Feykir


Feykir - 26.01.2012, Blaðsíða 4

Feykir - 26.01.2012, Blaðsíða 4
4 Feykir 04/2012 Góður árangur Í upphafi nýs árs er öllum hollt að líta um farinn veg og skoða hvað hafi tekist vel til og hvað hefði mátt betur fara. En ekki síður er nauðsynlegt að horfa fram á veginn og setja sér markmið og fylgja eftir þeim málum sem brýnt er að klára. Þetta á jafnt við um einstaklinga, heimili og fyrirtækin í landinu eins og Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn. Okkur hættir oft til að draga fyrst upp allt það neikvæða og það sem miður fer en gleyma að það eru góðu hlutirnir sem eru hvatning til að gera enn betur. Á þeim þarf að byggja ef við ætlum að komast eitthvað áfram en ekki hjakka í svartsýnisgírnum og spóla okkur þar föst niður í bölsýni og bölmóði og láta úrtöluraddirnar ráða ferð. Ég tel vera fullt tilefni fyrir þjóðina að gleðjast í upphafi nýs árs. Það er ljóst að erfið- asti kaflinn er að baki í sársaukafullum aðgerðum vegna hrunsins sem – nota bene – nýfrjálshyggjan og græðgisöflin sem réðu hér ríkjum bera stærsta ábyrgð á. Það eru nýir, breyttir og von- andi betri tímar framundan. Ný kynslóð lærir af reynslunni og leggur áherslu á sjálfbærni, jöfnuð, réttlæti og velferð en ekki þá græðgi og sérhags- munahyggju sem keyrði hér allt í þrot 2008. Skiljanlega kveinka margir sér undan afleiðingum hruns- ins og væri annað skrítið. Þegar þú kemur að heimili þínu í rúst þá verða fyrstu viðbrögðin afneitun, síðan sorg og reiði en að lokum sérðu að það er ekkert annað í boði en að hefjast handa við að reisa það að nýju með tilheyrandi fórnum, útgjöld- um og erfiði. Nákvæmlega það sama á við um þjóðarbúið okkar í þessu samhengi. Við höfðum ekkert annað val en endurreisa þjóðfélagið að nýju. Þótt það myndi verða sársaukafullt fyrstu árin myndi það skila sér að lokum eins og komið hefur í ljós. Við erum að ná gífurleg- um árangri á stuttum tíma í endurreisninni og mælanlegur árangur er að birtast á mörgum sviðum í þjóðfélag- inu. Sérfræðingar hafa horft til þess sem fyrirmyndar í efnahagsmálum annarra þjóða hve Íslendingum ætlar að takast að koma sér hratt út úr kreppunni en verja um leið velferðarkerfið og kjör þeirra lægst launuðu. Skattar eru eitur í beinum margra frjálshyggjupostula og fyrir hrun hafði þróunin orðið sú að skattbyrði lækkaði hlutfallslega á hátekjufólki en hækkaði á lágtekju- og meðal- tekjufólkinu. Samfélagslegur ójöfnuður jókst þá hröðum skrefum. En með skattkerfis- breytingum hefur tekist að snúa þessari óheillaþróun við og með þrepaskiptu skattkerfi greiðir nú lágtekjufólk lægra hlutfall af tekjum sínum í skatta en áður var og greiðir helmingur hjóna í landinu nú lægra hlutfall af tekjum sínum í skatta en þau gerðu árið 2008. Við skulum muna það að réttlátir skattar eru ekkert annað en ávísun á velferð og jöfnuð og framkvæmdir og uppbyggingu í þjóðfélaginu. Það er góður árangur að hafa náð fjárlagahalla ríkis- sjóðs úr 216 milljarða árið 2008 niður í 46 milljarða halla fyrir árið 2011 og að fjárlög geri ráð fyrir aðeins 20 mill- jarða halla á þessu ári. Þessi árangur kemur ekki af sjálfu sér en mun skila sér hratt til baka í getu ríkissjóðs til áframhaldandi uppbyggingar. Það er góður árangur að: - kaupmáttur launa heldur áfram að aukast, - atvinnuleysi hefur farið úr 12% þegar verst lét niður í 7% og áfram skal barist við atvinnuleysisdrauginn, - 27 milljörðum skuli varið í launa- og bótahækkanir á þessu ári þrátt fyrir glímuna við ríkishallann, - persónuafsláttur er nú að fullu verðtryggður; það var hann ekki þegar okkur var sagt að smjör drypi hér af hverju strái fyrir hrun, - hægt er að greiða 18 milljarða í vaxtabætur á þessu ári, - verið sé að ráðast í uppbyggingu hjúkrunar- rýma vítt og breitt um landið fyrir um 8 milljarða, - átak í uppbyggingu ferðamála hefur skilað sér margfalt til baka í auknum þjóðartekjum og störfum um allt land, - átakið „Allir vinna“ hefur gengið mjög vel og sam- eiginlegt átak með aðilum vinnumarkaðarins gegn svartri atvinnustarfssemi sé að skila miklum árangri, - hagvöxtur í landinu stefnir í um 4 % í lok síðasta árs. Það er góður árangur að nást í niðurfærslu íbúðalána og endurskipulagningu skulda fyrirtækja og heimila. Og það er góður árangur og varnar- sigur við þessar erfiðu að- stæður