Ráðunautafundur - 20.02.1996, Page 195
187
ánum var um 700 g að meðaltali (Sigurgeir Þorgeirsson o.fl. 1990). Athugun á ullarþunga og
ullarmati á Hesti 1992-93 sýndi mjög svipaða niðurstöðu fyrir 2-4 vetra ær af Hestsstofni og
hér kemur fram. Þá var haustullin 2,24 kg og snoðullin 550 g að meðaltali og 41 % af haustull
flokkaðist í Úrval og I. flokk (Ingi Garðar Sigurðsson 1994). Þvottarýrnun ullarinnar liggur
ekki fyrir og getur munur milli tilrauna legið að einhverju leyti í mismiklum óhreinindum.
Fiskimjölsgjöf hafði jákvæð áhrif á ullarvöxt í tilrauninni og var munur á heildarullar-
magni um 200 g a kind milli fiskimjöls- og heyflokka. Aukningin var ekki mikil hlutfallslega
og má vera að erfitt sé að hafa veruleg áhrif á ullarvöxt íslenskra áa með fóðurgjöf að vetri
þegar ullarvöxtur er mjög hægur. Nýting próteins til ullarvaxtar er mjög lág (0,26 AAT), sem
byggist á ólíkri samsetningu ullarpróteins og örveru- og fóðuipróteins (Bragi Líndal Ólafsson
1995). Erlendar rannsóknir hafa sýnt að svörun í ullarvexti við fóðurgjöf er minni í fjárkynjum
með árstíðabundnar sveiflur í ullarvexti en t.d. í Merinófé sem hefur stöðugan ullarvöxt allt
árið (Reis 1982). Meðalvöxtur á þurri ull á tilraunaánum frá hausti til snoðrúnings, var
einungis 3,7-4,2 g/dag en meðalvöxtur frá vetri (vori) til hausts var 7,4-8,8 g/dag og ullar-
vöxtur virðist hafa verið mjög hægur á síðari hluta meðgöngutíma.
Áhrif fiskimjölsgjafarinnar komu einnig fram á þyngingu ánna, fæðingarþunga lamba og
þunga lamba að hausti. Áhrif á lambaþunga komu nær eingöngu fram hjá ám sem rúnar voru í
mars og skýringar á því liggja ekki ljóst fyrir. I tilraunum með fiskimjölsgjöf fyrir burð á Hesti
komu fram jákvæð áhrif á fæðingarþunga, sérstaklega þegar gróffóðrið var lélegt, en ekki er
getið áhrifa á haustþunga eða vaxtarhraða lamba (Stefán Sch. Thorsteinsson og Sigurgeir
Þorgeirsson 1989). Hægt er að leiða að því líkur að fiskimjölsgjöfin hafi nýst betur hjá ám
sem rúnar voru fyrr vegna þess að þeim hafi gefist tími til að ná sér eftir rúninginn tímanlega
fyrir burð. Ærnar virðast hafa haldið betur nyt fram eftir sumri þar sem samspilsáhrifin komu
skýrast fram seinni hluta sumars.
í heild benda niðurstöðurnar til þess að heppilegasti rúningstími á snoði á ungum ám sé
á milli rúningstímanna í tilrauninni, eða 20.-.25 mars. Ef snoð er klippt of snemma spillir það
haustullinni en rúningur stuttu fyrir burð getur haft neikvæð áhrif á mjólkurframleiðslu ánna.
Fiskimjölsgjöf að vetri eykur ullarvöxt nokkuð og hefur jákvæð áhrif á afurðamagn, en frekari
rannsókna er þörf áður en langtímaáhrifum fiskimjölsgjafar á vöxt lamba er slegið föstum.