Norðurslóð - 18.12.2002, Síða 4

Norðurslóð - 18.12.2002, Síða 4
4 - Norðurslóð Þó ég sé nú löngu gjörsamlega blind- ur orðinn hygg ég fáir finni það betur en ég hve mjög dimmir yfir öllu hér á Upsaströnd þegar hann leggst svo í þokur og drunga um hábjarg- ræðistímann. Nógu vel þekki ég það frá fyrri dögum meðan ég var hér búandi og átti minn heyfeng undir þokkalegri tíð. Það er sem fjöllin hér við fjörðinn dragi hana að sér, þá köldu og röku voð sem loðir síðan við þau og vill ekki sleppa. Og ef úr tekur að tæjast uns voðin gerist snjáð svo sól fær gægst í gegn og glittir í fjöll berst um leið norðan af Dumbshafi liðsauki, heilir her- skarar skýja sem beija í bresti og bæta í voð þar til hún sígur niður undir tún á ný og hylur alla sýn fram og út til fjalla. Og þá dimmir um leið fyrir þeim innri hugarsjónum manna og svo fer mér einn- ig nú, ég er síst sleginn blindu hið innra, þar finn ég glöggan mun ljóss og myrkurs. Ætti ég þó að láta mér slíkt í léttu rúmi liggja þar sem ég er nú aðeins einstæðing- ur í horninu hjá þeim hér á Sauðanesi hvar ég fyrrum var sem konungur í mínu ríki til sjós og lands. Bróðir Jóns á Krossum Ekki skal leggjast í víl þrátt fyrir það, ég leitast við af alefli að láta mig tíðina engu varða. Mér er í mun að geta staðið við það sem ég einsetti mér þegar þau tóku hér við búsforráðum fyrir meira en tug ára, mín systurdóttir og fóstra Guð- ríður og hennar maður Skúli snikkari sem heldri maður þykist. En því hét ég þá að hætta um leið og ég hætti, skipta mér ekki af því hvernig þeim búnaðist. Þeim hefur líka gengið það bærilega þó auðvitað sé hitt, að margt hefði ég nytjað á aðra lund, gert öðruvísi og betur. Víst er að ekki hafa þau haft hin sömu umsvif og ég meðan mestur völlur var á mér. Og það eins þó ekki hafi þau þurft að byrja með tvær hendur tómar líkt og mitt hlutskipti í önd- verðu var. Mér búnaðist alstaðar vel á þeim tíu jörðurn sem ég hafði viðdvöl á um mína ævidaga en best þó hér á Sauðanesi. Hafði hér mikinn búskap og góðan og var með þrjú skip er ég átti mest undir mér. En hve skammgóður er ekki sá vermir þegar allt annað er horfið. Þess hef ég kennt með vaxandi þunga allar götur frá því ég fyrir réttum fjórtán árum missti mína elskaða ektakvinnu eftir nær hálfrar aldar samfylgd við súrt og sætt. í öndverðu var hún með sannindum mín einasta stoð, svo sem ég kvað í minni Æviraun: Kunni karl ei mega, kaupa verka þjálf, mín var engin eiga, utan konan sjálf. Að endingu hafði sú líka verið raunin um langa hríð, svo sem ég best fann er konan yfirgaf þennan heim. Hvað sem leið öllu veraldargengi áttum við með sanni aðeins hvort annað eftir að við misstum okkar hjartkæru einkadóttur. Auðnan veitti okkur ekki fleiri börn og þóttumst við því mega til þess ætlast að við fengjum að halda því fagra blómstri, en ofætlan reyndist það. Á því dimma ári sextán hundruð þrjátíu og sex kom bólan og hremmdi hana frá okkur er hún var aðeins seytján vetra, afbragð annarra meyja og foreldrum sínum alla tíð eftirlát og velviljuð. Bólan kom með brœði, og burt tók þorna lind, seytján vetra sœði, setti í foldar strind. í þeirri miklu sorg reyndist það þrauta- ráðið að herða enn á sér við öll veraldleg búsumsvif, heyja meira og fiska meira til þess eins að halda huganum burt frá þeirri óumræðanlegu kvöl sem það er hverjum manni að þurfa að standa yfir