Ráðunautafundur - 20.02.1996, Síða 114
106
ljós að danskur maður var að vinna að rannsóknum á hliðstæðu fyrirbæri á Grænlandi (Niel-
sen 1984). Nánari eftirgrennslan leiddi í ljós að á Grænlandi var nákvæmlega sama vandamál
á ferðinni, en þá var ekki vitað um slíkar skemmdir í túnum í öðrum löndum. Var meðal
annars haft samband við jurtasjúkdómafræðing í Norður-Noregi, og kannaðist hann ekki við
fyrirbærið sem vandamál, en fór að svipast um eftir því, setti klausur í bændablöð og bað
menn að tilkynna um slíkar skemmdir. Er skemmst frá því að segja að mikill fjöldi tilkynn-
inga streymdi inn, og síðan er þetta einnig þekkt fyrirbæri í Norður-Noregi (Johansen 1987).
Síðan hefur komið í ljós að hann veldur einnig tjóni á grösum í Japan (Kanda og Hirai 1990).
MÍTLAR
Það hefur oft valdið misskilningi að þessi smádýr eru á íslensku nefnd maurar, en erlendir
skógarmaurar eru sexfættir og af flokki skordýra (Insecta) en roðamaurarnir eru áttfættir og
af flokki áttfætlna (Acarina) og því náskyldir köngulóm. Hérlendis dafna ekki villtir maurar,
sem á ensku nefnast „ants“, og á skandinavisku „maur“ eða „myre“, einungis hafa fundist
hér nokkrar tegundir húsamaura. Hins vegar er hér, einkum í jarðveginum, mikill fjöldi teg-
unda af áttfætlumaurum, sem á ensku nefnast „mites“ og á skandinavisku „midder". Hafa
þegar verið greindar yfir 300 tegundir hérlendis og eflaust eru þær miklu fleiri. Vegna þess
að heitið áttfætlumaur fer illa í samsetningu og til að eyða ruglingi við hina eiginlegu maura
hef ég lagt til að áttfætlumaurarnir verði nefndir mítlar (Bjarni E. Guðleifsson 1985). Eftir
þessu ætti til dæmis fjárkláðamaurinn, rykmaurinn, gróðurhúsaspunamaurinn og fjörulúsin
að nefnast fjárkláðamítill, rykmítill, gróðurhúsaspunamítill og fjörumítill en ekki maur eða
lús.
Mítlarnir eru sjaldan yfir 1 mm á lengd, höfuð, frambolur og afturbolur hafa runnið
saman í einn stuttan og breiðan bol, andstætt eiginlegum maurum sem eru liðskiptir eins og
önnur skordýr. Munnlimir mynda rana til að sjúga eða klippa fæðuna. Mítlar lifa bæði sem
sníkjudýr og rotverur. Úr eggjunum skríða lirfur sem eftir hamskipti breytast í gyðlur og eftir
mismörg hamskipti og gyðlustig kemur loks fram fullþroska mítill sem verpir eggjum. Eftir
lifnaðarháttum eða byggingu er þeim skipt í hópa, en greining þeirra er sérfræðivinna.
Tegundagreining sýndi að umræddar skemmdir í túnunum hérlendis voru aðallega af
völdum mítlategundarinnar Penthaleus major, sem nefndur er túnamítill. Þetta er ekki sama
tegund og aðallega skríður upp veggi og inn í byggingar en það er tegundin Bryobia praeti-
osa (eða B. cristata) nefndur veggjamítill. Frændi túnamítilsins er svonefndur svarðarmítill