Víkurfréttir


Víkurfréttir - 06.02.2014, Blaðsíða 14

Víkurfréttir - 06.02.2014, Blaðsíða 14
fimmtudagurinn 6. febrúar 2014 • VÍKURFRÉTTIR14 -íþróttir pósturu eythor@vf.is 60 manna hópur NES til Malmö u Íþróttafélagið NES mun á morgun föstudag skella sér á íþróttamótið Malmö Open sem fram fer í Svíþjóð. Alls fer um 60 manna hópur frá NES og munu keppendur keppa í sundi og boccia. Með í ferð verða þjálfarar og aðstandendur keppenda. Mikil eftirvænting er komin í mann- skapinn og allir ætla að gera sitt besta ásamt því að kynnast nýju fólki og skoða sig um í Malmö. Er þetta í annað skipti sem NES fer á mótið en í fyrra stóðu keppendur sig með mikilli prýði. Við á VF munum fylgjast með gengi NES á mótinu og flytja fréttir á vf.is. Porsche Landry farin frá Keflvíkingum uKvennalið Keflavíkur í Dom- ino's deildinni hefur samið við Diamber Johnson sem áður lék með Hamri. Porsche Landry mun því ekki leika áfram með liðinu en hún er farin af landi brott. Sam- kvæmt upplýsingum Víkurfrétta óskaði Landry eftir því að komast heim til Bandaríkjanna og virtist leikmaðurinn ekki hafa löngun til þess að spila hérlendis lengur. Áður en leikmannaglugginn lokaðist bauðst Keflvíkingum að fá Johnson til liðsins og það þáðu þeir með þökkum. „Við ætluðum okkur að hafa þær báðar fyrst til að byrja með og taka svo ákvörðun. Porsche vildi svo halda aftur heim og því tók hún í raun ákvörðunina fyrir okkur,“ sagði Sævar Sævarsson í stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur í samtali við Víkur- fréttir. Hann sagðist ekki viss um hvaða ástæður lægju að baki, hvort um heimþrá væri hreinlega að ræða hjá Landry. Grindvíkingar í bikarúrslit uGrindvíkingar tryggðu sér sæti í bikarúrslitum karla í körfubolta með góðum sigri gegn Þórsurum. Leikurinn fór fram í Grindavík og lauk honum með 93-84 sigri Ís- landsmeistaranna. Grindvíkingar byrjuðu af krafti og leiddu 32-19 eftir fyrsta leikhluta. Allt virtist stefna í stórsigur en Þórsarar voru ekki á þeim buxunum. Gestirnir minnkuðu muninn í næstu tveimur leikhlutum og hleyptu spennu í leikinn. Að lokum sýndu Grindvíkingar þó styrk sinn og höfðu níu stiga sigur. Grind- víkingar leika svo gegn ÍR-ingum í úrslitum en leikurinn fer fram síðar í febrúar. Jóhannes aðstoðarþjálfari Keflvíkinga Jóhannes Hleiðar Gíslason var í vikunni ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna Keflavíkur í knattspyrnu. Hann verður því Heiðari Birni Torleifssyni þjálfara liðsins til aðstoðar fram á haust. Ráðningin er liður í því að efla kvennaknattspyrnuna hjá Kefla- vík. Friðrik Erlendur Stefánsson kom til Njarðvíkinga um rúmlega tvítugt. Hefur hann verið sigursæll með liðinu svo ekki sé meira sagt. Nú þegar „Heimakletturinn“, eins og hann er stundum kallaður, er að slaga í 38 árin, er þó kominn tími til þess að segja þetta gott. Miðherjinn stæðilegi hóf tímabilið í haust með það fyrir augum að freista þess að fá lokatækifæri til þess að berjast um titla. Faðir tími og meiðsli hafa hins vegar reynst erfið og því var ákvörðunin tekin um að hætta. Þegar blaðamaður Víkurfrétta náði tali af Friðriki var hann nýbúinn að spila einn- á-einn við stórsöngvarann Sverri Bergmann. Ætli það hafi ekki verið síðasti leikurinn á ferlinum. Var sáttur við að hætta Friðrik hætti áður körfuboltaiðkun árið 2011 og hann var satt best að segja nokkuð sáttur við það. „Ég var alveg fínn, ætla ekkert að ljúga að þér með það. Það vantaði svo stóran varamann og ég sló aftur til. Maður fer svo bara aftur að æfa eins og maður sé 25 ára ennþá og slakar lítið á.“ Friðrik segir að eftir tíma- bilið í fyrra hafi hann ekki verið alveg sáttur og viljað meira. Hann sá að mikið bjó í ungu strákunum í Njarðvík. Því átti að taka tímabilið núna með trompi. Skrokkurinn var hins vegar á öðru máli. Var á leið í handboltann Friðrik hóf ferilinn í heimabænum Vestmannaeyjum þar sem hann fékk fljótlega tækifæri með ungl- ingalandsliði Íslands, enda stórir og sterkir strákar ekki á hverju strái. Hann tók svo þá ákvörðun að reyna fyrir sér í höfuðborginni og varð KR þar fyrir valinu. Hann fór eftir það á svolítið flakk. Þá stóð til boða að fara til Ísafjarðar að spila og Friðrik stökk á það tækifæri. „Það var enn eitt flippið og gerðist bara fyrir röð tilviljana.