Víkurfréttir


Víkurfréttir - 26.06.2014, Blaðsíða 14

Víkurfréttir - 26.06.2014, Blaðsíða 14
fimmtudagurinn 26. júní 2014 • VÍKURFRÉTTIR14 Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er 21 árs Njarðvíkingur. Hún hefur alltaf verið frekar sterk að eigin sögn en aldrei fundið sig í neinum íþróttum. Hún slysaðist inn í Crossfit fyrir ekki svo löngu og hefur ekki litið um öxl síðan. Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði sterkt alþjóðlegt mót í París um síðustu helgi. Hún stefnir að því að skáka Crossfit-drottningunni Annie Mist en eins heillar atvinnumennskan hana á erlendri grundu. Hún er ríkjandi Hraustasta kona Íslands og landsliðskona í ólympískum lyftingum. Ætlar að ná Annie Mist Sara byrjaði að mæta í ræktina fyrir u.þ.b. fimm árum en hún fór ekki að stunda Crossfit fyrr en í september árið 2012. Margar æf- ingarnar eru ansi krefjandi en Sara segir að Crossfit snúist mjög mikið um tækni og í raun geti hver sem er framkvæmt Crossfitæfingar. „Þú þarft að vinna þig hægt og rólega upp í íþróttinni til þess að ná langt.“ Sara stefnir sjálf á toppinn í Cross- fit en þar er Annie Mist Þórisdóttir ríkjandi drottning. „Auðvitað ætla ég að ná henni. Stefnan er sett á heimsleikana á næsta ári. Mark- miðin verða svo hærri eftir það,“ segir Sara kokhraust en aðeins þeir þrír bestu frá Evrópu komast á heimsleikana hverju sinni. Eins og staðan er núna er Sara nærri því að vinna sér sæti á heimsleikunum en hún segist þurfa að bæta sig í fimleikum. Sér til aðstoðar hefur hún því fengið Evrópumeistarann og Keflvíkinginn Heiðrúnu Rós til þess að þjálfa sig. „Ég hef trú á því að hún bjargi mér,“ segir Sara og hlær. Sara rekur Crossfit Suður- nes ásamt Andra Þór Guðjónssyni kærasta sínum. Þau hafa komið sér vel fyrir í Sport- húsinu á Ásbrú og æfa þar af krafti ásamt fjölda fólks. Leiðin inn í Crossfit var þyrnum stráð Sara hún vissi ekki af íþróttinni fyrr en hún slysaðist til þátttöku. Á sínum yngri árum stundaði hún sund en þar fann hún sig ekki. Hún þreif- aði fyrir sér í öðrum íþróttum en fótaði sig hvergi. Sara tók þátt á Boot camp námskeiði þegar hún var 17 ára og var hæstánægð með að ná fimm armbeygjum á tánum. „Mér fannst ég vera svakalega sterk, eina stelpan sem náði arm- beygjum á tánum“ segir Sara og hlær dátt. „Mér fannst leiðinlegt í sundi þegar ég var yngri og fann alltaf afsakanir til þess að mæta ekki á æfingar. Ég hef alltaf verið mjög sterk en aldrei fundið mig í neinu áður,“ segir Sara sem þó fann sig vel í íþróttum í leikfimi en þar var hún yfirleitt sterkari en aðrar stelpur. Í landsliðinu í ólympískum lyftingum Nýlega byrjaði Sara að stunda ólympískar lyftingar og hafnaði hún í 3. sæti á Norðurlandamótinu á dögunum. Hún komst í lands- liðið í þeirri grein eftir að hafa keppt á aðeins einu móti. Hún hélt svo til Kýpur skömmu síðar og hafnaði í 2. sæti á sterku Crossfit- móti. Síðustu helgi gerði hún sér lítið fyrir og sigraði alþjóðlegt mót í Frakklandi þar sem margt öflug- asta Crossfitfólk í Evrópu mætti til leiks. „Ég er alltaf að bæta mig. Nú er það bara að halda fyrsta sætinu.