Morgunblaðið - 05.01.2017, Blaðsíða 82
82 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. JANÚAR 2017
)553 1620
Laugarásvegi 1, 104 Reykjavík
laugaas@laugaas.is • laugaas.is
Veisluþjónusta
Lauga-ás
Afmæli
Árshátíð
Gifting
Ferming
Hvataferðir
Kvikmyndir
Íþróttafélög
Við tökum að okkur að skipuleggja
smáar sem stórar veislur.
Lauga-ás rekur farandeldhús í hæsta
gæðaflokki og getur komið hvert sem
er á landinu og sett upp gæða veislu.
Er veisla framundan hjá þér?
Hafðu samband við okkur og við
gerum þér tilboð.
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Ósk mín er sú að áhorfendur fari út
af sýningunni og rífist um innihald
hennar á leiðinni heim í bílnum.
Markmið okkar er að hreyfa við
áhorfendum og fá þá til að spyrja sig
spurninga, að því leyti er þetta
krefjandi sýn-
ing,“ segir Una
Þorleifsdóttir,
leikstjóri sýning-
arinnar Gott fólk
sem Þjóðleik-
húsið frumsýnir
annað kvöld.
Verkið byggir á
samnefndri
skáldsögu Vals
Grettissonar, sem
sjálfur vann
handritið í samvinnu við Unu og
Símon Birgisson, sýningar- og hand-
ritsdramatúrg Þjóðleikhússins.
Leikritið fjallar um Sölva, sem
fær óvænt bréf frá Söru, fyrrverandi
kærustu sinni, þar sem hún sakar
hann um að hafa beitt hana ofbeldi í
sambandinu. Í stað þess að leita til
dómstóla vill Sara, ásamt gamla
vinahópi Sölva, notast við ábyrgðar-
ferli til að ná fram réttlæti í málinu.
Sölvi þarf að játa á sig glæpinn og
leita sér hjálpar. Með hlutverk Sölva
og Söru fara Stefán Hallur Stefáns-
son og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.
Blaðamaður Morgunblaðsins settist
niður með þeim og leikstjóra sýn-
ingarinnar að lokinni æfingu fyrr í
vikunni.
Tökum ekki afstöðu
„Þetta er áhugavert og hættulegt
efni,“ segir Una.
„Við erum á ákveðnu hættusvæði
varðandi það hvað má og má ekki
segja; hvernig fjalla má um hlutina
og hvernig ekki; hvað er prívat og
hvað opinbert,“ segir Stefán Hallur.
„Við höfum haft það að leiðarljósi
að taka hvorki afstöðu með Sölva
eða Söru í sýningunni og fylgjum þar
bókinni. Einn helsti kostur bókar-
innar er einmitt að lesandinn sveifl-
ast sífellt á milli þess með hvoru
þeirra hann heldur,“ segir Vigdís
Hrefna.
„Lykilspurning verksins er hver er
sekur og hver saklaus. Í persónu-
legum samskiptum getur það reynst
mjög grátt svæði, enda gildir hið
fornkveðna: Sjaldan veldur einn þá
tveir deila,“ segir Stefán Hallur.
„Í öllum nánum samböndum, líka
heilbrigðum nánum samböndum, fer
fólk yfir mörk hvert annars í orðum
og gjörðum. Síðan er spurningin
hvernig fólk tekst á við það, hvort
samskiptin lenda í vítahring sem
endar í einhverju sem er ófyrirgef-
anlegt eða hvort fólk nær að vinna sig
út úr hlutunum. Ég get ekki ímyndað
mér samband sem varað hefur leng-
ur en þrjú til fjögur ár þar sem ekki
hefur eitthvað komið upp á sem ein-
hver hefur upplifað sem einhvers
konar niðurrif, óþægilegar aðstæður
eða neikvæða hegðun. Því við leyfum
okkur yfirleitt að ganga mun lengra
gagnvart þeim sem við elskum en
öðru fólki. Ást er ákvörðun; við tök-
um ákvörðun um að vera í ástarsam-
bandi. Í því ljósi hlýtur maður að
þurfa að taka ábyrgð á því hvernig
maður hagar sér ef maður ætlar að
elska. Okkur hættir til að gleyma því
að við tókum meðvitaða ákvörðun um
að elska einhvern og förum bara að
haga okkur eins og fífl,“ segir Una.
