Feykir


Feykir - 28.04.2009, Blaðsíða 4

Feykir - 28.04.2009, Blaðsíða 4
4 Feykir 17/2009 Vísnakeppni Safnahússins 2009 AÐSENT EFNI Sæluvikan alltaf er okkur miklils virði Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga í Sæluviku var nú haldin í 15. sinn og þátttaka að þessu sinni miklu meiri en undanfarin ár. Má vafalaust rekja það til þess að boðað var tímanlega til keppninnar og mönnum gafst nú kostur á að senda úrlausnir sínar á netinu. Einnig birtust fyrripartarnir í vísnahorni Morgunblaðsins og var dreift þaðan meðal vísnavina á Leirnum og Baggalút. Allt þetta varð til að örva þátttökuna og herða samkeppnina. Alls bárust 45 úrlausnir frá rúmlega 40 hagyrðingum. Þar af nýttu sér18 möguleikann að senda vísurnar gegnum tölvuna. Á föstudagskvöldið sátum við Björn Björnsson og yfirfórum kveðskapinn. Og nú barst svo mikið af góðum vísum að ekki dugði lengur að yrkja vel. Nú urðu hagyrðingar að vera virkilega snjallir til að fá náð fyrir augum dómnefndar. Keppnin var með sama móti og undanfarið. Annars vegar skyldu botnaðir fyrripartar en hins vegar ortar vísur um ákveðið tilefni. Það skyldi nú vera um hvernig menn sjái fyrir sér Framtíð lands og þjóðar. Hins vegar skyldi botna þrjá fyrriparta. Þá samdi nú alla, eins og stundum áður, Guðbrandur Þorkell, betur þekktur sem Keli í kaupfélaginu. Bankakerfið hrundi í haust, heiðri glatar þjóðin. Ég hef engri útrás sinnt. arðinn fengið rýran Nú er vetur burtu úr bæ, bráðum getur sungið lóa. Vísur þær og botnar sem nú bárust skiptu hundruðum, margar ljómandi góðar og raunar verðlaunahæfar. En dómnefndin varð að axla það erfiða hlutverk að velja og hafna til að niðurstaða fengist. Og til að gefa lesendum Feykis hugmynd um úrvalið verða hér fluttar nokkrar af handahófi. Mörgum var að vonum tíðrætt um framtíð lands og þjóðar. Dæmi: Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri lítur á málin með þjóðlegri rómantík og raðar saman hendingum: Á kvæðið um lóuna kært er að minnast sem kemur til okkar þó spáin sé ljót. Hún hvetur alla að vaka og vinna og vonglaða taka sumrinu mót. En útlitið er vissulega svart hjá Pétri Stefánssyni í Reykjavík: Ekki er lífsgangan álitleg, ýmsir snökta af harmi Í framtíð munu fleiri en ég falla af galdþrotsbarmi. Stefán Haraldsson í Víðidal greinir orsakir og afleiðingar. Allt það sem að ekki má var unnið bak við tjöldin. Mammonsþrælar munu fá makleg syndagjöldin. Sumir eygja töfralausnir eins og Hreinn Guðvarðarson á Sauðárkróki: Eina leiðin sem ég sé svona í fljótu bragði göngum inn í E.S.B eins og kelling sagði. Aðrir eru á þveröfugri skoðun eins og t.d. Skarphéðinn Ásbjörnsson: Við munum ávallt halda haus heiðra sjálfstæði og frið ef að við bara erum laus við Evrópusambandið. Óttar Skjóldal í Enni hugsar líka um framtíðina: Fyrst ei drap oss fimbulkrísa, fátt á landann held ég bíti. Ísland mun því aftur rísa upp úr þessu skuldavíti. Alfreð Guðmundsson á Sauð- árkróki fer í dýran bragarhátt, oddhenduna: Landið rís sé lukkan vís, létt þá Ísland dafnar Þjóðardísin þegnskap kýs, þrautar krísum hafnar. Það voru kosningar á laugardaginn og línurnar skýrðust, a.m.k. fyrir Helga Einarssyni í Mosfellsbæ. Ef í stefni standa keik Steingrímur og Jóhanna og ekki vaða í villu og reyk um vinstri grænu móana. Þá munu bankar bregða á leik og bæta loðnu í lófana En útrásar- við ekki keik aftur viljum krógana. Svo yrkir Þórarinn Baldursson fyrir hörðustu umhverfis- sinnana sem ekki vilja láta skemma neitt og hafa landið algerlega ósnortið: Framtíð þjóðar sýnist