Feykir


Feykir - 18.04.2012, Blaðsíða 4

Feykir - 18.04.2012, Blaðsíða 4
4 Feykir 15/2012 Heilir og sælir lesendur góðir. Höfundur fyrstu vísunnar að þessu sinni er Indriði Aðalsteinsson bóndi á Skjaldfönn. Mun hún ort í tilefni af grein sem birtist í Mogga 20. mars síðastliðinn. Grænir ráfa villu veg veslast upp á eyðisöndum. Sundrungin er svakaleg og Steingrímur í tröllahöndum. Einhverju sinni er fyrripartur vísu var birtur í útvarpi og áheyrendur beðnir um að botna svaraði Erlendur Hansen á Sauðárkróki svo vel að senda heila vísu. Mátti lesa út úr henni tvo sjálfstæða botna. Umræddur fyrripartur var svohljóðandi. Kosningar og krepputal nú koma af fullum þunga. Erlendur: Áfram kraumar evruhjal með ofur litlum drunga. Góða veislu gjöra skal þótt glatist feðratunga. Á þessum gulnuðu blöðum sem mér bárust úr Skagafirði og eru nú að verða landsfræg í Feyki, er svolítið fjallað um snillingana svokölluðu sem ortu í útvarpið fyrir margt löngu. Mun það reyndar hafa verið árið 1955. Voru þættirnir kallaðir „Já og nei“ og var stjórnandi þeirra ef ég man rétt Sveinn Ásgeirsson. Snillingar sem ortu þar voru hinir landskunnu Guðmundur Sigurðsson, Helgi Sæm, Karl Ísfeld, Steinn Steinarr og kannski fleiri sem ég veit ekki um. Eitt sinn er Sveinn varpaði fram svofelldum fyrriparti botnaði Guðmundur Sig svo vel. Alltaf veitast mjög að mér mæða, þreyta og leti. Enginn breytir sjálfum sér svo að heitið geti. Aftur kemur fyrripartur frá Sveini, Guð- mundur botnar. Rifist er á þjóðarþingi þótt það gagni smátt. Aldrei hefur Íslendingi orðið svara fátt. Öðru sinni var fyrri parturinn þessi. Mæddur af táli margur dró munn að skálarbarmi. Guðmundur botnar. En það kálar enginn þó okkar sálargarmi. Næsti fyrripartur sem Helgi Sæm mun hafa botnað var svohljóðandi. Út við rótarúfið haf ég á fótum norpi. Strákurinn Tóti er stunginn af með stelpu úr Grjótaþorpi. Vísnaþáttur 568 Laglega gert þar hjá Helga. Næsta fyrripart mun Karl Ísfeld hafa botnað. Vakir einn um vetrarnótt vargur í urðarhóli. Harðlega að mér hefur sótt Halldór á Kirkjubóli. Lagleg hringhenda verður til þegar Karl botnar næsta fyrripart. Einn er dátinn öðrum betri allir kátir þeir mér reyndust. Þó var ég mát á þessum vetri þegar átján að mér beindust. Ein vísa í viðbót úr þessari ágætu syrpu og þar mun Steinn eiga botninn. Margur enn í heimi hér harma sína rekur. Gáir lítt af sjálfum sér og síðan víxil tekur. Tvær vísur sem virðast samstæðar á þessum góðu gulnuðu blöðum bera höfundarnafnið Halli. Grunar mig að þar sé Haraldur Hjálmarsson á ferð. Í gær var illa sál mín sett hún sálaðist því er miður. Hún fór upp á háan klett og hentist þaðan niður. Þá margur heyrði háan hvell hart varð úti friður. Þegar sál mín syndug féll sökk í djúpið niður. Að lokum ein í viðbót af þessu góða blaði og undir henni stendur Jón á Gilsbakka. Ekki efast ég um réttmæti þess en ekki er gott að ráða í tilefnið. Byrjum drengir húrrahróp hjá er genginn vandinn. Nú hefur enginn hér úr hóp hleypt á Sprengisandinn. Ekki er hægt annað en að taka gleði sína við að rifja upp þessar fallegu vorhugleiðingar Jóa í Stapa. Ennþá gerast ævintýr. Óðum léttist sporið. Leitar andinn undur hlýr út í blessað vorið. Svigna í skyndi sinustrá í sunnanvindi hlýjum. Fjallatinda bak við blá birtist mynd í skýjum. Þakka lesendum sem nú undanfarið hafa haft samband og gefið greinargóðar upplýsingar um vísur sem fjallað hefur verið um. Bið um að framhald verði þar á. Gott að leita til Jóa í Stapa með fallega lokavísu. Svona dagar gleðja geð gróin hagabörðin. Glóey fagurt geislum með gyllir Skagafjörðinn. