Feykir


Feykir - 04.04.2012, Blaðsíða 6

Feykir - 04.04.2012, Blaðsíða 6
6 Feykir 14/2012 Ferðasaga Kristrúnar Kristjánsdóttur frá Melstað í Miðfirði Með penna í farteskinu Kristrún Kristjánsdóttir frá Melstað í Miðfirði lagði af stað heimsreisu þann 15. febrúar sl., ásamt Lóu Dís Másdóttur en vinkonurnar verða á ferðalagi næstu þrjá mánuðina. Kristrún var áskorendapenni Feykis í febrúar sl. og komst Feykir þá á snoðir um ferðaáætlanir hennar og bað hana að deila ferðasögu sinni austur á bóginn með lesendum Feykis. Hér er komin færsla frá upp- hafi ferðalagi hennar og svo fáum við að fylgja þeim stöllum eftir á vit ævintýranna í næstu blöðum. Loksins er ég komin til Dubai. Það má segja að ferðalagið hafi samt byrjað að hálfu þann 15. febrúar, þá skellti ég mér nefnilega til Köben með eitt stykki kartöflu í hálsinum í leit að Dönum til að æfa mig á. Það vildi svo óheppilega til að lítið varð um dönsku því helmingur þjóðar vorrar hefur holað sér þarna niður. Ég fékk að gista hjá einum þeirra; Kjartani en hann er kokkur á Laundromat, mikill rokkari og snillingur. Við fórum á alls kyns pöbba og enduðum auðvitað á Blasen þar sem allir íslendingarnir voru... en þetta er saga sem við höfum öll heyrt og upplifað. Þann 26. febrúar var svo komið að því að fara til Dubai, ég var með smá hnút í maganum vegna klæðaburðar og fór í leiðangur með Kjartani daginn fyrir flug í leit að flík sem sýndi sem minnst og huldi það mesta. Þegar ég lenti svo loksins í Dubai voru flestir frekar léttklæddir að undanskildum Aröbunum auðvitað. Arabamennirnir eða Emmerati-arnir eins og þeir eru kallaðir þar í landi eru allir klæddir í síða hvíta kjóla, með hvíta eða köflótta klúta á hausnum og einhvers konar leður eða kaðal band í hring um hausinn til að halda klútnum á réttum stað. Konurnar eru klæddar í svarta kjóla sem hylja allt og með klúta á hausnum sem hylja alltaf hárið en misjafnt er þó hvort sjáist í allt andlitið eða einungis augun. Það kom mér á óvart að karlmennirnir væru alltaf klæddir í búning eins og konurnar, einhvernvegin eru búningar kvenna mun áberandi í vestrænu samfélagi. Ég leitað mér að taxa og fann ágætis bílstjóra að ég hélt, það endaði nú samt þannig að ég borgaði 60$ (7000 kr.) fyrir örstutta ferð á Gloria Hotel, því þetta var í rauninni ekki alvöru taxi, bara einhver svindlari. Taxarnir eru í raun alls ekki dýrir hér og mun ódýrari en heima. Hótelið reyndist dásamlegt, ég fékk herbergi á 40. hæð með útsýni yfir alla borgina sem lítur út eins og risastór sandkassi með fullt af risastórum sandhúsum, kuflklæddu sandfólki og nýjustu og flottustu leikfangabílunum. Þar sem ég var ein á hótelinu fyrstu tvo dagana ákvað ég að skoða mig aðeins um; þá komst ég að því að reglurnar með klæðaburð eru alls ekki svo strangar. Dubai er auðvitað mjög ung borg og um helmingur búenda eru útlendingar. Múslímarnir halda þó í sínar hefðir, eins og t.d. var áfengi ekki selt á hótelinu okkar og ekkert svínakjöt á boðstólnum. Í staðinn buðu þeir upp á shisha eða vatnspípur svokallaðar og alls kyns öðruvísi kjöt eins og kameldýr, lamb og þess háttar. Þrátt fyrir að ekki var áfengi á hótelinu er það samt selt á flestum hótelum og skemmtistöðum, nokkurs konar „friðhelgi“ fyrir túristana. 