svört. Sjá má víða brotinn pott. En landsins framtíð fyrst er björt ef flyttist þjóðin öll á brott. Davíð Haraldsson á Akureyri spáir: Spáð er hríð og sollnum sjá , seggir bíða snauðir og þegar líður lengra frá liggja víða dauðir. Sumum finnst kannski að Gunnar Sandholt hafi ort best þegar hann hugleiddi framtíð landsins. En af því að vísnadómarar bera djúpa virðingu fyrir hæstvirtu alþingi þótti þeim óhæfa að verðlauna slíkan kveðskap. Látum okkur samt heyra: Hún mun fráleitt fréttnæm teljast framtíð lands og þjóðar ef á þingið áfram veljast afglapar og slóðar. Svo voru margir laglegir botnar: en fátt eitt er hægt að sýna hér. Kannski hefur Björg Baldursdóttir á Hólum vitað af því að Sparisjóður Skagafjarðar ætlaði að leggja fram verðlaunafé í vísnakeppninni Bankakerfið hrundi í haust, heiðri glatar þjóðin Öll nú setjum okkar traust á elsku sparisjóðinn Næsti botn gæti verið ortur fyrir munn Sigurjóns Þórðarsonar Hegranesgoða og frambjóðanda Frjálslynda flokksins. Hún er eftir Eyþór Árnason frá Uppsölum: Bankakerfið hrundi í haust, heiðri glatar þjóðin Blankur set mitt brotna traust á Baldur Þór og Óðinn. Pétur Stefánsson áður nefndur botnar: Bankakerfið hrundi í haust heiðri glatar þjóðin. Ýmsir missa efalaust Íbúðina og skrjóðinn. Gunnar Oddsson í Flatatungu hefur veriðslappur í útrásinni: Ég hef engri útrás sinnt, arðinn fengið rýran. Með fallið gengi leikið lint á ljóðastrenginn dýran. Þá er komið að þeirri vísu og botnum sem dómnefnd mat besta. Að þessu sinni var ákveðið að verðlauna eina vísu og tvo botna. Verðlaunaféð var samtals 40,000, krónur sem skiptist í þrennt, þannig að höfundur bestu vísunnar að mati dómnefndar hlaut kr. 20.000 en tveir skiptu með sér hinum hlutanum , krónum 10.000 hvor. Það var Sparisjóður Skagafjarðar sem lagði fram verðlaunin og við kunnum honum miklar þakkir fyrir stuðning við keppnina enda er sparisjóðsstjórinn mikill vísnaáhugamaður og hagyrðingur sjálfur. Nú vildi svo til að allir verðlaunahafar voru utanhéraðsmenn. Gat því enginn þeirra verið viðstaddur og tekið á móti sínum verðlaunum. En þeim eru sendar góðar kveðjur, þakkir og hamingjuóskir. Það var Pétur Stefánsson, ætt- aður frá Keldum í Sléttuhlíð, sem á annan verðlaunabotninn: Bankakerfið hrundi í haust, heiðri glatar þjóðin. Ekki dugði endalaust illa fengni gróðinn. Hinn verðlaunabotninn var eftir Þórarinn M. Baldursson í Reykjavík. Nú er vetur burt úr bæ, bráðum getur sungið lóa. Fækkar hretum, fisk úr sæ fá í netin þeir sem róa. Þá er komið að vísunni sem dómendur eftir miklar vangaveltur ákváðu að úrskurða besta. Hún reyndist eftir hagyrðing af þekktu skáldakyni, Hólmfríði Bjartmarsdóttur frá Sandi í Aðaldal. Framtíð landsins fór í pytt, fátt um það að segja. Fjárhirðarnir fluttu mitt fé til Jómfrúreyja. Að endingu má svo minna á vísnavef Héraðsskjalasafnsins sem hægt er að komast inn á gegnum www.skagafjordur.is/ skjalasafn. Þar er búið að skrá inn hátt í 30 þúsund vísur og gera grein fyrir á annað þúsund höfundum. Er stöðugt unnið að því að bæta þar við vísum og upplýsingum um höfunda. Þar sem keppnin var háð í sæluvikunni fer vel á að enda þessa samantekt með vísu sem Stefán Haraldsson í Víðidal sendi okkur: Enginn hik í auga sér eða svikabyrði. Sæluvikan alltaf er okkur mikils virði. Hjalti Pálsson Fjöldi gesta var í Safnahúsi Skagfirðinga þegar sýning á verkum Jóhannesar Geirs var opnuð og við sama tilefni voru kynnt úrslit í Vísnakeppni Safnahússins. Mynd: Hjalti P.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.