“ Einnig ber Sara titilinn Hraustasta kona Íslands, en hún sigraði stiga- keppni Þrekmótaraðarinnar árið 2013. Blaðamaður spyr hvor hún telji sig standa undir því nafni „Já ég er líklega ein af þeim,“ segir hún með trega. „Ég stefni að því að sigra þessa keppni aftur, vonandi gengur það.“ Keppnisskapið kom fram í Crossfit „Ég er mjög mikil keppnismann- eskja,“ segir Sara og hlær. Hún vissi hreinlega ekki af keppnisskapinu áður en hún fór að stunda Cross- fit. „Það hjálpar vissulega til þess að ná árangri en stundum verður kappið of mikið.“ Það á sérstak- lega við þegar hún og kærastinn æfa saman. „Þá missi ég mig stundum,“ segir Sara en hún þver- tekur fyrir það að kærastinn eigi roð í hana. Sara segist æfa tvisvar á dag og auk þess er hún að þjálfa Crossfit. Hún æfir ekki eins stíft um helgar en hvíldin er mikilvæg í hennar augum. Andlegt ástand er einnig mikilvægt í þessari íþrótt. „Eftir því sem reynslan verður meiri þá verður auðveldara að yfirstíga stressið. Einnig er mikilvægt að borða vel fyrir keppni, mataræðið er gífur- lega mikilvægt,“ en Sara segir félagsskapinn vera mikinn styrk, enda styðji félagar hennar vel við bakið á henni. Finnur jafnan happapening á flugvöllum Sara hefur lent ítrekað í því að finna smámynt á flugvellinum þegar hún fer erlendis að keppa. „Þetta er frekar ótrúlegt en ég trúi ekki mikið á svona hjátrú, enda fann ég í fyrsta skipti ekki pening þegar ég fór til Frakklands, og þá vann ég,“ segir hún og hlær. Sara fór ekki með miklar væntingar til Frakklands en hún hafði það markmið að komast á verðlauna- pall. „Ég ákvað bara að gefa allt í botn þrátt fyrir að aðrar stelpur þarna væru hugsanlega betri en ég.“ Allt virtist ganga upp á mótinu og Sara fagnaði sigri eins og áður segir. Stefnir í atvinnumennsku Crossfitheimurinn er stór á heims- vísu og íþróttin er ört vaxandi. Nú er svo komið að Íslendingar eru að koma sér á kortið sem atvinnu- menn í Crossfit, en þangað stefnir Sara. Hún er þegar komin á samn- ing hjá stórum fæðubótaefnafram- leiðanda sem sér um að styrkja hana í keppnum erlendis. Íslensku stelpurnar vekja jafnan athygli á erlendri grundu og keppa oftast sín á milli um sigra á alþjóðlegum mótum. Þrjár þeirra eru þegar komnar í atvinnumennskuna, en ein þeirra er sú sem hafnaði í öðru sæti á eftir Söru í Frakklandi á dögunum. „Það er stefnan á næsta ári að komast í atvinnumennsk- una, það er bara þannig.“ Það er óneitanlega sérstakt að konurnar frá litla Íslandi séu í heimsklassa í Crossfit. „Þeir segja að það sé eitt- hvað í vatninu á Íslandi. Þetta er alveg magnað en vinsældirnar hafa aukist gríðarlega eftir að Annie Mist sigraði á Heimsleikunum,“ segir Sara að lokum. -íþróttir pósturu eythor@vf.is Hraustasta kona landsins er meðal þeirra bestu í Crossfit-heiminum Fjölskylduíþrótt við Mánagrund: Fjögur úr sömu fjölskyldu keppa á Landsmóti ■uLandsmót hestamanna fer fram við Hellu um næstu helgi. Fjórir einstaklingar úr sömu fjölskyldunni munu keppa fyrir hönd Hesta- mannafélagsins Mána; systkinin Ásmundur Ernir, Jóhanna Margrét og Signý Sól Snorrabörn og Stella Sólveig Pálmarsdóttir, unnusta