Norðurslóð - 23.01.2002, Blaðsíða 4

Norðurslóð - 23.01.2002, Blaðsíða 4
4 - Norðurslóð Gangan langa Gengin vatnaskilin umhverfis Svarfaðardal Sextándi kafli: Af Heljardalsheiði í Sandárdalsbotn Horft til norðiirs af Hnjótafjalli innanverðu þvert yfir botn Skallárdals. Há- kambar lengst til vinstri og þar sér til Fljóta. Hvarfdalsskarð til hœgri og þar vestanvið sér til Ólafsfjarðar. Horft niður Skallárdal og Svarfaðardal af Hákömbum. Skjöldur til vinstri en liœgra megin má telja Skeiðsfjall, Búrfellsltyrnu, TeigarfjaU og Stólinn. í bak- sýn eru fjöllin liandan Skíðadals Horft af Einstakafjalli niður Hvarfdal að Ólafsfirði. Horft af Sandskálarhnjúki þvert yfir Sandskarð að Þverfjalli. Snjór í nyrðri botni Sandárdais og upp af honum er Kerlingarhnjúkur. Er þessi leiðalýsing að verða sagan endalausa? Ætlar þessu aldrei að linna á síðum Norður- slóðar? Hvar endar þetta? Hug- mynd okkar er reyndar að gang- an endi í Ólafsfjarðarmúla, en ekki vitum við hvenær. Gangan hófst sumarið 1995 og haustið 2000 enduðum við á lægsta punkti hennar í 870 m hæð á Heljardalsheiði. Haustið 2001 biðum við svo lengi eftir hentugu veðri til að halda áfram, en kannski muna menn það að ágústmánuður var með eindæmum þokusæll, svo torfundnir voru tveir samhang- andi einhlítir góðviðrisdagar til að ganga um hæstu fjöll. Eg var í sambandi við Veðurstofuna alltaf annað slagið og loks síð- asta dag ágústmánaðar taldi veðurfræðingur að einn góð- viðrisdagur næðist hugsanlega - aðeins einn. Við þremenning- arnir, Árni, Grétar og ég ákváð- um því að leggja af stað snemma að morgni 31. ágúst og fara án viðlegubúnaðar og reyna að komast eins langt og við gætum léttklyfjaðir á þess- um eina degi. Við Stóruvörðu Pað leit ekki vel út þegar ég vaknaði um klukkan 6 að morgni. Svartaþoka, og afskrif- aði ég daginn. Þegar ég svo tal- aði við Arna í síma taldi hann sig hafa upplýsingar frá Þor- steini Skaftasyni á Dalvík um að þar væri bjartara og lögðum við því af stað á jeppanum hans Árna, hittum Þorstein á Dalvík og hann ók okkur alla leið upp að sæluhúsinu á Heljardals- heiði.. Var þetta auðvitað í fyrsta sinn frá því við hófum gönguna fyrir 5 árum að við þurftum engum tíma að eyða í það að komast inn á vatnaskilin. Talsvert hafði létt til en enn voru skýjahnoðrar á sveimi og óttaðist ég að við fengjum ekki glansbjartan dag. Sá ótti reynd- ist óþarfur, því fljótlega hurfu öll ský og við gengum í sól og logni nær allan daginn. Eftir að við höfðum skoðað okkur um á háheiðinni og virt fyrir okkur gömlu og nýju slóðina yfir Helj- ardalsheiði, Stóruvörðu, hlöðnu tóftirnar og sæluhúsið, þá kvöddum við Þorstein. Hann ætlaði að skilja bílinn okkar eft- ir við Þverá, en þangað vonuð- umst við til að komast á þessum eina degi. Við lögðum af stað í norðvesturátt frá sæluhúsinu kl. 8,30, vitandi það að vel þurftum við að ganga til að ná Þverár- dalnum. Ég var kunnugur fyrsta hluta leiðarinnar, því ég hafði tvívegis gengið umhverfis Hnjótafjall á skíðum, einu sinni í villu með Hirti á Tjörn og öðr- um Svarfdælingum og svo síð- astliðinn vetur undir leiðsögn Árna Björnssonar ættuðum frá Syðra-Garðshorni. Vissi ég því að leiðin fyrir botn Skallárdals var auðveld. Þetta er í raun leið- in sem nefnd er Hákambar og var á milli Kolbeinsdals og Fljóta og jafnvel yfir í Ólafs- fjörð. Á Hnjótafjall Við gengum þarna rösklega á grjótinu í blíðunni, heyrðum í gæsum í fjarska og fljótlega sáum við í vestri eitt formfeg- usrta fjall Tröllaskagans, Deili (nafngift Jóns Eyþórssonar), sem stendur einsog píramíti upp úr Deildardalsjöklinum. Við gengum upp grófa grjóturðina, fyrst uppá ónefndan hnjúk og síðan á fyrsta fjallið, klettaborg sem nefnist Vörðufjall (nafngift Kolbeins Kristinssonar á Skriðulandi, 1119m). Þar er