Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.01.2017, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.01.2017, Blaðsíða 4
Gjaldtakan sögð óhjákvæmileg Í desember 2014 tók stjórn Skíðasvæða höf-uðborgarsvæðisins, SHB, ákvörðun um aðtaka gjald af skíðagöngufólki sem legði leið sína í Bláfjöll en fram að þeim tíma hafði engin gjaldtaka átt sér stað. Með gjaldtökunni átti að mæta þeim kostnaði sem fellur til við þjónustu við gönguskíðamenn og jafnframt að eiga möguleika á að bæta enn frekar aðstöðuna á svæðinu, til dæmis með aukinni lýsingu göngu- brauta og snjógirðingum. Bæði er hægt að kaupa vetrarkort á kr. 11.500 og dagskort á kr. 950. Gjaldtaka af þessu tagi er ekki nýmæli hér á landi en hún hefur tíðkast lengur á Ísafirði og Akureyri. Eðlileg þróun Eva Einarsdóttir, borgarfulltrúi og formaður stjórnar Skíðasvæðanna, segir gjaldtökuna hafa verið óhjákvæmilega. „Gönguskíði hafa notið vaxandi vinsælda á síðustu árum og okkur þótti sanngirni í því að taka gjald af gönguskíðafólki til að geta bætt þjónustuna við þennan hóp og eiga möguleika á að bæta aðstöðuna. Segja má að þetta sé liður í því að byggja upp íþróttina. Gjaldið er að okkar mati hóflegt og þetta er eðlileg þróun í ljósi aukinna umsvifa. Það er eðlilegt að það kosti að fara á gönguskíði rétt eins og svigskíði eða í sund, svo dæmi sé tekið,“ segir Eva. Hún segir gjaldtökuna hafa gefið góða raun og sé að skila tilætluðum árangri. „Það bar á óánægjuröddum í upphafi, sem er ekkert óeðli- legt í ljósi þess að ekkert gjald hafði verið tekið áður. Þegar upp er staðið hefur þetta hins veg- ar tekist vel og almenn samstaða um að byggja gönguskíðin upp sem fjölskylduíþrótt. Því ber að fagna,“ segir Eva. Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, tekur undir þetta; ekki hafi allir verið ánægðir með gjaldtökuna í upphafi. „Það er alveg skilj- anlegt og fyrir vikið vorum við ekkert rosalega harðir á því að rukka fólk til að byrja með. Það er sjálfsagt að hafa aðlögun. Í vetur munum við hins vegar taka þetta föstum tökum.“ segir hann. Að sögn Einars hafa flestir tekið því vel að vera rukkaðir en þó ekki allir; sumir hafi brugð- ist dónalega við og dæmi sé um að stuggað hafi verið við starfsmanni Skíðasvæðanna. 140 vetrarkort seldust síðasta vetur og 715 dagskort og voru tekjur af sölunni kr. 1.800.000. Einar segir þetta kærkomna viðbót við reksturinn því dýrt sé að troða göngubraut- irnar. Meðalkostnaður við þær brautir síðustu þrjá vetur er kr. 4,7 milljónir en snjótroðarinn var að meðaltali 135 klukkustundir að störfum og ruddi að meðaltali 450 km á vetri. Fyrir utan þetta bendir Einar á að lýsing við brautirnar hafi verið aukin og eðlilegt sé að not- endur taki þátt í þeim kostnaði líka. Þess utan séu göngubrautirnar partur af skíðasvæðinu og inn á það kosti. „Við lítum á þetta sem eina heild og þjónusta og uppbygging eiga að koma öllum til góða.“ Hann upplifir ekki annað en að góð sátt sé um gjaldtökuna. „Þetta er þjónusta sem verður að vera og það er frábært að fá allt þetta göngu- skíðafólk í Bláfjöll. Alls staðar sem ég þekki til erlendis er tekið gjald af skíðagöngufólki og það var einfaldlega tímabært að taka upp sama fyrirkomulag hér. Ég finn ekki annað en fólk hafi fullan skilning á þessu,“ segir Einar. Skíðagöngufélagið Ullur rekur skála í Blá- fjöllum og segir Einar samstarfið við félagið einstaklega gott. „Ullur er að vinna frábært starf,“ segir hann. Í hærri kantinum Finnur Sveinsson, formaður Skíðagöngufélags- ins Ullar, segir gjaldtökuna hafa mælst mis- jafnlega fyrir. „Almennt þykir mönnum gjaldið í hærri kantinum miðað við gjaldið sem tekið er af svigskíðafólki en ekki er óeðlilegt að bera þessa tvo hópa saman. Það er ekki næstum því eins mikil vinna að troða braut og að viðhalda brekkum, rafmagni og öðru slíku. Ef við skoð- um árskortin þá eru skíðagöngumenn lengur að vinna sér inn fyrir þeim, þurfa að fara mun oft- ar í Bláfjöll en svigskíðafólkið,“ segir Finnur og bætir við að hækkanir á gjaldinu, bæði árs- og dagskortum, séu umfram verðlagsbreytingar. „Við erum hugsi yfir því líka.