29. febrúar kom Hafsteinn vinur minn frá Bahrain, þar sem hann býr og vinnur sem einkaflugmaður fyrir sjeik (fursta) og fjölskyldu hans. Sama dag hitti ég fleiri vini hans, allir flugmenn, og ákváðum að taka smá roadtrip í vínbúð sem er opin almenningi en hún er í rúmlega klst. fjarlægð frá Dubai. Við keyrðum útúr borginni og við okkur blasti óendanleg eyðimörk. Við keyrðum framhjá, „draugaborginni“, hún ber það nafn því rétt áður en kreppan skall á var verið að byggja hana af kappi en allar aðgerðir féllu niður og nú standa margar tugir háhýsa hálfkláruð og auð. Ég er ekki frá því að minnsta kosti hálf íslenska þjóðin kæmist í þessar byggingar. Áfram héldum við og mættum svo hóp kameldýra, við stoppuðum og fórum út til að reyna að ná myndum en þá gengu þau bara til okkar, ótrúlega gæf og leyfðu okkur að klappa sér. Loks komum við að vínbúðinni eftir nokkrar vitlausar beygjur, hún stendur í lítilli húsaþyrpingu með litlu resturanti við ströndina. Þarna var mikið úrval reyndar svo mikið að rassinn á bílnum snerti næstum jörðina þegar við héldum heim á leið, enda var einn vinurinn Þjóðverji. Þegar við komum til baka var kominn kvöldmatartími svo við ákváðum að fara á mjög local veitingarstað við höfnina. Staðurinn heitir Bu Qtair og var æðislegur, fyrst fór maður bakvið í eldhúsið þar sem fiskarnir lágu dauðir í einhverri dressingu og þar völdum við okkur tvo stóra fiska og slatta af rækjum. Svo borguðum við og biðum eftir að vera kölluð upp. Maturinn var dásamlega góður, þarna var ekki boðið upp á hnífapör heldur voru það bara guðsgafflarnir sem fengu að njóta sín. Með þessu var borin fram einhvers konar sósa, grænmeti og eitthvað það besta nan- brauð sem ég hef nokkur tímann smakkað. Eftir matinn fórum við á skemmtistað sem heitir Barrasti. Þar var boðið upp á vatnspípu að hætti Arabana og vegna þess að þetta var hótel var einnig boðið upp á vínveitingar. Við skemmtum okkur vel en vorum þó frekar þreytt eftir daginn svo við fórum snemma heim á hótel. 2. mars kom Lóan mín til Dubai, ég og Hafsteinn fórum á flugvöllinn um morguninn að ná í hana og það urðu miklir fagnaðarfundir. Við fórum beint í Dubai-mall til að fá okkur morgunmat sem var alls ekki af verri endanum, við fengum okkur æðislega hörpuskel í forrétt og skötusel í aðalrétt, alveg hreint dásamlega gott. Í mollinu keyptum við okkur miða í Bruj Khalifa sem er stærsti turn í heimi eða allt að 829.84 m, það var allt uppselt þannig að við keyptum miða fyrir mánudag. Við gengum um mollið og sáum þar risastórt fiskabúr sem innihélt alls kyns fiska og hákarla, þar var hægt að fá að kafa með fiskunum en það kostaði skildinginn svo við ákváðum að sleppa því. Um kvöldið fórum við út að borða með Hafsteini á stað sem heitir Madina’s souk, það er nokkurs konar markaður, sem er í raun hið mesta völundarhús, með fullt af alls kyns búð-um, restúröntum og klúbbum. Við borðuðum dýrindismat og drukkum alls kyns kokteila. Eftir matinn skildu leiðir og við Lóa fórum upp í taxa og báðum hann að skutla okkur á einhvern góðann klúbb. Við enduðum á skemmtiðstað sem heitir Circus, við vissum ekkert við hverju mátti búast en þegar við gengum inn sáum við dverga dansa í glerbúrum, konur dansandi með húllahringi, fólk á stultum og eldspúandi menn á sviðinu. Þetta var alveg hreint frábær endir á kvöldinu og við fórum alsælar heim á Gloriu. /KK ~ „Ég fékk herbergi á 40. hæð með útsýni yfir alla borgina sem lítur út eins og risastór sandkassi með fullt af risastórum sandhúsum, kuflklæddu sandfólki og nýjustu og flottustu leikfangabílunum.“ ~ „Þegar við gengum inn sáum við dverga dansa í glerbúrum, konur dansandi með húllahringi, fólk á stultum og eldspúandi menn á sviðinu.“

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.