Norðurslóð - 22.05.2002, Blaðsíða 6

Norðurslóð - 22.05.2002, Blaðsíða 6
6 - NORÐURSLÓÐ Vallaklerkar og hugleið ingar þeim tengdar Júlíus Kristjánsson skrifar -fyrri hluti Askírdag, 28. mars sl, hlust- aði ég á þáttinn Sagnaslóð í Ríkisútvarpinu og þar ræddi stjórnandinn, Birgir Svein- björnsson, við formann sóknar- nefndar Vallakirkju um Valla- kirkju, bæði þá gömlu og nýju. Þá ræddu þau um klerka sem tengd- ust Vallakirkju fyrr og síðar. Sóknarnefndarformaðurinn komst vel frá sínu um kirkjur og klerka sem hann nefndi og var greinilega vel inní þeim málum. Þetta var fróðlegt viðtal. En mér fannst sóknarnefnd- arformaðurinn ekki gera þeim prestunum jafnhátt undir höfði. Hann gerði séra Páli Jónssyni góð skil og tíundaði sálmaskáld- skap hans; þá sálma sem þekktir eru og skráðir í sálmabækur, en sr. Páll var þekktur sem mikill andans maður. En hann var auk þess merkur klerkur, athafna- maður í landbúnaði og ekki síð- ur í útvegsmálum. Synir hans sex urðu þekktir menn hver á sinn hátt. Páll prestur orti um þá eftirfarandi vísu: Á Myrká eru mikið vel menntaðir yngissveinar, Snorri, Gísli, Gamalíel Grímur, Jón og Einar. En sr. Páli Jónssyni á ég mikið að þakka, því hann ól upp frá þriggja ára aldri, ömmu mína blessaða, Rósu Þorsteinsdóttur. Hann kom með hana með sér frá Myrká í Velli. Þar hitti hún síðar mannsefnið sitt, Jón Stefánsson, afa minn. Formaðurinn nefndi síðan í viðtali sínu Vallaprestana og góðmennin sr. Stefán Baldvin Kristinsson og loks sr. Stefán Svævarr. En á milli sr. Páls og sr. Stefáns Baldvins þjónuðu tveir mætir - og miklir andans menn. Annar var sr. Hjörleifur Gutt- ormsson sem árið 1870 kom frá Skinnastað og fékk Tjörn í Svarfaðardal. Árið 1878 fékk hann veitingu fyrir Völlum þeg- ar sr. Páll Jónsson flutti vestur í Viðvfk í Skagafirði. Hann sat á Völlum til ársins 1884 en þá fékk hann lausn frá störfum sökum elli og hrumleika. Sr. Hjörleifur þótti fjörmaður mikill og glað- sinna og talinn hraustur vel á yngri árum. Hann var lágur mað- ur vexti, tæplega meðalmaður á hæð. Sr. Hjörleifur var gestrisinn og góður heim að sækja, þótt lít- ill væri veraldlegur auður í hans búi. Hjörleifur var sonur Gutt- orms Þorsteinssonar prests á Hofi og konu hans Óddnýjar Guttormsdóttur sýslumanns á Skeggjastöðum. Kona hans var Guðlaug Björnsdóttir prests í Kirkjubæ Vigfússonar og seinni konu hans Önnu Stefánsdóttur, sonardótt- ur Lárusar Scheving bónda á Urðum í Svarfaðardal. Út af þeim hjónum eru margir og mætir afkomendur og má þar til nefna hér í sveit þær systur, Petrínu Soffíu, prestsmaddömu á Tjörn, konu sr. Kristjáns Eld- járns, og Þórunni yfirsetukonu og eiginkonu Arngríms málara Gíslasonar í Gullbringu. Þá er það seinni klerkurinn ónefndi á Völlum, sr. Tómas Hallgrímsson, en hann tók við af sr. Hjörleifi Guttormssyni árið 1884.Tómas var fæddur á Steins- stöðum, sonur Hallgríms Tómas- sonar hreppstjóra og konu hans Dýrleifar Pálsdóttur, en hún var afkomandi Páls Sigurðssonar á Karlsá. Þegar Tómas lauk guð- fræðiprófi 1875, vígðist hann til prests og fékk Stærra-Árskóg. Þar sat hann til 1884 er hann fékk Velli í Svarfaðardal og þjónaði þar til æviloka 1901. Þegar sr. Tómas kom í Velli voru þessar tvær kirkjusóknir sameinaðar og þjónaði hann þeim báðum fyrstur presta og var síðasti klerkurinn sem bjó í Stærra-Árskógi. Tómas Hall- grímsson prestur var einstaklega ástsæll af sóknarbörnum sínum. Hann var hvers manns hugljúfi og raungóður. Þekktastur var séra Tómas fyrir mikla og góða söngrödd sína, og þótti tóna vel. Hann var mikill gleðinnar mað- ur, ölkær í góðra vina hópi, snyrtimenni mikið, fríður sýn- um, glaðsinna og hneigður til skáldskapar. Hann samdi smá- sögur, orti ljóð og sálma og eftir hann liggja leikþættir sem leikn- ir voru hér í sveit nokkru fyrir aldamót 1900. í Sögu Dalvíkur segir eftirfarandi: „Fyrri hluta vetrar 1895 tóku nokkrir Svarf- dælir að æfa tvö leikrit. Annað var Gestkoman eftir