“ Fullt verð fyrir vetrarkort, sem gildir í allar lyftur og göngubrautir líka, er kr. 32.500. Posi er í skála Ullar í Bláfjöllum, svo Skíða- svæði höfuðborgarsvæðisins geti innheimt gjaldið, en Finnur segir Ull ekki að öðru leyti koma að málum. „Við höfum leyft þeim að inn- heimta gjaldið í skálanum en fylgjumst ekki með gjaldtökunni og vitum ekki hverju hún er að skila.“ Gjaldtaka sem þessi hlýtur að kalla á aukna þjónustu og Finnur segir nýju ljósin sem sett voru upp við göngubrautina í Bláfjöllum fyrir síðasta vetur til bóta. Þá sé unnið að því að bæta aðstöðu göngumanna við skálann. Þær framkvæmdir eru raunar á vegum Ullar, með styrk frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavík- ur, ÍTR. Finnur segir Ull á heildina litið eiga í ágætu samstarfi við Skíðasvæði höfuðborgarsvæð- isins. „Við eigum í stöðugu samtali við Skíðasvæðin um þróun svæðisins og hvernig við getum nýtt það og í sumar voru teknar út keppnisbrautir, svo við getum efnt til alþjóðlegra skíða- göngumóta í Bláfjöllum. Vonandi verðum við með eitt slíkt í febrúar,“ segir hann. Finnur treystir sér ekki til að fullyrða hvort þetta samtal sé betra eða verra eftir að gjald- takan kom til sögunnar. „Ég hef setið í stjórn í tvö ár og tók við formennsku fyrir ári, þannig að ég get ekki talað mig svo mikið inn í fortíð- ina.“ Gera má kröfur á móti Þóroddur Friðrik Þóroddsson, sem var formað- ur Ullar á undan Finni, tekur í svipaðan streng. „Það er ekkert óeðlilegt að skíðagöngufólk greiði fyrir þessa aðstöðu í Bláfjöllum, henni fylgir kostnaður. Það má hins vegar deila um upphæðir í þessu sambandi og persónulega þykir mér þetta gjald heldur hátt, sérstaklega fyrir dagskortið,“ segir hann. Um leið og gjaldi hefur verið komið á þykir Þóroddi eðlilegt að gera kröfur á móti. Hann segir erfitt að mæla nákvæmlega hvað hefur breyst í Bláfjöllum eftir að gjaldið var tekið upp en skíðagöngufólk hafi þó ekki undan neinu að kvarta. „Sú var tíðin að við mættum algjörum afgangi; mönnum þótti ekki liggja á að leggja spor fyrr en í fyrsta lagi eftir hádegi, þegar löngu var búið að opna brekkurnar. Sem betur fer hefur þetta breyst mikið og starfsmenn Skíðasvæðanna eru allir af vilja gerðir til að hafa aðstöðuna til skíðagöngu sem allra besta.“ Skíðaganga í Bláfjöllum. Morgunblaðið/Ómar Gjald hefur nú verið tekið af skíðagöngufólki í Bláfjöllum í tvö ár. Formaður stjórnar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins segir gjaldið hafa skilað tilætluðum árangri og stuðlað að uppbyggingu íþróttarinnar en skíðagöngufólki þykir það í hærri kantinum. Einar Bjarnason Þóroddur Friðrik Þóroddsson Gönguskíði njóta vaxandi hylli. Morgunblaðið/Þorkell Eva Einarsdóttir 4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.1. 2017 ’Almennt þykir mönnum gjaldið í hærri kantinum miðað viðgjaldið sem tekið er af svigskíðafólki en ekki er óeðlilegt að beraþessa tvo hópa saman. Finnur Sveinsson, formaður Skíðagöngufélagsins Ullar. INNLENT ORRI PÁLL ORMARSSON orri@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.