„Þó að þessi saga fjalli um elsk-
endur eiga spurningar verksins er
snúa að ofbeldi, mörkum og sátt líka
við í annars konar samskiptum milli
t.d. vina og vinnufélaga,“ segir Vigdís
Hrefna og bendir á að uppsetning-
arvinnan hafi kallað á að leikhóp-
urinn skoðaði hvenær og hvernig fólk
setti mörk.
„Við getum öll á einhvern hátt
tengt við þetta efni. Við erum alltaf í
einhvers konar samskiptum þó að við
séum sjaldnast að skoða meðvitað
hvernig samskiptin eru eða hvert
valdataflið í þeim er. Í verkinu skoð-
um við hvernig ást getur breyst í hat-
ur og orðið stórhættuleg,“ segir Stef-
án Hallur.
„Líka hvernig samfélagið tekur
völdin. Því þau missa þetta úr hönd-
unum,“ segir Vigdís Hrefna og vísar
þar til ábyrgðarferlisins sem persón-
ur verksins fara í.
„Í grunninn felst ábyrgðarferli í
því að styðja geranda og þolanda í því
að leita lausna á sínum vandamálum
með aðstoð sérfræðinga þar sem
hvor um sig fær aðstoð til þess að
takast á við hlutina. Hugmyndin sem
slík er mjög góð, en hún þarf að vera
praktíseruð prívat. Feillinn í ferlinu
sem farið er í í bókinni og leikritinu
er að það eru engir sérfræðingar sem
styðja þau. Þegar ferlið er tekið út úr
prívatsamhengi missa þau tökin á
umræðunni enda ekki hægt að hafa
stjórn á heilu samfélagi,“ segir Vigdís
Hrefna.
Enginn fæðist ofbeldismaður
„Við virðumst vera fullkomlega
ófær um að eiga vitibornar samræð-
ur um hluti eins og ábyrgð og upplif-
anir, mörk og markaleysi, á hverju
maður beri sjálfur ábyrgð í sam-
skiptum og hverju ekki. Í öðru sam-
hengi er sumt af því sem Sölvi gerir
þess eðlis að það er ekki hægt að
segja að það sé ofbeldi nema ætla að
teygja hugmyndina um ofbeldi mjög
langt. Á ensku er annars vegar talað
um „violence“ sem nær yfir líkamlegt
ofbeldi og nauðgun og hins vegar um
„abuse“ sem felur í sér þvingun eða
misbeitingu. Í orðræðunni hérlendis
tölum við alltaf um ofbeldi – allt er of-
beldi. Þegar farið er að tala um að
skattar séu ofbeldi og léleg fram-
koma nauðgun hafa þessi orð ekki
lengur neina merkingu,“ segir Una
og bendir á að ofbeldismál kveiki
mikla heift og reiði í samfélaginu sem
leiði til fordæminga í stað lausna.
„Það er vandamálið. Þessi mál snú-
ast ekki bara um einstaklinginn sem
beitir ofbeldinu eða þolandann. Þetta
hlýtur líka að snúast um samfélagið
og samfélagslega ábyrgð; hvernig við
ölum upp drengi og stúlkur; hvernig
við kennum samskipti við hitt kynið.
Það fæðist enginn ofbeldismaður. Við
nærumst hins vegar á því umhverfi
sem við lifum í og erum mótuð af
fyrirmyndum og sjónvarpsefni. Sam-
félagslegir þættir móta þannig sam-
skipti kynjanna, en hins vegar er
sjaldnast horft á stóra samhengið í
umræðunni,“ segir Una.
