Feykir


Feykir - 05.01.2012, Blaðsíða 4

Feykir - 05.01.2012, Blaðsíða 4
4 Feykir 01/2012 Skeifnaframleiðsla á Hofsósi Kynslóðir málm- smiða á Hofsósi Fjólmundur Karl Bergland Traustason hóf nýverið framleiðslu á skeifum en hann hefur verið sjálfstætt starfandi málmsmiður á Hofsósi frá því haustið 2008. Blaðamaður Feykis leit við í verkstæði hans og ræddi við hann um þær nýjungar sem eiga sér þar stað. Upphaflega ætlaði Fjólmundur, eða Fjóli eins og hann er jafnan kallaður, að verða þekktur fyrir smíði á sterkum og léttum kerrum úr áli. Hann hefur smíðað nokkrar hestakerrur, snjósleðakerrur, fjór- og sexhjólakerrur og litlar fólksbílakerrur. ,,Fólksbílakerrurnar eru svona frúarkerrur þar sem þær eru svo léttar að konurnar geta nánast rölt með þær í garðverkunum,“ sagði Fjóli og hló. Hann sagðist leiðast níðþungar kerrur og hefur lagt mikinn metnað í smíði á léttum kerrum. „Það eru t.d. ekki margar konur sem ná að hengja kerrur aftan í bíla. Mér finnst óþolandi hvernig skröltir í sumum kerrum og margar þeirra eru óttalegt drasl. Svo er rík tilhneiging hjá fólki að ofhlaða kerrurnar og þá endast þær stutt,“ sagði Fjóli og hélt áfram: „Mig langaði að smíða léttar kerrur sem bera mikla þyngd en endast samt lengi. Þegar ég smíðaði fyrstu fólksbílakerruna var miklum sigri náð þegar guttinn minn, þá fimm ára, náði að lyfta henni upp og draga hana.“ Kreppan setti samt strik í reikninginn hvað kerruframleiðsluna varðaði og hefur Fjólmundur að mestu verið að fást við ýmiskonar nýsmíði og viðgerðir, bæði fyrir sjávarútveginn og bændur í nánasta umhverfi Hofsóss þó eru enn reglulega pantaðar hjá honum kerrur. ,,Ég hef helst verið að gera við og smíða t.d. fiskikassa úr áli, rekkverk á báta og handfærarúllufestingar. Einnig hef ég verið að útbúa báta fyrir netaveiðar. Bændurnir hafa verið að kaupa hjá mér gjafahringi fyrir heyrúllurnar og vinsælast núna eru rúllugreipar til að setja aftan á dráttarvélarnar. Mér fannst eins og einhverja hlyti að vanta svona og vatt mér í að smíða nokkrar greipar,“ sagði Fjóli og brosti. Að sögn Fjólmundar eru smíðarnar sem hann hefur verið að fást við að mestu árstíðabundnar og oftast lítið að gera frá október fram í febrúar. „Fólk þarf að vera svolítið hugmyndaríkt til að finna sér verkefni á smærri stöðum á landsbyggðinni, þar sem kannski er ekki úr auðugum garði að gresja í atvinnutækifærum,“ sagði hann og bætti við: „Ég var búinn að vera að melta með mér ýmsar hugmyndir að verkefnum sem ég gæti gripið í þegar það væri rólegt að gera í öðru, þar á meðal skeifnasmíði,“ sagði Fjóli og hélt frásögninni áfram: „Þá hringdi Hannes Friðriksson í Hestinum í mig og bauð mér að kaupa tæki til skeifnaframleiðslu. Þar sem ég hafði haft áhuga fyrir því um tíma ákvað ég að stökkva í djúpu laugina og þáði það.“ Tækin bárust í október sl. en að sögn Fjólmundar eru afköst tækjanna góð eða um 400 skeifur á dag. „Við erum saman í þessu ég og konan, Linda Rut Magnúsdóttir. Við erum aðeins byrjuð að framleiða skeifur og er stefnan að framleiða flestar stærðir af þeim. Ég er með í kollinum hvernig ég get smíðað skeifur með uppslætti og er það á framtíðarplaninu ef allt gengur eftir. Einnig hef ég hug á að smíða skafla,“ sagði Fjóli. „Svo er sex ára guttinn minn í starfsþjálfun hjá mér. Honum finnst öll þessi tæki og græjur voða spennandi,“ sagði Fjóli og