FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 33

FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 33
Fegðarnir Friðrik og Einar. Ftvernig var það Einar, hafðir þú tök á að taka þátt í fermingarundirbúningi drengsins? „Mig minnir að ég hafi tekið frí daginn fyrir ferminguna, þ.e. á laugardeginum, en man ekki eftir frekari aðkomu að þeim undirbúningi." Þess ber þó að geta að Einar gegnir auk endurskoðunarstarfsins því hlutverki, sem þykir mikill virðingarsess, að vera hringjari í Stokkseyrarkirkju ásamt því að syngja tenór í kirkjukórnum. Af þeim sökum dró hann drenginn með sér í Guðsþjónustur í kirkjunni í aðdraganda fermingarinnar. Einar er fæddur og uppalinn á Stokkseyri, býr þar og hefur búið þar alla sína ævi að undanskildum þeim árum þegar hann stundaði nám við Háskóla íslands. Friðrik ólst upp á Stokkseyri þangað til hann fór í háskólanám og hefur ekki skilað sér til baka enn sem komið er. Báðir starfa þeir hjá KPMG. Einar veitir skrifstofu félagsins á Selfossi forstöðu, en Friðrik vinnur á skrifstofu félagsins í Reykjavík. Vinnið þið eitthvað saman í verkefnum, eða ráðfærið þið ykkur hvor við annan íykkar störfum? Einar segir þá hafa unnið saman í einu litlu verkefni sem Friðrik hefur verið með í mörg ár og var kominn með áður en hann byrjaði hjá KPMG. Að öðru leyti hafa þeir ekkert hvor af öðrum að segja í vinnunni né heldur hvor yfir öðrum að segja. Vissulega ræða þeir saman um ýmis málefni sem snerta þeirra störf, en þegar Friðrik sótti um vinnu hjá KPMG tók Einar fram að hann yrði ekki undir hans verndarvæng heldur yrði að standa á eigin fótum. Einar telur að það hafi tekist og að ekki bæri á öðru en Friðrik hafi staðið sig nokkuð vel. Aðspurðir um hvort þeir hafi starfað við eitthvað annað upplýsti Einar að hann hafi verið sveitarstjóri í 5 ár og aðalbókari í hraðfrystihúsi í 5 ár áður en hann fór út í endurskoðunina. Friðrik vann áður við bókhald og þar á undan starfaði hann sem þjónn. Afhverju endurskoðendur? Eftir stúdentspróf fór Einar í Háskóla íslands og lauk cand oecon prófi af endurskoðunarsviði. Eftir að hafa starfað við annað í nokkur ár hóf hann störf hjá Endurskoðun hf. (nú KPMG) árið 1988. Þá leiddi eitt af öðru og hann ákvað að skella sér í prófin, enda hafði hann uppfyllt skilyrði fyrir því. Friðrik segist hafa verið mjög góður í bókfærslu í grunnskóla, en hafði gefið það út að hann ætlaði ekki að verða endurskoðandi eins og pabbinn. Friðrik reyndi fyrir sér í verkfræðinni í Háskólanum, en ákvað svo að snúa sér að endurskoðun. Einar, hefur þú reynt að hafa áhrif á starfsval sonarins? „Nei, ég setti mér það markmið að hlutast ekki til um starfsval barnanna minna, hvatti þau hvorki né latti í þessa átt." Einar segir að þegar Friðrik fór að tala um að þetta kæmi til greina þá ráðlagði hann syni sínum að sækja um starf við bókhald og byggja þannig upp góðan grunn sem myndi nýtast síðar. Friðrik fór að ráðum föður síns þarna og sér ekki eftir því. Friðrik, hafði faðir þinn einhver áhrif á þitt starfsval, beint eða óbeint? „Hann sagði aldrei orð upphátt, en það leyndi sér ekki eftir að ákvörðunin var tekin að honum líkaði það vel. Ég reikna með að hann hafi fagnað gríðarlega án þess að ég sæi til." Friðrik, áttu einhverjar minningar frá bernskuárum um föður þinn sem endurskoðanda? „Bara það hefðbundna, að hann var alltaf í vinnunni á vissum tíma ársins. Eitthvað var ég að sniglast í kringum hann og einu sinni man ég eftir því að hafa aðstoðað hann við að slá inn bókhald í tölvu." Friðrik segist hafa komist að því eftir að hann byrjaði að vinna hjá KPMG að menn geta eitthvað sjálfir haft að segja með vinnuálagið. Svo tók hann fram að fljótlega eftir að hann byrjaði tók hann eftir því að fólk skráði sig einhverja dagana heima hjá veiku barni. „Ég man ekki eftir því að það hafi staðið til boða þegar ég var lítill", segir Friðrik. Einar, sýndi Friðrik einhverja tilburði sem barn og unglingur sem bentu til þess að hann myndi feta í þín fótspor? „Ég tók eftir því að drengurinn sýndi útgefnum ársreikningum sveitarfélaga mikinn áhuga strax á unga aldri. Þá var þessum ársreikningum dreift á öll heimili og Friðrik sökkti sér ofaní þá og spurði mig svo útúr." Þeir feðgar hafa stundað veiðar saman undanfarin ár. Einar hefur ekki hikað við að segja syni sínum til á þeim vettvangi, þó hann geri það ekki í vinnunni. „Ég er búinn að sýna honum fram á að það gengur ekki að standa út í miðri á með iPod við veiðar. Þannig nær maður engum árangri" segir Einar. Að lokum má geta þess að þeir hafa fengið nýtt sameiginlegt áhugamál nú í vetur, eftir að Friðrik gerði Einar að afa nú í febrúar. Þegar talið berst að því verður ekki hjá því komist að finna hve stoltir þeir eru af dóttur sinni og sonardóttur. FLE blaðið júlí2010 • 33

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.