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) Það var haustið 1961, þrjár ungar Reykjavíkurmeyjar glettnar og galvaskar höfðu ákveðið að skella sér í húsmæðraskóla. Ekki af því að þær langaði að verða húsmæður, ó nei, það var bara af ævintýraþrá. Ætluðum auðvitað ekki að fara nema í Borgarfjörðinn, en fengum ekki inni á Varmalandi (forlög kannski?) en fengum pláss á Löngumýri í Skagafirði hvar sem það nú var. Leiðin lá frá höfuðborginni eitthvað norður í land með Norðurleið. Það var alveg einstaklega almennilegur bílstjóri sem keyrði rútuna, hann bókstaflega sá um okkur alla leiðina, hann Svavar Einarsson. Við vorum spenntar en þó svolítið kvíðnar yfir þessu gönuhlaupi í okkur. Loksins nálguðumst við Skagafjörðinn og þegar við komum á Vatnsskarð þá blasti við okkur blómleg sveit eins langt og augað eygði. Við komum í Varmahlíð og fannst ekki mikið til þessa staðar koma því við héldum í fyrstu að við ættum að vera þar. En svo var brunað með okkur á sléttuna fyrir neðan þorpið og þarna var staðurinn sem við áttum að dvelja í heilan vetur, Langamýri. Okkur fannst þetta búið að vera undarlegt ferðalag á okkur, en mikið var tekið vel á móti okkur þarna. Á Löngumýri var gott að vera og voru þar 27 stúlkur samankomnar þennan vetur.Okkur fannst nú nokkur sveitarbragur á öllu til að byrja með enda við ekki vanar sveitinni. Það var byrjað á að taka upp kartöflur, síðan tekið slátur, kjöt saltað í tunnur og bakað laufabrauð, en það þekktum við ekki. Þetta gerðum við þó allt og höfum búið að því alla tíð síðan. Þegar haustverkum lauk var farið að huga að handavinnunni og þá var farið í leiðangur út á Sauðárkrók, sem okkur var sagt að væri kaupstaðurinn. Man ég þegar að við sáum Krókinn fyrst, fannst okkur þetta vera óttalegt krummaskuð, enda komið hrímkalt haust og horfin sumars blíða. En þegar við komum inn í verslunina Drangey til Ingibjargar og sáum öll efnin þá urðum við steinhissa. Þetta var hreinlega eins og að koma inn í verslun í Reykjavík og allt til sem okkur vantaði. Á Löngumýri giltu strangar reglur og ef þær voru brotnar þá særðum við Ingibjörgu skólastýru mjög. Hún tók þó flestu slíku með jafnaðargeði og aldrei var neinni vísað úr skóla þrátt fyrir skammarstrik öðru hverju, en verða þau ekki tíunduð hér. Svo kom vorið og brátt skyldu leiðir. Nú heyrir gamli skólinn minn á Löngumýri sögunni til og önnur störf stunduð þar, en í sumar er 50 ára útskriftarafmæli okkar skólasystranna. Var það kveikjan að þessum litla pistli mínum. - - - - - Ég skora á vinkonu mína Elsu Björk Sigurjónsdóttur að skrifa næsta pistil Anna Pétursdóttir skrifar frá Skagafirði ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Á Löngumýri

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.