Feykir


Feykir - 12.01.2012, Page 8

Feykir - 12.01.2012, Page 8
8 Feykir 02/2012 ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Gerður Rósa Sigurðardóttir frá Hvammstanga Að halda í barnið í sjálfum sér Ég hef alltaf sagt, og hef alist upp við það, að maður eigi að halda eins lengi og maður getur í barnið í sjálfum sér. Í gegnum tíðina hef ég nú yfirleitt ekki átt erfitt með það og þarf stundum að minna sjálfa mig á að ég sé komin í fullorðinna manna tölu. Á jólunum brýst spenningurinn út og ég á stundum erfitt með að hemja barnaskapinn, sérstaklega þegar kemur að því að opna pakkana. Á aðfangadagskvöld er ég ávallt fyrst að borða og byrja mjög fljótlega að reka á eftir öðrum fjölskyldumeðlimum, á meðan ég sit hjá jólatrénu og þukla pakkana. Það fór alltaf óstjórnlega í pirrurnar á mér hvað hann bróðir minn gat alltaf verið lengi að borða og jafnvel komu þær tillögur hvort hann gæti nú ekki bara tekið diskinn með sér inn í stofu svo við gætum byrjað á þessu. Já, það er ekki tekið út með sældinni að eiga bróðir sem gerði í því að fá sér oft og mikið á diskinn, vitandi það að litla systir var við það að æla úr spenningi. Þar sem dýrin hafa alltaf verið álitin sem hluti af fjölskyldunni á mínu heimili, er ekkert skemmtilegra en að gera vel við þau líka á jólunum. Þó það sé ekki nema auka sag eða nammi fyrir hrossin, leyfa hundinum að vera inni í stofu, slaufa á köttinn, gefa fuglunum mat og ég tala nú ekki um hvað kýrnar verða glaðar með smá auka fóðurbæti. Þær slá nú ekki halanum á móti því. Þetta er það sem fullkomnar jólin hjá mér. Svona eru nú jólin mín, það eiga allir að eiga gleðileg jól hvort sem maður er dýr eða manneskja. Ég vona að allir hafi hleypt barninu í sér út á jólunum og jafnvel skottast út í fjós að kyssa kusurnar, það eru nú bara jól einu sinni á ári. - - - - - Ég var nú að spá í að skora á bróðir minn fyrir að vera lengi að borða en ákvað að skora frekar á Hrund Jóhannsdóttur, því hún er svo sæt pía. Bjórsetur Íslands er félagskapur bjóráhugamanna á Hólum í Hjaltadal þar sem þeir Guðmundur B. Eyþórsson, Broddi Reyr Hansen og Bjarni Kristófer Kristjánsson ráða ríkjum. Bjórsetrið er staðsett á efri hæð í gömlu útihúsi Hólaskóla en á neðri hæðinni er bruggaður bjór og að sjálfsögðu er leyfi fyrir öllu umstanginu, bæði vínveitingaleyfi sem og framleiðsluleyfi. Bjarni Kristófer segir að um tómstundargaman sé að ræða en hann var spurður út í það hvernig það hafi komið til að bjórsetur var sett á stofn. -Það var bara áhuga- mennska um bjór, enda gott að drekka góðan bjór. Þá var ákveðið að stofna klúbb sem orðið er að litlu fyrirtæki. Samt er klúbbstarfsemin höfð í hávegum, segir Bjarni og því til staðfestingar sýnir hann blaðamanni fundargerðarbókina þar sem skráðir eru niður allir fundir klúbbsins allt frá árinu 2007. –Við erum svo ríkir að við fjárfestum í dýrri fundargerðarbók. Það er að vísu misgáfulegt sem fer þarna inn. Bjarni fullyrðir að á Bjórsetrinu sé mesta úrval á landinu af bjór eða um sextíu tegundir víðs vegar að úr heiminum og nokkrar sérinnfluttar einungis á þennan eina bar. Undirritaður hefur það á orði að hann þekki ekki margar tegundir sem eru í kælinum og segir Bjarni að reynt sé að hafa sem minnst af hefðbundnum lagerbjór sem mest eru drukknir á íslenskum börum. -Við erum mikið með belgíska bjóra, en Belgía