FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 6

FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 6
íslandi með staðfestingu Alþingis og konungs á lögum nr. 9 frá 15. júní árið 1926 hefur sú skipan haldist í meginatriðum að einungis þeir einstaklingar sem stæðust sérstök próf gætu hlotið löggildingu til endurskoðunarstarfa. Prófnefnd löggiltra endurskoðenda hefur starfað frá árinu 1929 að sett var reglugerð um „próf löggiltra endurskoðenda, verksvið þeirra o.fl" nr. 18/1929. Meginverkefni hennar hefur verið að halda löggildingarpróf í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða á hverjum tíma. Löggiltir endurskoðendur hafa jafnan setið í nefndinni og hefur þar gefist tækifæri til að hafa áhrif á þær menntunarkröfur sem gerðar hafa verið til löggiltra endurskoðenda og fylgja þeim eftir. Starfstími undir leiðsögn löggilts endurskoðanda hefur allt frá árinu 1953 verið ein forsenda þess að endurskoðunarnemi hlyti heimild til að þreyta löggildingarpróf. Starfandi endurskoðendur hafa því átt ríkan þátt í námi og mótun nýrra liðsmanna í starfsstéttinni. í þessari grein verður athyglinni beint að mennta- og löggildingarmálum endurskoðenda á tímabilinu 1929-1953. Gerð er grein fyrir því í meginatriðum hvernig menntun endurskoðenda fyrir löggildingarpróf var háttað á þessum árum, helstu breytingum sem menntamál starfsstéttarinnar tóku og áhrifavöldum og gerendum sem þar voru að verki. En áður en að því kemur skal hugað að tímabilaskiptingu í menntunarsögu löggiltra endurskoðenda og forsendum hennar. Fjögur meginskeið Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi og kennari við Viðskiptadeild Háskóla íslands til fjölda ára, hefur skipt menntunarsögu löggiltra endurskoðenda í þrjú meginskeið sem afmarkast af breytingum á þeim formlegu kröfum sem endurskoðunarnemi hefur þurft að uppfylla til að öðlast heimild Stefán Svavarsson til að þreyta löggildingarpróf. Þessi tímabilaskipting markast af lagasetningu um löggilta endurskoðendur og er hentug til að draga fram meginlínurnar í menntasögu fagstéttarinnar. Hún verður því notuð hér með nokkrum breytingum, en innan hvers skeiðs urðu að sjálfsögðu ýmsar breytingar og þróun sem einnig verðskulda athygli. Fyrsta tímabilið spannar árin 1929-1953. Upphaf þess markast af gildistöku reglugerðar um próf löggiltra endurskoðenda í júní 1929 og lok þess af gildistöku laga nr. 89 frá 29. des. 1953 og reglugerðar um löggilta endurskoðendur nr. 217 frá 30. des. það ár. Á þessu skeiði voru ekki gerðar kröfur um sérstakt nám löggiltra endurskoðenda, en löggildingarprófi þurftu þeir alla jafna að Ijúka. Þó kom fyrir að ráðherra viki frá þeirri kröfu og veitti einstaklingum, sem ekki höfðu lokið löggildingarprófi, löggildingu til staðbundinna endurskoðunarstarfa. Sú ráðstöfun var vart í anda laga og reglugerðar, þó ekki væri nema fyrir það að í 9. grein reglugerðarinnar var mælt svo fyrir að löggiltur endurskoðandi mætti rækja starf sitt hvar sem væri á landinu. Löggilding ráðherra á einstaklingum sem ekki höfðu sannað kunnáttu sína með prófi mæltust ávallt illa fyrir meðal löggiltra endurskoðenda og urðu, ásamt öðru, til þess að breytingar voru gerðar á undirbúningskröfum fyrir löggildingu. Annað skeiðið tekur yfir árabilið 1954-1976. Það hófst þar sem hið fyrra endar og því lauk með gildistöku nýrra laga um löggilta endurskoðendur nr. 67 frá 31. maí 1976. Á þessu tímabili var þess krafist að próftaki hefði starfað í þrjú ár undir stjórn löggilts endurskoðanda áður en hann spreytti sig á löggildingarprófum, sem bæði voru bókleg og verkleg. Lögin veittu ráðherra ennfremur heimild til að efna til námskeiða í hinum bóklegu greinum námsins fyrir þá sem bjuggu sig undir prófin. Þar var um að ræða staðfestingu á tilhögun sem komist hafði á nokkrum árum áður þegar kennarar við Háskóla íslands tóku að veita endurskoðunarnemum fræðslu fyrir löggildingarpróf. Upphaf þriðja tímaskeiðsins, 1976-1997, markast af fyrrnefndri lagasetningu og gildistöku reglugerðar nr. 208 frá 4. maí 1979 um verkleg próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa, en lok þess við gildistöku laga nr. 18/1997. Með lögum nr. 67/1976 voru gerðar veigamiklar breytingar á námskröfum til löggildingar til endurskoðunarstarfa og tilhögun námsins. Brottfararpróf frá Viðskiptadeild Háskóla íslands var gert að skilyrði fyrir því að geta hafið nám í endurskoðun og var þess einnig krafist að nám hefði verið stundað á endurskoðunarkjörsviði sem veitti sérþekkingu á endurskoðun. Sem fyrr þurftu endurskoðunarnemar að starfa í þrjú ár undir stjórn löggilts endurskoðanda áður en þeim gafst kostur á að þreyta löggildingarprófin. Með þessum breytingum hafði nám löggiltra endurskoðenda verið fært á háskólastig og þegar við bættust þriggja ára starfstími og löggildingarpróf gat námstími að loknu stúdentsprófi vart orðið styttri en 7 ár. Löggiltir endurskoðendur, sem hafa tileinkað sér fræði sín frá því að þessi breyting var gerð, hafa því langt sérnám að baki. Fjórða skeiðið, 1997-, hófst þegar ný lög um löggilta endurskoðendur nr. 18/1997 tóku gildi. Helsta tilefni þeirrar lagasetningar var aðlögun að Evrópska efnahagssvæðinu, 6 • FLE blaðið júlí2010

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.