Kristján Jónsson Fjallaskáld, hitt leik- þáttur, sem Tómas Hallgrímsson á Völlum samdi og hét Þeir ætla að leika; eins konar forleikur. Æfingar fóru fram á þinghúsinu á Tungunum, svo og sýningar. Þessum leikþáttum stjórnuðu þeir klerkarnir, Kristján Eldjárn á Tjörn og Tómas á Völlum. I leikriti séra Tómasar voru að einhverju leyti sannsögulegar persónur, svo sem Björn Snorra- son, sem um árabil var reikunar- maður í dalnum og stundum ill- ur viðskiptis. Björn svaf að jafn- aði í hlöðum eða öðrum útihús- um. Töldu sumir, að hann mundi taka þessu illa að vera „sviðsett- ur". Björn sótti sýninguna og hafði óblandna ánægju af, rak upp miklar hláturrokur því til staðfestingar. Persóna hans var leikin af Friðbirni Gunnarssyni í Efstakoti." Kona sr. Tómasar Hallgríms- sonar var Valgerður Þórunn Jónsdóttir, Jónssonar prófasts í Steinnesi. Meðal barna þeirra sem hér dvöldu til fullorðinsára voru þær systur; Elín Rannveig kona Angantýs Arngrímssonar, málara, Gíslasonar, og Dýrleif kona Jóns Björnssonar rithöf- undar, Friðrikssonar frá Holt- inu. Þeim systrum kippti í kynið og létu mikið að sér kveða á sviði söng- og leiklistar á Dalvík. Sagt var að heimili þeirra Elínar og Angantýs í Sandgerði hafi verið miðdepill alls félagslífs á Dalvík árum saman. Séra Tóm- asi varð á í messunni þegar hús- kona hans, Salbjörg Helgadóttir frá Lögmannshlíð, ól honum dóttur í Stærra-Árskógi, sem skírð var Guðrún Svava. Hún var að vísu feðruð Gísla Þor- valdssyni vinnumanni á bænum. Séra Tómas Hallgrímsson prest- ur á Völlum og eiginkona hans, Valgerður Þórunn Jónsdóttir. Séra Hjörleifur Guttormsson prestur á Völlum og eiginkona hans, Guðlaug Björnsdóttir. Þau settust síðar að í Syðri- Haga á Árskógsströnd. (Svarfdœlingar 1) Guðrún Svava var síðar skrif- uð Tómasdóttir. Til er vísa sem sr. Tómas kastaði fram þegar hann reið hjá við Syðri-Haga og sá börn í berjamó, þar á meðal Guðrúnu litlu. Börnin góð, ber í lautum tína þar sá ég Gunnu mína skínandi fagra á hvítlitum kjól með krullur íhárinu bjarta, hreint eins og hádegis Súsönnu sól, sendir hún yl mínu hjarta. Guðrún Svava giftist síðar Baldvini Sigurðssyni, sjómanni á Dalvík, Jónssonar bónda á Hálsi og Snjólaugar Jónsdóttur, sam- býliskonu hans. Guðrún og Baldvin eignuðust 12 börn. Öll börn þeirra, sem á legg komust, kippti í kynið, og voru með af- brigðum söngvin og sum með mikla sönghæfileika. í næsta tölublaði Norðurslóð- ar ætla ég að minnast þriggja sona Guðrúnar Svövu og Bald- vins Sigurðssonar, og þá sérstak- lega Tómasar en hann var elstur þeirra bræðra, fæddur 1905 á Sauðanesi. Þau skrif eiga í sjálfu sér ekkert skylt við þær athuga- semdir um Vallaprestana tvo, sem ég hef gert að umræðuefni en ég vil nota þetta tækifæri til að minnast afkomenda séra Tómasar. Minning um móðurbróður Þar sem dalurinn mætir Stólnum greinist hann og klofnar í tvennt. Annar hluti hans beygir til suðurs í átt til jökulsins en hinn fer beint til vesturs að heiðinni sem kennd er við Heljardalinn handan hennar. Þarna inni er dalurinn kringdur fjöllum - mynni hans hylur Hvarfshjúkurinn en hinum enda lokar heiðin. I dalnum eru engar áttir - nokkuð sem einkennir íslenska dali - þarna er farið úteftir og suðreftir. í þess- um þrönga og áttlausa dal fæddist frændi okkar Sigtryggur Stefán Jóhannesson á bænum Sandá á haustdögum 1909. Tryggvi eins og Sigtryggur var ætíð kallaður ólst upp á Sandá hjá foreldrum sínum Jóhannesi og Kristínu og systkin- um sem þegar upp var staðið urðu sjö talsins. Á þessum dögum í sveitinni var fjöldi af ungu fólki að alast upp - ung- barnadauði hafði vikið og þar sem berkl- arnir náðu ekki að herja á, urðu heil ósköp af börnum sem komust á legg og þannig varð það í Svarfaðardal á fyrstu áratugum liðinnar aldar, mikið af mann- vænlegu fólki. Til marks um þetta er að í dalnum voru fjögur ungmennafélög sem öll störfuðu af miklum krafti þegar Tryggvi er að vaxa úr grasi. Skólaganga barna