Feykir


Feykir - 29.03.2012, Blaðsíða 8

Feykir - 29.03.2012, Blaðsíða 8
8 Feykir 13/2012 Heilir og sælir lesendur góðir. Í síðasta þætti spurði ég um vísu sem ég fékk senda úr Skagafirði og stóð undir Sveinn. Hef nú fengið greinargóðar upplýsingar þar um bæði frá Húnvetningum og Skagfirðingum sem ég þakka mjög vel fyrir. Ekki var vísan rétt með farin í þættinum og birti ég hana nú aftur eins rétta og hún er skráð af höfundi. Sá mun vera Sveinn Hannesson frá Elivogum. Flest hef gleypt en fáu leift, fengið skreipt úr mörgu hlaði. Selt og keypt og stömpum steypt. Stundum hleypt á tæpu vaði. Önnur vísa mun hafa komist á kreik um svipað leyti. Eins og sést á þeim snilldar skáldskap er höfundur hennar enginn viðvaningur í vísnagerð. Heitir sá Valdimar K. Benónýsson og var þá bóndi á Ægisíðu. Oft kallaður Valdi Kam. Ei er leyft að skeiki skeift. Skeyti hleypt af fínum boga. Eins og leiftur lýsa dreift ljóðin steypt við Elivoga. Í síðasta þætti birti ég einnig vísuna: „Upp er skorið engu sáð“. Var hún í mínum pappírum talinn eftir Sigmund Sigurðsson frá Hofsósi. Taldi ég það af og frá og mér til gleði hafa nú borist þær upplýsingar að umrædd vísa sé eftir tvo Þingeyinga, þá Egil Jónasson og Friðrik á Kraunastöðum. Þykir mér gott að heyra þau tíðindi. Endurtek þakklæti mitt fyrir þessar góðu upplýsingar og bið lesendur endilega að hafa samband viti þeir svör við því sem spurt er um. Guðbrandur Guðbrandsson er höfundur næstu vísu. Verður hún kannski auðskilin ef við hugsum til stjórnmálanna. Ásmund tel ég engan rata engan honum betri þekki. Töng hann hefur til á krata sem tryggir að þeim fjölgi ekki. Gaman að vita hvort lesendur kannast við þessa. Ástin mín um æsku svið illa festi rætur. Gaman er að glettast við glaðar heimasætur. Önnur höfundarlaus í sama dúr. Glatt hefur margan góðan dreng glaða konu að hitta. Ennþá leggur ör á streng Amor bogaskytta. Ein flott í viðbót án höfundar. Þegar ríkir hrím og hjarn hljóð og löng er vakan. Til mín kemur trygg sem barn tækifærisstakan. Vísnaþáttur 567 Góður sannleikur en beiskur er í þessari vísu Ágústs Guðbrandssonar. Best er að lifa í svalli og synd sýna illsku tóma. Þeim er lyft á tignar tind sem týnt hafa æru og sóma. Nanna vinkona bað um vísu. Ágúst ekki lengi að efna í hringhendu. Að laga um svanna ljóðin merk sem löngum bannar gjöldin, mundi ég annað viljaverk vinna Nanna á kvöldin. Ein dásamleg hringhenda eftir Ágúst í viðbót ort á vordegi. Brúnir fjalla þeyrinn þvær þiðnar mjallar gljáin. Rúnir snjallar ljósið ljær lifna vallar stráin. Falleg vísa kemur hér næst, höfundur er María Bjarnadóttir. Mun hún hafa verið afkomandi Bólu-Hjálmars. Brunnið geta borgir þær sem byggðu hendur manna. En eldur grandað aldrei fær anda hugsjónanna. Önnur vísa kemur hér eftir Maríu. Þó að veikum vökni brá vetrar undir kvíða. Alltaf vekur von og þrá vorsins himinblíða. Það er Gísli Ólafsson sem reiknar út lífskaupið í eftirfarandi vísu. Ævidagsins ómök skeð - um það dauðinn semur -, heimur borgar manni með moldarrekum þremur. Gísli gefur í skin í næstu vísu að hann sé tilbúinn til ferðar. Lífið smátt mér ljær í hag lúinn þrátt ég glími. Koma máttu um miðjan dag mikli háttatími. Gott að enda með þessari ágætu vísu Gísla sem boðar okkur vonandi bjartsýni. Úti þó að oft sé kalt á ég nóg af vonum. Leysir snjóinn, lifnar allt líður að gróindonum. