Feykir


Feykir - 22.03.2012, Blaðsíða 8

Feykir - 22.03.2012, Blaðsíða 8
8 Feykir 12/2012 Í starfi mínu sem flugmaður kemur það fyrir, að ég þarf að skjótast með fólk á milli heimshluta og oft á þeim svæðum veraldar þar sem fólk hefur ekki vanist þeim nútímaþægindum sem við búum við hér á Íslandinu góða. Ein þessara ferða varð heldur eftirminnilegri en aðrar, fyrir þær sakir að ferðalangar voru alls óvanir ferðamátanum og margir hverjir væntanlega að stíga sín fyrstu skref í heimi flugsins. Ævintýrið hófst þannig að farþegar komu akandi að flugvélinni og er þeim boðið að ganga um borð. Það er nú svosem ekki í frásögur færandi nema að fyrstur um borð er kurteis eldri maður. Fannst honum til siðs að taka af sér skóna áður en hann gengi um borð í fararskjótann furðulega. Þessu góða fordæmi vildu hinir 500 farþegarnir auðvitað fylgja og ákváðu því að gera slíkt hið sama. Starfsmenn fararskjótans höfðu í nógu að snúast við að undirbúa flugferðina og einhvern veginn fór þessi „skóathöfn“ farþeganna algjörlega framhjá þeim. Þegar vélin er svo orðin ferðafær taka þeir loks eftir því hvað á hafði gengið og hefst nú mikill darraðardans við að færa „skófjallið“ mikla upp í flugvélina. En ævintýri þessarar flugferðar var þó ekki lokið. Við vorum komin í loftið og ég sat í mínu sæti í flugstjórnarklefanum. Var ég að fara að gæða mér á rjúkandi kaffibolla þegar mér verður litið á öryggissjónvarpsskjáinn, en hann er brúkaður til þess að fylgjast með hvað er að gerast í afturhluta vélarinnar. Tek ég eftir því að myndast hefur löng biðröð af fólki við salernið. Þarna var nú svosem ekkert óeðlilegt á ferðinni, en síðar kom þó í ljós hvað var svo spennandi við salernið. Eins og fólk veit kannski, þá er salernisvatnið í flugvélum dökkblátt að lit og sérstaklega sótthreinsandi. Nú hafði einn flugfarþega farið inn á salernið en eitthvað var þar þó ekki eins og hann átti að venjast. Eftir skoðun á þeim nýstárlega búnaði sem þar var fyrir hendi datt honum þó í hug að dýfa tánum (enda búin að fara úr skónum) ofan í salernisskálina og skola vel af fótunum á sér. Kemur hann svo fram í vélina með þessar líka hreinu bláu tásur. Þetta fannst hinum farþegum ansi merkilegt og vildu nú auðvitað allir fá sínar eigin bláu tásur. Skapaðist því hálfgert öngþveiti við salernið. Lokapunkturinn á ævintýrinu var svo eftir lendingu. Gengu þá bláfættu og skólausu farþegarnir frá borði og beið þeirra rúta af lengri gerðinni við enda stigans. Flugvallarútur virtust einnig vera nokkuð framandi okkar ágætu farþegum. Þeir tóku nú upp á því að labba einn og einn inn í rútuna með allt sitt hafurtask, ganga rútuna síðan á enda og labba aftur út um hana að framan. Stemmingin sem myndaðist þarna á svæðinu við þetta, var svolítið eins og í réttunum hérna heima á Fróni. Um 500 manns voru komnir út um allan flugvöll og starfsmenn baðandi út höndum í þeim tilgangi að koma hópnum saman aftur. Ekki bætti þá ástandið að tungumálakunnátta þvældist fyrir á báða bóga hjá farþegum og starfsmönnum og má segja að orðin óreiða og ringulreið hafi þarna öðlast alveg nýja merkingu. Engu að síður mátti af farþegunum ráða að þeir væru himinlifandi að vera loksins komnir á áfangastað. Þeir skildu þó ekkert í því hvar skórnir þeirra væru sem þeir skildu eftir framan við flugvélina áður en haldið var af stað. - - - - - Ég skora á tengdamóður mína, Önnu Pétursdóttur að