er á þessari tíð ekki löng í innanverðum Svarfaðardal - aðeins nokkrir vetrarpartar, oftast hjá farkenn- urum sem gjarna komu með ferskan blæ í sveitina og fóru með heimasæturnar. Þetta varð skóli Tryggva á unglingsárum. Tryggvi var snemma til stuðnings við bú- skap heima fyrir og þar sem saman fór lagni við verk og lipurð í samskiptum voru störf hans minni en engin strax á unglingsárum og að lokinni skólagöngu aðalstoð foreldra við búið sem ekki síst helgaðist af því að hann var elsti sonur. A þessari tíð var framhaldsnám ekki til siðs hjá börnum bænda frá óbreyttum sveitabæjum en frekar hlúð að því að drengir færu í búnaðarskóla enda þar nám sem komið gæti að notum fyrir þá til að taka við í búskapnum. í takt við þenn- an tíðaranda fór Tryggvi í Bændaskólann á Hólum og lauk þaðan prófi eftir eins árs nám 1931 úr svokallaðri Bændadeild sem þá var nýstofnuð við skólann. Að Hóla- veru lokinni snýr Tryggvi aftur heim í dal- inn, til fólksins á Sandá, og er þar sem fyrr stoð og stytta við búskapinn og sjálfur skráður bóndi í a.m.k. tvö ár. Þegar bróðir hans tekur við búi á Sandá 1943 flytur Tryggvi að mestu að heiman og á þeim tíma, er nú fór í hönd, leggur m.a. stund á söðlasmíði sem hann seinna fékk réttindi til að stunda og átti síðar eftir að vera stór þáttur lífshlaupi hans. Árið 1948 hefur Tryggvi búskap í Göngustaðakoti og kvænist Rósu Björns- dóttur sem þar hafði alist upp hjá foreldr- um sínum. Stutt er á milli Sandár og Göngustaðakots og Tryggvi og Rósa höfðu þekkst frá barnæsku. Milli þeirra hafði um skeið lengið leyniþráður sem þó oft var stutt í en að lokum var sú ákvörð- un tekin að deila saman dögum. Og það var ekki tjaldað til einnar nætur því þegar kallið kom, hjá Tryggva frænda, höfðu þau deilt kjörum í Göngustaðakoti í meir en fimmtíu ár. Búskapurinn í Göngustaðakoti varð aldrei stór, sitt lítið af hvoru kúm og kind- um, en það var vel hugsað um skepnurnar og það var vel hugað að öllum fjármunum þannig að hagur blómgaðist þó umsvifin væru ekki stór. Röð og regla var á hverj- um hlut í Göngustaðakoti og allt fágað og prýtt utan húss sem innan. Tryggvi hafði yndi af því að yrkja jörðina og reyndi ræktun ýmssa jurta í búskap sínum. Þegar tímar liðu og umhverfi landbúnaðarins breyttist með aukinni tækni ákvað hann að einfalda búskapinn og hætta með kýrnar sem aldrei voru svo margar að gætu borið þá tækni sem þurfti til að reka þannig bú. Snéri hann sér á þessum árum meir og meir að söðlasmíði sem hann að vísu hafði alltaf stundað með búskapnum. Sat hann nú löngum við hnakkasmíði og eru afköst hans á gamalsaldri ótrúleg - kominn á níræðisaldur smíðaði hann eitt árið meira en einn hnakk á viku. Rósa og Tryggvi eignuðust tvö börn, Sóleyju sem hefur verið stoð foreldra sinna og haft forsjá um búskap á seinni árum í Göngustaðakoti og Skarphéðinn sem er bifvélavirki og rekur sitt verkstæði á Akureyri. Við bræður þekktum Tryggva vel þó á sitt hvoru tímaskeiði væri, ef svo má segja - annar okkar var þar kaupamaður nokkra vor- og sumarparta á löngu liðnum dög- um - hinn hefur átt meiri samskipti á seinni árum. Öll voru þessi viðkynni við Tryggva og fólkið í Göngustaðakoti nota- leg og hlý og sitja eftir í minningunni sem partur af því sem yljar þegar við, brátt gamlir menn, horfum til liðinna stunda. Það verður ekki sagt um Tryggva að hann væri heimsmaður í þeirri merkingu að hann færi víða og léti ljós sitt skína í hinum stóra heimi. Dalurinn var hans heimur, innan þessa þrönga fjallahrings var mest allt hans líf og þar fékk hvfld að langri göngu lokinni í kirkjugarðinum á Urðum og ber hátt og sést í heiðina og Hvarfið. Við viljum að lokum í þessum texta færa aðstandendum Tryggva inni- legar samúðarkveðjur og ósk um góða daga og vitum að í huga þeirra lifir minn- ing um ljúfan mann sem hljóðlega fór í gegnum þetta líf. Bræðurnir frá Hofsárkoti, Gulli og Jói

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.