moldum barna sinna. Og í þeim umsvifum öllum dró ég hvergi af mér og staldraði lítt við. Uns um síðir er mér konan hvarf eftir langt sjúkdómsstríð. Dugðu þá ekki par fullar hlöður og troðnir hjallar. Ég átti þá ekkert eftir utan að koma saman kvæðum mér til hugarhægðar og settist við að yrkja mína Æviraun: Sjötugur Ijóðin samdi, sín fannst œvin löng, hug sinn ekki hamdi, heima um rœnu göng. Treganum þeim sig tamdi, tvinna þráði spöng. Fyrir það mest hann framdi, frekan rauna söng. Allt varð sem ekkert, jörð, búsmali, fley og forráð manna, enda leið ekki á löngu áður ég kom því öllu í hendur minnar frænku og fóstru og snikkarans. Síðan hef ég þraukað þau tólf árin hér í horninu og vona heitt að þeim senn ljúki. Ó já, öll sú forna frægð, hve skammt hún dugir fékk ég nú nýverið útþrykki- lega að reyna: Ég varð þess af hendingu áheyrsla þar sem ég sat á fleti mínu í bað- stofu að nýkomin griðkona var að spyrja aðra eldri hver hann væri sá gamli maður sem þar sæti álengdar. Og meinti þá mig rétt eins og ég sjálfur væri þar hvergi nærri til að gera grein fyrir mér. Það er hann gamli Þorvaldur Rögn- valdsson, svarar sú eldri. Slíkt svar nægði engan veginn þeirri hvatvísu stúlku sem spurði að bragði: Og hver er nú það svo sem? Hér fór mér að verða nokkuð skemmt yfir fákænskunni og tók því enn frekar að sperra eyru. Gætti þar ef til vill nokkuð minnar hégómagirndar og kann ég að hafa vænst þess að fá nú að heyra öll mín afrek rækilega útlistuð, enda átti sú griðka er til svara var að vera vel kunnug minni sögu. Kannski vildi ég heyra af því hvernig ég á harðindavori kvað hollensku dugg- una inn á Eyjafjörð, eða frásögnina af því er ég fyrirhitti sjálfan Kristján konung fjórða á Akureyri, eða einhverja enn eina af þeim fjölmörgu frægðarsögum er ég sjálfur. vitandi og óvitandi, hafði átt einna mestan þátt í að breiða út um mína daga. Sumt var þar satt og annað ekki, sumt að hálfu og annað engan veginn. En óekkí. Við svarið kom mér kirfilega í stans: Ég var ekki kraftaskáldið kræfa, ekki útvegsbóndinn rammgöldrótti eða sveitarhöfðinginn tigni. Fékk í máli henn- ar ekki einu sinni haldið mínum virðing- arsessi sem sá hinn fyrri búandinn hér á þessum bæ sjálfum. Állt það mitt verald- arvafstur virtist sem grafið og gleymt líkt og þau verðmæti önnur er mölur og ryð fá grandað: Hann Þorvaldur gamli? hélt sú eldri áfram og gaf svo einkunnina: Hann er bróðir Jóns á Krossum. Svolátandi svar sem stúlkukindin fékk hlaut að fela í sér það sem helst gæti talist mér til frægðar. Og jafnframt það sem lík- legast væri að gert gæti svo ungri og fá- vísri manneskju kleift að staðsetja í sjón- hring sínum þann stafkarl blindan er reri þar fram í gráðið. Bróðir Jóns á Krossum! Það sem ég nú er orðinn eftir allt mitt brölt. Það sem eftir stendur. Að mér setti sorgartrega er ég hugsa tók til þess. En það er ekki af því ég sýti að ei þyki lengur mikilsverð afrek Smásaga eftir Þórarin Eldjárn Teikningar: Sigrún Eldjárn mín á langri ævi. Það eru þau vísast ekki eins og ég sjálfur löngu hafði fundið. Ég gerði aðeins eftir bestu gelu það sem ég gera hlaut og fyrir lá. Og enn síður veldur mér angri, hjálpi mér Drottinn, að mér þyki einhver læging í því að vera kenndur við minn bróður Jón. Heldur er það svo að við þau orð er þar féllu tók að ásækja mig enn einu sinni sorgin yfir hans illu