stæðileg varða og var það furðu- legt að strax og við greindum vörðuna úr mikilli fjarlægð virt- ist okkur sem væri hvítur skjöld- ur eða málning á norðurhlið- inni, þeirri sem snéri að Hnjóta- kverkinni. Þegar við komum upp, eftir um klukkutíma göngu, kom í ljós að þetta var bara klakastykki sem hafði hlaðist þarna á vörðuna í ein- hverri norðanáttinni. Þarna nærðumst við og nutum útsýnis til allra átta, út Deildardalinn og yfir Skagafjörðinn og yfir Hnjótakverkina í átt að Rimum og við þekktum mörg ljöllin í austri og suðri. Nú sáum við að Hnjótafjallið var slitrótt og vest- arlega í það var allmikið skarð eða gjá. Niðurgangan af Vörðu- fjallinu var auðveld eftir grjót- hrygg, en við þurftum að vara okkur á steinum sem sól hafði ekki skinið á og voru glerhálir eftir næturfrostið. Við gengum eftir stuttri fönn, og það var sér- kennilegt hvernig snjó hafði svifað frá klettunum efst í Hnjótakverkinni, þar við kletta- vegginn var hyldjúp gjóta í snjó- inn. Við gengum svo upp og út á Hnjótafjallið (1130m), allt að gjánni, en þar var fjallið mjög sprungið. Nú opnaðist okkur einnig sýn í Skallárdalinn hand- an Hnjótafjallsins (mynd 1). í beinu framhaldi af Hnjótafjall- inu til vesturs er Ennishnjúkur á milli Deildardals og Unadals. Á Einstakafjall Við þurftum að fara svolítið niður á jökulinn til vesturs, vegna þess að bratt var beint norður af Hnjótafjallinu. Héld- um við nú áfram fyrir botn Skallárdalsins og er hryggurinn á milli dalbotna Skallárdals og Unadals sennilega hinir eigin- legu Hákambar. Gengum við fyrst eftir allangri fönn á lítinn malarhnjúk, og síðan niður í þröngt og bratt skarð með ör- stuttri fönn og þá eftir sand- steini og síðar grjóti og loks aft- ur á snjó. Ut Unadalinn sáum við Hofsós og á firðinum blasti Drangey við með Skagann í baksýn og fagurt var að horfa út Skallárdalinn (mynd 2). Rani vestur frá Hákömbum deilir Unadalsbotninum í tvennt og nefnist sá nyrðri Geldingadalur og þegar þangað kemur erum við komnir í fannþakið skarðið á milli Skallárdals og Unadals og nefnist það Syðstavik (910m) og er þar auðfarið á milli dal- anna tveggja. Kann nafnið Syðstavik að vera skagfirskt, því komi menn upp Unadal geta þeir einnig farið annað skarð til norðurs (sem þá hefði verið „Nyrstavik") og liggur sú leið niður Mjóafellsdal í Fljótum. Það er hin kórrétta Há- kambaleið. Við sáum Fljóta- fjöllin framundan og alveg nið- ur að Þrasastöðum. Lengi hafði blasað við okkur snæviþakinn norðurbotn Skallárdals og nefn- ist hann Einstakafjall. Einnig þetta hlýtur að vera skagfirsk nafngift því Skallárdalsmegin lítur fjallið út sem venjuleg hlíð, en það gnæfir hins vegar sem hvassbrýnt fjall yfir Mjóa- fellsjökli í botni Mjóafellsdals. Við gengum nú upp snævi þakta hlíðina, jafnan halla líklega 2-3 km í dásamlegu göngufæri og dásemdarveðri. Það er björt minning bundin við þetta hvít- klædda fjall. Þegar upp kom á fyrsta tindinn (1030m) sáum við vel niður Mjóafellsdalinn. Þessi tindur gnæfir fyrir botni Mjóa- fellsdalsins og hefur líklega gef- ið fjallinu nafn. Við gengum síð- an enn lengra í austurátt og uppá hátindinn (1078m) sem er í raun innsti hluti fjallshryggjar- ins sem skilur að Mjóafellsdal og Hvarfdal. Hvarfdalur opnast niður alveg innst í Fljótum rétt við Lágheiði, og sáum við þá til Ólafsfjarðar út Hvarfdalinn (mynd 3). Fjallshryggurinn á milli þessara dala er langur og er hæstur í svonefndri Mjóa- fellshyrnu, sem er aðeins lægri en Éinstakafjall. Líklega er Mjóafellið sjálft hryggurinn norðan hyrnunnar. Þarna uppi mötuðumst við kl 12 og ég lék eitt lag á munnhörpuna þrátt fyrir engar áskoranir en við góðar undirtektir. Á Sandskálarhnjúk Síðan gengum við til austurs út með Skallárdalnum með vegg- brattan Hvarfdalsbotninn á vinstri hönd niður