hló. Það má segja að Fjólmundur hafi fengið smíðagenið í arf en bæði faðir hans, Trausti Bergland Traustason og afi, Fjólmundur Karlsson, voru málmsmiðir en sá síðarnefndi stofnaði m.a. Stuðlaberg ehf. á Hofsósi. Um þessar mundir er Fjólmundur að þreifa fyrir sér í skeifnamarkaðnum á Íslandi en áður en Fjólmundur hóf framleiðslu var einungis eitt annað fyrirtæki í þessum geira á landinu. /BÞ Þorsteinsmót í bridge Sveit Guðna Kristj- ánssonar sigraði Sveit Guðna Kristjánssonar sigraði árlegt Þorsteinsmót í bridge sem fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi þann 30. desember sl. Tíu sveitir tóku þátt í mótinu sem hófst kl. 11 um morguninn og lauk rúmum átta klukkustundum síðar. Samkvæmt vefmiðlinum huni. is var keppnin spennuþrungin frá upphafi til enda en sem fyrr segir var það sveit Guðna Kristjánssonar sem bar sigur úr býtum með 142 stig og hlaut farandbikarinn sem Knútur Berndsen gaf hér árum áður. Í öðru sæti varð sveit Jóns Arnar Berndsen með 119 stig, með sama sæti og stigafjölda og í fyrra. Í þriðja sætir varð sveit Gunnars Sveinssonar einnig með 119 stig en Jón og félagar unnu innbyrðis viðureign þeirra. Í því fjórða varð sveit Sigríðar Arnardóttur með 117 stig og í því fimmta sveit Suðurleiða með 115 stig. Sem fyrr var það Stefán Berndsen sem hafði veg og vanda að mótinu. /BÞ Hitaveita til Skagastrandar Samningar við Rarik undirritaðir Sveitarfélagið Skagaströnd og Rarik undirrituðu samning um lagningu hitaveitu til Skagastrandar þann 30. desember sl. Sveitarstjórn Skagastrandar lítur á fyrirhugaða tengingu við hitaveitu sem mikið framfaraskref fyrir byggðina og að með því opnist ýmsir möguleikar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki auk fyrirhugaðan sparnað í orkukostnaði sem næst með nýtingu jarðvarma til húshitunar. Samkvæmt heimasíðu Sveitarfélagsins Skagastrandar mun Rarik leggja stofnæð og dreifiveitu um byggðina á Skagaströnd og tengingu við hitaveitu Blönduóss. Sveitarfélagið greiðir fast gjald til Rarik en með framlagi sveitarfélags og sérstöku framlagi á fjárlögum ríkisins hefur arðsemi af veitunni verið tryggð. Þegar framkvæmdum lýkur verður um eina veitu að ræða með veitusvæði sem nái yfir það svæði sem hitaveitan á Blönduósi gerir nú ásamt því sem við bætist með lagningu hitaveitunnar til Skagastrandar. Þar af leiðandi verður ein gjaldskrá fyrir allt veitusvæðið. Pípukerfi fyrir ljósleiðara Gert er ráð fyrir að fyrstu hús munu tengjast veitunni haustið 2013 og að öll hús hafi möguleika á tengingu haustið 2014. Rarik hefur þegar boðið út efni til veitunnar og mun í framhaldi af gerð samningsins staðfesta pöntun á efni. Verklegar framkvæmdir verða boðnar út á nýju ári og munu skiptast í þrjá megin verkhluta: Lagningu nýrrar stofnæðar frá Reykjum að Blönduósi sem verði unnin á árinu 2012, lagningu stofnæðar frá Blönduósi til Skagastrandar á fyrri hluta árs 2013 og lagningu dreifikerfis um byggðina á Skagaströnd sumarið og haustið 2013. Sveitarstjórn Skagastrandar hefur samið um að lagt verði pípukerfi fyrir ljósleiðara samhliða lagningu hitaveit- unnar og opnar það nýja möguleika í framtíðinni á flutningi stafrænna gagna fyrir heimili og fyrirtæki sem tengjast veitunni. /BÞ Sveit Guðna Kristjánssonar með farandbikarinn frá Knúti Berndsen. Mynd: huni.is

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.