Veðráttan

Árgangur

Veðráttan - 01.06.1999, Blaðsíða 1

Veðráttan - 01.06.1999, Blaðsíða 1
ISSN 0258-3836 VEÐRÁTTAN 1999 MÁNAÐARYFIRLIT SAMIÐ Á VEÐURSTOFU ÍSLANDS Júní Tíðarfarið í mánuðinum var rysjótt einkum á sunnan- og vestanverðu landinu þar sem var úrkomusamt og svalt og gróður fór seint af stað. Norðan til var hlýrra en kal var víða í túnum. Snjór var óvenju lengi í fjöllum ofan byggða. I byrjun mánaðarins var norðaustlæg átt og fremur kalt en hlýnaði fljótt þegar smá lægð myndaðist suðvestur af landinu þ. 2. og vindátt snerist til austurs og suðausturs. Skýjað var um allt land og víða súld eða rigning við ströndina, einkum þ. 3. þegar lægðin þokaðist austur með suðurströndinni. Þ. 4. létti smám saman til um leið og hæðarhryggur sunnan úr hafi þokaðist austur yfir landið og var hæg vestlæg átt næsta dag og skúrir vestanlands. Dagana 6.-13. var fremur milt og vætusamt á landinu og suðlægar áttir ríkjandi. Háþrýstisvæði var vestur af Bretlandseyjum og lægðir eða lægðardrög á sunnanverðu Grænlandshafi. Vætusamt var við suður- og suðvesturströndina en þurrt og bjart að mestu fyrir norðan og austan. Úrkomusvæði var yfir vestanverðu landinu þ. 7. og annað þ. 8. en þurrt hélst um allt austanvert landið. Aðfaranótt þ. 9. létti til um stundarsakir á vestanverðu landinu en fljótlega fór að súlda og var þokumóða við suðurströndina. Þ. 10. dýpkaði lægð við Hvarf og þokaðist úrkomusvæði frá henni í átt til landsins. Herti þá sunnanáttina og hlýnaði og var sá 11. hlýjasti dagur mánaðarins að tiltölu. Talsvert rigndi á sunnan- og vestanverðu landinu, en þurrt var að mestu fyrir norðan og austan, nema við ströndina, þar voru skúrir. Þ. 13. lægði að mestu um allt land. Dagana 14.-19. var fremur svalt og voru vestlægar áttir ríkjandi. Lægðardrög voru á hreyfingu austur yfir land fyrstu tvo dagana og var norðan kalsarigning fyrir norðan og sums staðar slydda til fjalla en vestanátt og skúrir suðvestanlands. Að morgni þ. 16. létti til um stundarsakir á landinu nema við norðausturströndina, þar var norðvestan strekkingur og skúrir. Aðfaranótt 17. júní var vaxandi lægð við Hvarf á ieið norðaustur og fór að rigna frá henni í allhvassri suðaustanátt um allt vestanvert landið upp úr hádegi en úrkomulítið var austan til. I kjölfarið fylgdi vestanátt með skúrum og rigndi sums staðar á Norðurlandi næsta dag og einnig þ. 19. þegar lægðardrag þokaðist suður landið. Kaldast að tiltölu var á þessu tímabili. Þ. 20. létti til um allt land og hægðarhryggur sunnan úr hafí þokaðist austur yfir land. Dagana 21.-23. var sunnan strekkingur á vestanverðu landinu en hægari suðvestanátt um austanvert landið. Súld var með köflum við suður- og vesturströndina og víða til fjalla, en á láglendi annars staðar var úrkomulítið, þurrt og sums staðar léttskýjað. Síðdegis þ. 24. snerist vindátt til austurs um leið og vaxandi lægð fór austur um haf fyrir sunnan land. Stíf austanátt var við suðurströndina þ. 25. og rigning í flestum landshlutum. Lægðin fjarlægðist og grynntist næsta dag og það sem eftir lifði mánaðarins var hæð fyrir norðan land og lægð yfir Bretlandseyjum. A landinu var hæg austnorðaustlæg átt. Vætusamt og svalt var við austur- og norðurströndina en úrkomulítið á sunnan- og vestanverðu landinu og stundum léttskýjað. Þokubakkar voru sums staðar við ströndina. Síðustu tvo daga mánaðarins lægði og létti til víða og hlýnaði þá verulega. Loftvægi var 3,6 mb undir meðaltali áranna 1931-1960, frá því að vera 4,4 mb undir í Sth að vera 2,5 mb undir í Vm. Hæst stóð loftvog 1030,1 mb í Akn þ. 11. kl. 9 og lægst 987,1 mb í Blnv þ. 18. kl. 12. (41)

x

Veðráttan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Veðráttan
https://timarit.is/publication/278

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.