smáhjalla á grjóti og snjó og var allbratt síð- asta spölinn niður í Hvarfdals- skarð (830m) sem er innarlega í norðurhlíð Skallárdals og teng- ist Hvarfdal. Um skarðið er ágæt gönguleið á milli Skallár- dals og Hvarfdals. Þá réðumst við til uppgöngu upp bratta hlíð Sandskálarhnjúks sem er utan Hvarfdalsskarðsins og munu Hrafnabjörg vera klettarnir í hnjúknum sem snúa að Skallár- dalnum. Þarna gengum við upp allbrattar skriður og síðar fann- ir. Þegar upp kom á brúnina mötuðumst við aftur og nutum þess að sjá fallegar skálar í hlíð- um Hnjótafjallsins, en vatn er í ystu skálinni og smájökull í þeirri innri. Við gengum svo upp snæviþakta hlíð á hátind Sand- skálarhnjúks (1130m) og þar blasti við sýn bæði út Fljótin endilöng með bæjum og vötn- um og einnig út Ölafsfjörð. Við höfðum áður séð í fjarlægð næsta skarð sem mundi verða á vegi okkar, Sandskarð í botni Sandárdals og veit það einnig yfir í Hvarfdal eins og Hvarf- dalsskarðið. Ur fjarlægð gat það virst nokkuð óárennilegt. Nú voru farnir að myndast skýja- bólstrar á suðurhimninum, og gat virst svo sem veðurspá Veð- urstofunnar væri að rætast. Við gengum austur eftir Sandskálar- hnjúknum og höfðum þver- hnýpið niður í Hvarfdalinn á vinstri hönd. Ekki fórum við langt út eftir fjallinu sem aðskil- ur Skallárdalinn og Sandárdal- inn, en það mun heita Tungufjall utan við Sandskálarhnjúkinn og Skjöldur yst. Á Þverfjall Við hröðuðum för norður eftir Sandskálarhnjúnum (mynd 4) og komumst klakklaust niður í Sandskarð (950m) með því að vera Sandárdalsmegin við hrygginn og ganga eftir stór- grýttri urð og skriðum. Snjór var beggja megin við skarðið en það var autt og þar var lítil varða. Þarna bræddum við snjó með prímusnum og nærðumst enn einu sinni, því framundan var glíma við brattan hrygg upp úr Sandskarðinu, á fjall sem er þvert fyrir botni Sandárdals og mun heita Þverfjall. Klukkan 14,10 lögðum við upp þennan bratta hrygg, þar sem skiptust á mörg klettabelti með rauðum lögum á milli og var þarna ótrú- lega gróðursælt, enda veit hryggurinn á móti suðri. Við greindum jöklasóley, fjalla- deplu, Ólafssúru, grasvíði, krækilyng, lokasjóðsbróður, kornsúru og túnfífil. Efstu klettarnir voru nokkuð torfarn- ir, en á tindi Þverfjallsins (1160m) var frábært útsýni til allra átta. Við gengum síðan norður eftir fjallinu sem smá- lækkaði til norðurs, og var jafn- hallandi skriðuhlíð niður í Sandárdal en þverhnýpi niður í Hvarfdal. Strand í Sandárdalsbotni Þverfjallið lækkaði smám sam- an og við sáum nú að Sandár- dalurinn hefur í raun tvo botna, Sandskarðið syðst en við nálg- uðumst nú nyrðri botninn. Hryggurinn sem við gengum á mjókkaði smám saman. Skyndi- lega og okkur algjörlega að óvörum komum við að algjör- lega ófærri gjá og þverhnýpi og framundan var mjór hryggur með tindum og skörðum. Þessi torfæra í nyrðri botni Sandár- dals var okkur ofviða, þannig að við fórum niður skriðuna í Sandárdalinn og á niður á smá- jökul sem þar er í botninum. Þar sem við vorum orðnir þreyttir og dregið var fyrir sólu, klukkan var orðin margt og dagur stuttur ákváðum við að láta þetta duga og ganga út Sandárdalinn til byggða. Gengum við því út þennan fallega dal að óöngu- stöðum og nutum fossanna í Sandánni bæði frammi á daln- um og í dalsmynninu. Við kom- um að Göngustöðum á sjöunda tímanum og voru bændur í hey- skap. Bíllinn okkar var við Þverá, því í morgunbjartsýni héldum við að við mundum komast alla leið þangað, en vor- um nú aðeins hálfnaðir. Við hringdum því í Þorstein Skafta- son sem kom og sótti okkur. Við veltum því fyrir okkur hvort nokkrar líkur væru á því að við gætum náð öðrum degi á þessu hausti, en okkur þótti það hæp- ið því nú var komið fram í sept- ember.

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.