Ásmundar. Signý Sól keppir í fyrsta sinn en hin hafa keppt töluvert oftar. Á myndinni er hópurinn ásamt foreldrum systkinanna, Snorra Ólafssyni og Hrönn Ásmundsdóttur. Sjónvarp Víkurfrétta tók viðtal við þau sem frumsýnt verður á ÍNN kl. 21:30 í kvöld. Krísa í Grindavík? - Óskar Pétursson skammast sín fyrir spilamennskuna hjá Grindvíkingum ■uÞað er óhætt að segja að Grind- víkingar hafi ekki staðið undir væntingum í 1. deild karla í fót- boltanum. Liðið var grátlega nærri því að komast upp í Pepsi- deildina í fyrra og í ár var búist við þeim gulklæddu sterkari til leiks. Þeir hafa einungis sigrað einn leik af sjö þetta sumarið og sitja sem stendur í næstneðsta sæti deildar- innar og fallið blasir við. Grind- víkingar eru að sjálfsögðu ekki af baki dottnir en þeir hafa séð það svartara. Markvörðurinn Óskar Pétursson hefur háð margar fall- baráttur í gegnum árin en hann viðurkennir að Grindvíkingar séu alls ekki í neinni óskastöðu. „Það er hálfgerð krísa í Grindavík. Þetta er afleit byrjun og það hefur allt fallið á móti okkur. Við erum þó fyrst og fremst búnir að spila illa og ekki hægt að afsaka það,“ segir Óskar hreinskilinn. Hann segir að liðið hafi mætt tilbúið til leiks en eitthvað virðist vera að hrjá leik- menn. „Ég held að menn hafi mætt tilbúnir í þetta mót. Það tekur á þegar illa gengur, menn eiga erfitt með að glíma við þetta. Við þurfum að snúa blaðinu við, sýna karakter og hífa okkur upp töfluna.“ Grind- víkingar hafa sest niður og rætt gengi liðsins. „Það var fyrst gert eftir tapið í fyrsta leik. Okkur fannst strax sem um krísu væri að ræða þá,“ segir Óskar en hann horfir þó á björtu hliðarnar. „Núna er ekkert annað í stöðunni en að reyna að finna gleðina á ný.“ Ætlum að gera hið ómögu- lega og fara upp Þeir sem fylgjast með fótbolta á Ís- landi kepptust við að spá Grindvík- ingum öruggu sæti í Pepsi-deild- inni að ári. Grindvíkingar eru með gríðarlega sterkan hóp og Óskar veit af því. „Það er skrítin tilfinning að vera með besta hópinn í deildinni, að mínu mati, og vera í næstneðsta sætinu. Það er eitthvað að þegar staðan er þannig. Við þurfum að finna hvað er að og laga það ef ekki á illa að fara.“ Enn er nóg eftir að mótinu og ekki öll nótt úti fyrir Grindvíkinga. Þeir ætla sér ennþá sæti í deild þeirra bestu. „Við ætl- um bara að gera hið ómögulega og komast samt upp í úrvalsdeild. Það er núna yfirlýst markmið. Við þurfum að vona að mótið verði jafnt og við fáum tækifæri til þess að koma okkur inn í þetta aftur.“ Óskar segist ekki vita hvað hafi breyst frá því í fyrra, þegar liðinu gekk vel og var nærri því að komast upp. Umgjörðin og stuðningurinn við liðið sé ennþá til fyrirmyndar. „Það eru allir í kringum klúbbinn búnir að standa sig frábærlega og umgjörðin er eins og best verður á kosið á Íslandi. Maður hálfpartinn skammast sín yfir því hvernig við erum búnir að vera að spila. Þetta er nánast vanvirðing við þá sem eru búnir að standa með okkur. Við erum þó öll saman í þessu, vinnum saman og töpum saman,“ segir Grindvíkingurinn að lokum.

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.