeir Ottó Jóns og Kristján Ólafsson (Stjáni bolti). Þá var bæði völlur á Sandinum og á Kaupfélagstún- inu og alltaf einhverjir að spila fótbolta. Það er eins og einhver deyfð sé yfir þessu núna á Dalvík og finnst mér Dalvík- ingar gjarnan mættu huga að þessum málum. Að þessum töluðum orðum ljúkum við þessu spjalli og vonum að knattspyrnuáhuga- menn á Dalvík taki þessa ábend- ingu til athugunar. Bjarki Elías- son takk fyrir. Hj.Hj. Sumarferð Svarfdælinga í Reykjavík verður farin, ef nægileg þátttaka fæst, föstu- daginn 11. júlí. Lagt verður af stað stundvís- lega kl. 9:t5 f.h. frá Borgartúni 34 (Kringlu- mýrarmegin). Hinn fyrsta dag verður farið sem leið liggur um Holtavörðuheiði norður Strandir, Hólmavík og um Drangsnes að Laugarhóli í Bjarnar- firði og þar gist í svefnpokum (í rúmum ef til verða). Laugardaginn 12. júlí verður farið til Djúpavíkur, Norðurfjarðar, Ingólfsfjarðar og til baka að Laugarhóli. Sunnudaginn 13. júlí verður haldið um Bjarnarfjarðarháls suður Steingrímsfjarðar- heiði, um Skarðsströnd og inn Fellsströnd, suður um Miðdali. Farmiðapantanir í síma: 40115 Hrönn Haraldsdóttir 41359 Sveinn Gamalíelsson í síðasta lagi sunnudaginn 6. júlí. Ferðanefnd Svarfdælingasamtakanna í Reykjavík NORÐURSLÓÐ - 7

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.