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) Það er að koma vor. Það er staðfest. Lóan er komin og þá er ég ekki að tala um starrann á Eyrarbakka og veðurfræðingarnir eru búnir að lofa því að vorið komi um helgina. Ég hélt reyndar að vorið væri komið í síðustu viku alveg þangað til það fór að snjóa. Eftirvæntingin eftir vorinu hjá okkur Íslendingum er náttúrulega svo mikil að það jaðrar við að vera örvænting. Fyrir mér er vor í Varmahlíð hið eina sanna vor, vorið eins og það var þegar ég var krakki. Þá var ekkert betra en að kasta frá sér skólabókunum og hlaupa út í vorið á vit nýrra ævintýra. Ég, eins og flest íslensk ungmenni, réði mig í sumarvinnu frá unga aldri. Mig minnir að ég hafi verið 12 ára þegar ég arkaði upp í Miðgarð á fund við Sigga á Grófargili, sem þá var hreppstjóri, til að skrá mig í unglingavinnuna og við handsöluðum ráðningarsamning sem kvað á um að ég fengi 150 kr. á tímann. Áður hafði ég sinnt tilfallandi barnfóstrustörfum og heimilisverkum fyrir móður mína og aðra fjölskyldumeðlimi. Þegar ég var 15 ára réði ég mig svo sem vinnumann í sveit hjá mági mínum á Stóru Ökrum í Blönduhlíð. Sennilega þóttu mér verkefnin ekki nógu krefjandi í unglingavinnunni eða kaupið talsvert hærra í sveitinni. En hver svo sem ástæðan var þá var þetta örugglega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið um dagana. Verkefnin sem bóndinn fól mér dag hvern voru jafn fjölbreytt og þau voru mörg. Oft á tíðum fannst mér þau óyfirstíganleg. Hvernig átti ég óharðnaður unglingurinn að ráða við að setja snúningsvélina í flutningsstöðu? Nú eða bakka kerru að fjósinu og átti ég virkilega að þrífa helvítis fjósvegginn þriðja daginn í röð, var ég í falinni myndavél eða? Það komu stundir þar sem mig langaði að leggjast í fósturstellinguna, kasta inn handklæðinu og játa mig sigraða. En nei, ég setti undir mig hausinn, beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði því bóndinn var kröfuharður og það var ekki í boði að gefast upp og sýna þannig merki um veikleika. Það var líka gjörsamlega óhugsandi að búa við hæðnisglott kúnna sem einhvern vegin virtust skynja nákvæmlega hvað mér bjó í brjósti og hrósuðu sigri ef ég sýndi merki um uppgjöf. Eitt kvikindi hafði þó betur í þessari baráttu og það var hrúturinn sem tók við hlutverki mínu sem smali og hrakti mig inn í nærliggjandi bíl. Ég gleymi ekki glottinu á honum þar sem ég sat inni í bílnum og beið eftir að verða sótt. En sem betur fer var bóndinn skilningsríkur yfirmaður og góður leiðbeinandi sem sá yfirleitt spaugilegu hliðarnar og gat þannig hlegið að því þegar vinnumaðurinn eltist við sömu kálfana löngum stundum, keyrði heimilisbílnum á húsvegg og setti snúningsvélina af stað í flutningsstöðu þannig að tindarnir þeyttust um öll tún eins og skot úr hríðskotariffli. En þó ég hafi gefist upp fyrir einum skapvondum hrút og þeytt nokkrum tindum út um víðan völl leið mér eins og sönnum sigurvegara að sumrinu loknu. Ég hafði unnið ótal sigra bæði líkamlega og andlega og það styrkti mig. Ég bý enn að þessari reynslu í dag því þetta sumar lærði ég að vinna. - - - - - Ég skora á æskuvinkonu mína hana Sæbjörgu Freyju Gísladóttur að skrifa næsta pistil. Helga María Pálsdóttir er brottfluttur Skagfirðingur ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Sumarið sem ég lærði að vinna

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.