skrifa næsta pistil. Rúna Birna Finnsdóttir frá Skagafirði ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Lítil flugsaga úr stórum heimi 8 mínútur Sigurður Smári Fossdal lýsir óhugnanlegri lífsreynslu sinni Sigurður Smári Fossdal lenti í alvarlegu umferðarslysi þann 13. mars sl. þegar bíll hans valt ofan í Laxá á Ásum, rétt sunnan við Blönduós, en röð atvika gerði það að verkum að hann slapp með skrekkinn á undraverðan hátt. Blaðamaður Feykis kíkti í kaffi til Sigurðar á heimili hans á Blönduósi og það fyrsta sem kom upp í hugann var hve ótrúlegt það væri að þessi ungi maður hafði lent í alvarlegu bílslysi einungis tveim dögum áður – hann er stálsleginn og ekki skrámu að sjá. Yfir kaffibolla lýsti Sigurður þessari „verstu lífsreynslu sinni“, eins og hann orðaði það sjálfur. Sigurður hafði tekið sér sveitarúnt og var að keyra niður hjá Húnavöllum þegar hann fann að bíllinn hans var eitthvað undarlegur í stýri. Hann var búinn að fara út tvisvar eða þrisvar til að athuga hvort væri nokkuð sprungið eða eitthvað að sjá undir bílnum, svo var ekki og hann hélt því áfram ferð sinni. Bíllinn sem hann ók var Saab, árgerð 1988, en þeir hafa löngum verið þekktir fyrir að vera harðgerðir bílar, sem átti eftir að verða Sigurði til happs. Þegar hann var kominn af malarveginum á malbikið virtist bíllinn hafa lagast en svo man Sigurður ekki meira. „Ég man að ég heyri svakaleg brothljóð þó ég muni ekki eftir byltunni sjálfri. Næsta sem ég man er að ég sé vatnið spýtast úr öllum áttum inn í bílinn og hausinn á mér fer í kaf,“ segir Sigurður og lýsir því að á þeim tímapunkti hafi gripið hann mikil hræðsla. „Ég djöflaðist og djöflaðist við að reyna losa mig, ég reyndi að ýta á takkann á beltinu en hann fór bara ekki inn. Ég hékk þarna á hvolfi og reyndi að halda mér einhvernvegin á hlið uppúr vatninu, en mér var strax svo kalt og varð fljótlega mjög þróttlaus.“ Sigurður sá ekki hve djúpt hann væri ofan í ánni eða hvort bíllinn myndi fara á bólakaf, en var þó viss um að þetta væri hans síðasta. Á einhvern undraverðan hátt þá vildi það til að á ná- kvæmlega sama augnabliki og Sigurður missir stjórn á bíl sínum þá eiga leið hjá nokkrir þrautþjálfaðir menn í björg- unarstörfum. Fyrstur er Kári Kárason, slökkviliðsmaður og framkvæmdarstjóri Vilko, sem kemur akandi úr gagnstæðri átt ásamt 13 ára syni sínum, Pétri Arnari. Hann sér að eitthvað er í uppsiglingu og svo hvernig bíllinn lendir á vegriðinu og veltur ofan í ánna. Hann hringir strax í neyðarlínuna, afhendir syni sínum símann og stekkur af stað. „Ég var búinn að gera mér grein fyrir því að mér tækist ekki að bjarga mér sjálfur þegar hurðin er allt í einu opnuð farþegamegin og ég sé vinalegt og kunnuglegt andlit í gættinni – það var Kári,“ segir Sigurður og rifjar upp hve það var ótrúlega mikill léttir, fyrir honum þýddi það að hjálp væri á leiðinni. „Hann hjálpaði mér að halda höfðinu uppi, talaði við mig og lét mér líða mikið betur.“ Sigurður upplifði þann tíma frá því að vatnið tók að streyma inn í bílinn og þar til Kári kom til bjargar sem heila eilífð þótt það hafi ekki verið mikið meira en 15 sekúndur. „Ég var orðinn mjög kaldur, dofinn og ruglaður og ég held að þarna hafi ég verið farin að detta út annað slagið. Í fyrstu var mér rosalega kalt en kuldinn hvarf mjög fljótlega, sem var í raun óhugnanlegri

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.