má segja er Mekka bjórsins í heiminum og erum við með ákveðnar gerðir af bjór þaðan, segir Bjarni og sýnir blaðamanni Belgian Strong Ale sem er fullra 11% og segir Bjarni þetta vera alvöru bjór. –Svo höfum við verið að láta flytja inn fyrir okkur þýska Bock bjóra sem eru einnig sterkir og mikið bragð af þeim, það má jafnvel kalla þá vetrarbjór. Bjarni segir að nokkuð sé af breskum bitter bjórtegundum, og einnig amerískum Indian Pale Ale enda sé mikil sveifla á bjórhugmyndafræðinni í Bandaríkjunum. –Við erum einnig með bjóra frá Danmörku sem heitir Mikkeller en Mikkeller er bruggmeistari sem er listamaður á þessu sviði en hann notar ekki striga heldur bjór. Við höfum fengið nokkrar tegundir frá honum sem eru mjög flottar. Bjarni segir að alltaf sé eitthvað til af íslenskum bjór líka og að sjálfsögðu er alltaf til hinn skagfirski Gæðingur á boðstólnum. Ríkið á Króknum með mesta úrvalið Bjarni segir að mikið af bjórnum sé pantaður í gegn um Ríkið á Sauðárkróki og stundum monti Bjórsetrið sig af því að þar sé meira úrval en hjá öðrum landsbyggðaáfengissölum vegna þess að það panti svo mikið í gegn um það. –Við kaupum einnig beint frá framleiðendum og það er einn þeirra sem við höfum samið við sem flytur inn fyrir okkur einn til tvo kassa af hverri gerð, segir Bjarni stoltur. Fleiri bjórar eru pantaðir beint og sýnir Bjarni eina tegund sem ekki fær náð fyrir augum þeirra er ákveða hvað má selja í Ríkinu, vegna miðans, en á honum er mynd af byssum. Vinsælar bjórkynningar Boðið er upp á bjórkynningar á setrinu fyrir hópa og segir Bjarni að þeir hafi komið margir undanfarna mánuði og segir hann þær hafi tekist vel. -Þær kosta 3000 krónur á mann og fer eftir því hversu áhugasamir menn eru, hversu lengi er spjallað. Það getur tekið frá einum og hálfum tíma og upp í tvo og hálfan. Það sem við gerum er að við höldum fyrirlestur um bjórinn, hvernig hann varð til og hvernig hann tengist menningu landsins. Einnig Bjórsetur Íslands heimsótt Mesta úrval landsins af bjór erum við með tíu tegundir sem við smökkum. Þá förum við í gegnum bjórstíla í mismunandi löndum og berum saman. Bruggað á neðri hæðinni Undir Bjórsetrinu er starfandi brugghús þar sem bjórinn Vesturfari er bruggaður og að sjálfsögðu seldur á efri hæðinni. Bjarni segir að ýmsar hugmyndir hafi komið upp varðandi nafnið en það þurfti að vera eitthvað skagfirskt. Vesturfarinn á að skírskota til vesturfara úr Skagafirði eða jafnvel Bjarni glaðbeittur fyrir innan barborðið á Bjórsetri Íslands. Vesturfarasetrið á Hofsósi. Það er Broddi Reyr sem er bruggmeistarinn Hægt er að brugga 40 lítra í einu sem ekki getur talist mikið en að sögn Bjarna er draumurinn að auka framleiðsluna upp í a.m.k. 100 lítra. –Þetta er það skemmtilega við Bjórsetrið að það er ekki magnið sem ræður heldur er um áhugamennsku að ræða með allt löglegt. Þetta þarf að standa undir sér en það er enginn á launum. Fyrir þá sem vilja fá panta kynningu segir Bjarni best að senda tölvupóst á bjorsetrið@ mail.holar.is eða hringja í einn þeirra þriggja sem að setrinu standa og er þá ekkert mál að finna tíma. -Svo er alltaf opið á föstudögum bæði fyrir klúbbfélaga og aðra sem geta komið líka. En ef það er hópur sem vill vera út af fyrir sig er hægt að opna sérstaklega fyrir hann. /PF

x

Feykir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.