ör- lögum. Og einkum þó yfir því að mér skyldi ekki auðnast að vera honum sem réttur bróðir þegar á reyndi. Yfir að hafa einmitt ekki verið bróðir Jóns á Krossum þegar þörfin var mest. Enn er mér í fersku minni hans hinsta augnaráð er hann þegjandi til mín leit þá þeir drýldnu valdsmenn leiddu hann á báiið á Melaeyrum hér fram í dal. Hvar ég tilkvaddur hlaut að vera en mátti standa hjá aðgerðalaus. Úr hans augum þóttist ég þá mega lesa hans svofelld orð: Haf þú nú hægt um þig bróðir svo þú ekki ratir sömu leið, hér verður hvort eð er engu um þok- að. Alla tíð síðan fylgdi mér sá hans svip- ur, en æ oftar las ég þaðan að hann spyrði mig í örvæntingu og dauðageig: Þú minn stóri bróðir, ætlarðu að láta þetta gerast, þú sem best allra veist hve röngum sökum ég er borinn? En ég var sem sleginn her- fjötri og mátti mig hvergi hræra: Fyrir það var hann feigur, að fœr var ég ei til neins ... Og svo þau hin skelfilegu óp hans þá böðlar sýslumanns höfðu fleygt honum með bolta og járn og bakbundnar hendur á skíðlogandi köstinn, æ meir hjartasker- andi þar til af honum dró er eldurinn bug- aði hann og við tók korr og hviss og sá hræðilegi fnykur er enn svíður í nösum lagðist yfir allt uns hann til kola var brunninn og husluð bein hans sem úr skepnu væru í nálægum hól, víðs fjarri allri sáluhjálp og guðsorði. Bróðir minn hlaut svo hraklegan dauð- daga langfyrstur allra hérlendis þar á Melaeyrum á því ári sextán hundruð tuttugu og fimm, tæpra tuttugu og sjö ára að aldri, saklaus með öllu af galdraáburði, dæmdur til þeirrar hræðilegu refsingar sem engin lög á þeirri tíð kváðu á um þó önnur hafi orðið reyndin síðar. Við vorum mjög jafnaldra, ég ekki nema árinu eldri, og runnum upp saman hér skammt utan við, í Sauðakoti, ysta bæ Upsastrandar, hjá okkar sálugu foreldr- um við kröpp kjör en gott atlæti. Ég var því löngum framari og fremri og vissi og fann til þess að minn yngri bróðir leit upp til mín og vildi gera allt svo sem ég. Af því spratt sú hugsun mín alla tíð að mér bæri að leiðbeina honum og kenna og vernda hann. Fyrir utan öll þau verk er til féllu og við megnuðum fyrir æsku sakir numum við saman ýmis forn fræði af gömlum mönnum, lærðum snemma að lesa og draga til stafs og urðum hneigðir mjög til bóka og skáldskapar eftir því sem fært var í dagsins önn. Þeim nytsömu fræðum fylgdi eigi alllítið af rúnum og ristingum. Því hinu sama og illir menn um síðir nýttu til að koma mínum bróður á kné er þeir tóku að öfundast við hann. Allt var þetta því komið frá gömlu og góðu fólki sem við ólumst upp með og fylgdi þeim iðkunum ekkert illt, heldur voru þær að okkar áliti meira eins og hver annar skáldskapur. Við lærðum að fara með ýmsar þulur, rista tákn og draga upp myndir. Þetta var haft svo sem eins og til að brýna sjálfan sig og skerpa hið innra í mörgu meini og vosi. En auk þess urðum við bræður báðir þess fljótt áskynja að slíkt orðspor gat veitt manni styrk í ýms- um aðstæðum heimsins. Aldrei, aldrei, það get ég svarið við minningu dóttur minnar og eiginkonu, fylgdi þar neitt full- tingi eða fylgispekt við djöfulinn. Við uxum úr grasi og fórum báðir að heiman um líkt leyti, við Jón bróðir minn. Ég hafði eitt ár um tvítugt er ég kvæntist minni konu jafnaldra og við tóku erfið búskaparár á ýmsum misgóðum jörðum

x

Norðurslóð

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.