“ Friðrik lék þar með KFÍ í 1. deild en bauðst svo að fara til Þórs Akureyri þar sem hann hugðist reyna fyrir sér í úrvalsdeildinni. Atvinnuástandið var ekki sem best fyrir norðan á þeim tíma svo Friðrik fór á æsku- slóðirnar þar sem loðnuvertíð og handbolti tóku við. „Þar datt ég inn í handboltann aftur og var á leið til Svíþjóðar með liði ÍBV í æfingaferð. Þorbergur Aðalsteinsson fyrrum landsliðsþjálfari var þarna með liðið,“ rifjar Friðrik upp og hlær. Þá kom aftur símtal frá Ísafirði þar sem óskað var eftir starfskröftum Vestmannaeyingsins stóra. Þrátt fyrir að kunna ágætlega við hand- boltann kallaði körfuboltinn á Friðrik. Þar fór boltinn að rúlla og Friðrik vakti athygli fyrir vasklega framgöngu sína. Eftir eitt ár með KFÍ í úrvalsdeild kom tilboð frá Bandaríkjunum. Háskóli í Jackson- ville, Flórída, vildi fá Friðrik í sínar raðið og var hann spenntur fyrir því. Það gekk hins vegar ekki upp af ýmsum ástæðum. Hafði alltaf haldið með Njarð- vík Njarðvík var lið sem Friðrik hafði hug á að leika með. „Ég hafði allt- af haldið með þeim þegar ég var yngri. Við Palli Kristins vorum líka miklir vinir í gegnum unglinga- landsliðin.“ Önnur lið vildu ólm fá miðherjann enda var hann þarna einn efnilegasti leikmaður lands- ins. „Ég hef bara alltaf fylgt minni sannfæringu. Oft getur það verið djöfuls vitleysa hjá manni. Maður hefði kannski átt að elta peningana einhvern tímann,“ segir Friðrik um þá ákvörðun að fara til Njarðvíkur á sínum tíma. Það átti hins vegar eftir að reynast ágætis ákvörðun hjá honum. Fór í starfsnám til Finnlands Friðrik segir að af og til hafi komið tilboð um tækifæri í atvinnu- mennsku auk þess sem önnur ís- lensk lið hafi viljað hann. Friðrik reyndi fyrir sér í Finnlandi um stutta stund en það segir hann ein- faldlega hafa verið algjört klúður. „Ég var þarna á starfssamningi í stutta stund,“ segir miðherjinn kíminn. „Þar var enginn peningur og snarvitlaus þjálfari. Tóm veit- leysa bara,“ segir Friðrik og hlær. Allt toppmenn í Njarðvík Þegar Friðrik lítur yfir farsælan feril hjá Njarðvík er þar margs að minnast. „Það fór m.a. fram risa- stór bikarúrslitaleikur árið 99’ þegar Hemmi [Hauksson] rölti aðeins og smellti þristi til þess að jafna leikinn,“ rifjar hann upp. Allir titlarnir sem unnust eru eftir- minnilegir en tímabilið 2005-2006 var sérstaklega eftirminnilegt að sögn Friðriks. „Það var mitt besta tímabil. Þá var ég fyrirliði og við vorum með virkilega flottan hóp. Þarna voru ungir guttar í bland við okkur sem vorum leiðtogar í liðinu. Þarna voru sérstaklega margir góðir varnarmenn. Ég hef reyndar verið heppinn með að hafa haft góða varnarmenn með mér í Njarðvík, það eru mikil for- réttindi.“ Aragrúi leikmanna hafa orðið á vegi Friðriks á ferlinum. Margir hverjir ansi eftirminnilegir persónuleikar. „Fyrsta nafnið sem skýst upp í hausinn á mér er Ör- lygur heitinn. Svo gæti ég haldið áfram endalaust, þetta eru allt ein- tómir snillingar. Þetta eru allt topp- menn hérna í Njarðvík.“ Alltaf tilbúinn að spila fyrir þjóðina Friðrik á 112 landsleiki að baki og þykir það mikill heiður. Hann hefur sterkar skoðanir á land- liðinu og rekstri þess. „Það er til háborinnar skammar hvernig ríkið kemur fram við mörg landslið okkar. Maður er þó alltaf tilbúinn að spila fyrir Ísland. Það er mesti heiður sem manni hlotnast. Það á líka að vera búið þannig að því að þú eigir að vera stoltur að spila fyrir þjóðina.“ Friðrik verður alltaf talinn meðal bestu íslensku miðherjanna en hann hefur barist við þá nokkra góða. „Á tímabili áttum við nokkra ansi frambærilega miðherja. Það var alltaf erfitt að spila gegn Fann- ari Ólafs og Hlyni Bærings. Svo var leiðinlegt að spila gegn Palla Krist- ins þegar hann fór til Grindavíkur.“ Þú getur ekki verið annað en sáttur með ferilinn, er það nokkuð? „Jú maður er sáttur. Ég er samt það mikill keppnismaður að maður er aldrei sáttur. Ég er alveg fáránlega tapsár,“ segir Friðrik og hlær. „Það eru hlutir sem svíða þegar maður horfir yfir ferilinn. Ef ég hefði samt talað um að eiga svona feril í körfu- bolta þegar ég var að slá úr tækj- unum á loðnuvertíð í Vestmanna- eyjum, þá held ég að fólk hefði talið mann vera eitthvað klikkaðan,“ segir Friðrik að lokum. Körfuboltinn kallaði - Frá loðnuvertíð í Vestmannaeyjum til Njarðvíkur Ef ég hefði samt talað um að eiga svona feril í körfubolta þegar ég var að slá úr tækjunum á loðnuvertíð í Vestmannaeyjum, þá held ég að fólk hefði talið mann vera eitthvað klikkaðan „Ég er samt það mikill keppnismaður að maður er aldrei sáttur. Ég er alveg fáránlega tapsár,“

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.