„Sýningin, eins og bókin, reynir að
leita svara við því hvort Sölvi hafi
beitt Söru ofbeldi og þá hvers konar
ofbeldi. Er það sem hann gerði of-
beldi? Er hann þá ofbeldismaður?“
segir Stefán Hallur og tekur fram að
fyrirgefningin og sáttin hafi einnig
mikið verið til skoðunar hjá leik-
hópnum.
„Þetta snýst ekki bara um að fyrir-
gefa hvort öðru – heldur líka að fyrir-
gefa sjálfum sér. Hvenær öðlast mað-
ur raunverulega sátt við sjálfan sig?
Getur þú fyrirgefið sjálfum þér ef þú
horfist í augu við það að þú hafir
brotið á annarri manneskju? Leiðin
að slíkri sjálfsskoðun er þyrnum
stráð og vandasamt getur verið að ná
sáttum,“ segir Stefán Hallur.
„Líkt og maður tekur ákvörðun
um að elska tekur maður ákvörðun
um að fyrirgefa. Þú getur aldrei kraf-
ið aðra manneskju um fyrirgefningu,
ekkert frekar en þú getur sett ann-
arri manneskju skilyrði til þess að
hún hljóti fyrirgefningu. Gerandinn
þarf ekki að sýna iðrun til þess að
þolandi geti fyrirgefið. Maður á fyrir-
gefninguna bara fyrir sjálfa sig, því í
raun er þetta sjálfsvinna til að öðlast
sálarró,“ segir Una.
Sölvi gæti verið hver sem er
Athygli vekur að allir leikarar
verksins klæðast eins búningum og
leikmyndin samanstendur af örfáum
munum ásamt myndbandi, sem eru
mínimalísk, en á sama tíma hönnuð
til að hjálpa áhorfendum að skilja
hvar atburðir fara fram og styðja við
atburðarás og hugarheim persón-
anna. Spurð hver hugsunin hafi verið
þar að baki segir Una að markmið
þeirra Evu Signýjar Berger, sem
hannar útlit sýningarinnar, hafi verið
að búa til ákveðið hlutleysi.
„Við erum ótrúlega fljót að dæma
fólk út frá klæðnaði, útliti og fram-
komu. Við Eva sáum að annaðhvort
myndum við setja upp stofudrama,
sem okkur fannst ekki spennandi,
eða finna aðra leið til að segja þessa
sögu. Sölvi gæti verið hver sem er.
Það skiptir ekki máli hvaða þjóð-
félagshópi hann tilheyrir. Það skiptir
því ekki máli í hvaða fötum þau klæða
sig eða hvaða dót þau eiga. Það sem
þau segja og gera er það sem skiptir
máli. Það er grunnhugsunin í því að
sviðið er svona bert. Við gefum áhorf-
endum ekki færi á að lesa í neitt
nema leikinn og það sem þau segja,“
segir Una.
Auk Stefáns Halls og Vigdísar
Hrefnu leika í sýningunni Lára Jó-
hanna Jónsdóttir, Snorri Engil-
bertsson, Baltasar Breki Samper og
Birgitta Birgisdóttir. Dramatúrg og
aðstoðarleikstjóri er Gréta Kristín
Ómarsdóttir. Tónlistin er eftir Gísla
Galdur Þorgeirsson og myndbands-
hönnun er í höndum Rolands Hamil-
ton. Jóhann Friðrik Ágústsson og
Magnús Arnar Sigurðarson hönnuðu
lýsingu.
„Þetta er hættulegt efni“
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Prívat Stefán Hallur Stefánsson, Snorri Engilbertsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir í hlutverkum sínum.
Una
Þorleifsdóttir
Þjóðleikhúsið frumsýnir Gott fólk annað kvöld Ofbeldi, mörk og fyrirgefning eru lykilþemu
Markmið leikhópsins er að taka ekki afstöðu heldur hvetja leikhúsgesti til að spyrja sig spurninga