að tekist hefur að verja grunnstoðir heilbrigðiskerf- isins. Svona mætti halda áfram að telja upp dæmin sem sýna okkur að við erum á réttri braut. Fjöldamargt annað væri ástæða til að nefna, staðreyndir sem sýna að mikill árangur hefur náðst á ekki lengri tíma. Við eigum eftir sem áður ýmsum verkum ólokið á þessu kjörtímabili sem lagt var upp með að ljúka og er brýnt að klára þau samhliða áfram- haldandi uppbyggingu í land- inu. Þar vil ég sérstaklega nefna nýtt fiskveiðistjórnar- kerfi, Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúru- auðlinda og nýja stjórnarskrá. Einnig vil ég nefna endur- skoðun á húsnæðis- og al- mannatryggingakerfinu sem miklar vonir eru bundnar við. Mikilvægt er að mannsæm- andi framfærsla verði tryggð þeim sem á þurfa að halda svo þeir geti lifað með reisn og að fjármunir til þessa málaflokks nýtist enn fremur sem best. Húsnæðiskerfi landsins verður að geta mætt þörfum allra landsmanna burtséð frá búsetu og ólíkum búsetu- formum. Leiga á að vera raunhæfur valkostur til móts við eigið húsnæði og gera verður fólki auðveldara að eignast sína fyrstu íbúð. AÐSENT LILJA RAFNEY MAGNÚSDÓTTIR skrifar Breytingar á fiskveiði- stjórnarkerfinu eru mér hjart- ans mál. Ég hef horft upp á það hvernig það hefur leikið margar byggðir grátt og hvernig gallar þess og óréttlæti birtast í sinni tærustu mynd á því landsvæði sem ég þekki best til og í mörgum sjávar- byggðum hringinn í kringum landið. Í núverandi kerfi hafa byggst upp gífurlegir hags- munir valdablokka í landinu sem gefa sitt ekki eftir baráttu- laust. Heilu byggðarlögin og margar atvinnugreinar eiga allt sitt undir velvilja stórra kvótahafa og fjármálastofnana. Þessar valdablokkir hafa beitt ótrúlegum hræðsluáróðri gegn breytingum á kerfinu og beita miklum þrýstingi á stjórnvöld að sem minnstu verði breytt. Hræðslan og meðvirknin við að styggja ekki þá stóru og sterku er víða undirliggjandi. Meirihluti þjóðarinnar hefur talað í kosningum og vill breyta kerfinu en færri þora að koma fram og tala fyrir því opin- berlega því það gæti haft ófyriséðar afleiðingar fyrir þá. Frá hruni hefur Rannsókn- arskýrsla Alþingis komið út og í farvatninu er rannsókn á lífeyrissjóðunum og sparisjóð- unum. Brýnt er að fram fari rannsókn á einkavæðingu bankanna eins og þingmanna- nefndin samþykkti. Rannsókn á kvótakerfinu og afleiðingum þess frá því að framsal og óbein veðsetning var leyfð er nauðsynleg fyrir allt sam- félagið sem hluti af uppgjöri við hrunið, enda leikur á því enginn vafi að þræðir kvóta- kerfisins lágu um viðskiptalífið eins og mál hjá sérstökum saksóknara hefur sýnt fram á. Ég tel einnig mjög nauðsynlegt að fram fari úttekt á sam- félagslegum og hagrænum áhrifum fiskveiðistjórnunar- kerfisins á byggðir landsins sl. 20 ár, eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis samþykkti sl. sumar. Það verður aldrei allt mælt í krón- um og aurum. En á bak við tölur og hagræðingarkröfur markaðarins er líf, framtíð og búsetuskilyrði fólks í sjávar- byggðum, sem horfa verður til þegar heildarmyndin er skoðuð. Nú reynir á hvernig til tekst með þetta ögrandi verkefni sem þessari ríkisstjórn er falið af sínum kjósendum. Gleðilegt ár. Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi Bridge Svæðamót í sveitakeppni Svæðamót Norðurlands vestra í sveitakeppni var háð um síðastliðna helgi en keppt var um rétt til að spila í undanúrslitum Íslandsmóts í sveitakeppni í bridge. Norðurland vestra á rétt til að senda þrjár sveitir til þátttöku. Alls voru spilaðir sex tuttugu spila leikir. Sveit Sparisjóðs Siglufjarðar sigraði alla andstæðinga sína með miklum mun og fengu 146 stig af 150 mögulegum. Sveit Sparisjóðsins skipuðu: Ólafur Jónsson, Birkir Jónsson, Jón Sigurbjörnsson og Friðjón Þórhallsson Annað sætið hreppti sveit Fisk-Seafood með 89 stig en með henni spiluðu: Ásgrímur Sigurbjörnsson, Jón Örn Berndsen, Eyjólfur Sigurðsson, Ólafur Sigmarsson, Bjarki Tryggvason og Skúli V Jónsson. Þriðja sætið kom í hlut Sveitar Guðna Kristjánssona með 62 stig, en auk hans spiluðu Ólafur Stefánsson, Einar Svavarsson, Kristján Birgisson, Stefán Berndsen og Sólveig Róarsdóttir. /BÞ Sveit Sparisjóðsins. Frá vinstri: Friðjón, Birkir, Jón og Ólafur.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.