Feykir


Feykir - 18.04.2012, Blaðsíða 5

Feykir - 18.04.2012, Blaðsíða 5
15/2012 Feykir 5 Telma Magnúsdóttir varaþingmaður Norðvesturkjördæmis Sérstakir dagar á Alþingi Telma Magnúsdóttir frá Steinnesi í Húnavatnssýslu tók sæti á Alþingi þann 27. mars sl. en hún var varamaður fyrir Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, sem þá var stödd erlendis. Telma er ferðamálafræðingur og hefur starfað með Vinstri grænum í nokkur ár. Telma deildi reynslu sinni með blaðamanni Feykis af veru sinni á Alþingi Íslendinga og upplifun sem hún segir bæði hafa verið jákvæða og neikvæða í senn. „Ég tók aðeins sæti í fjóra daga og það var svolítið sérstakt að vera í svo stuttan tíma, kynna sér málin eins vel og hægt var en vita um leið að maður myndi ekki fylgja þeim eftir í gegnum þingið. Þetta var fyrst og fremst mjög spennandi og góð kynning á því hvernig Alþingi gengur fyrir sig og hvernig starf þingmannsins er. Ég myndi segja að ég væri reynslunni ríkari jafnvel þó að setan væri stutt,“ segir Telma en henni var boðið sætið með mjög stuttum fyrirvara. „Ég fékk símtal í byrjun vikunnar þar sem að varaþingmann vantaði fyrir Lilju Rafneyju. Halldóra Lóa, sem er 1. varaþingmaður, var að hugsa málið og ég var beðin um að taka þetta að mér ef hún kæmist ekki,“ útskýrir Telma. „Ég var í fæðingarorlofi og fyrirvarinn mjög stuttur svo ég þurfti aðeins að hugsa málið. Þegar ég svo sá fram á að hafa pössun fyrir peyjann þá ákvað ég að sjálfsögðu að taka þetta að mér - enda kosin til þess. Ákvörðunina tók ég snemma á þriðjudagsmorgun og var mætt á Alþingi um hádegi sama dag.“ Hélt jómfrúarræðu um sín hjartans mál Telmu hafði áður verið boðið varaþingmannssæti en var þá kominn á steypinn, eins og hún lýsir því sjálf, og baðst þá frá því. „Ég satt að segja bjóst ekki við því að tækifærið byðist aftur en ég er auðvitað 2. varaþingmaður svo það gat alltaf komið til. Við eigum þrjá menn inni úr þessu kjördæmi, reyndar einn framsóknarmann í dag, svo líkurnar eru frekar miklar á að varaþingmenn þurfi að hlaupa í skarðið af og til.“ Þó svo Telma hafi lítið verið að vasast í stjórnmálum síðasta árið, þar sem hún var í fæðingarorlofi með litla drenginn sinn, hafi hún dottið í gírinn um leið og hún tók sæti á þinginu og fékk að koma skoðunum sínum á framfæri. „Þetta gekk bara nokkuð vel, ég hélt mína jómfrúarræðu þar sem ég fékk tækifæri á að tala um mitt hjartans mál, náttúruna og rétt hennar,“ segir hún og bætir við að hún hafi þar að auki fengið tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri varðandi ýmis mál og senda inn skriflegar fyrirspurnir um mál sem varða kjördæmið, ferðaþjónustu og náttúruvernd. Þau mál sem henni fannst nauðsynlegt að vekja ráðherra til umhugsunar um og að fá skýr svör við. „Ég átti reyndar við smá byrjunarörðuleika að etja. Ég gat með engu móti hækkað stólinn minn þegar ég tók mér sæti í þingsalnum fyrsta daginn, hann var fastur í lægstu stöðu svo ég mátti leggja mig alla fram um að teygja úr búknum til að ég næði upp á borðið til þess að skrifa undir drengskaparheitið,“ segir Telma og hlær. Að öðru leiti segir hún þetta hafi í stórum dráttum verið eins og hún hafði búist við en þó kom stöðugt eitthvað á óvart. „Ég fékk að upplifa ansi sérstaka daga á Alþingi þar sem tvö mikilvæg mál voru í vinnslu, sjávarútvegurinn og stjórnarskráin. Þingfundir stóðu langt fram á nætur, óvæntar atkvæðagreiðslur og atkvæðagreiðslur sem aldrei komu til en voru á dagskrá. Það var skiljanlega mikill hiti kominn í mannskapinn eins og þjóðin fékk að sjá í fjölmiðlum,“ segir Telma og heldur áfram: „Eftir að hafa verið þarna í nokkra daga leið mér þó eins og ég væri búin að vera þarna í mun lengri tíma, ég fékk smjörþefinn af mörgum frumvörpum og tillögum sem verður síðan áhugavert að sjá hvernig verða afgreidd að lokum. Það er merkilegt að fá loksins að kynnast eða hafa skoðanir á vinnslu mála sem maður hefur margoft lesið um í fréttunum.“ Óskar eftir gagnkvæmri virðingu þingmanna Telma segir upplifunina hafa verið skemmtilega og að hún sé reynslunni ríkari. „Það er vissulega margt sem kom á óvart, bæði jákvætt og neikvætt. Ég held það sé hollt að setjast þarna inn í svo stuttan tíma, maður sér líklega hlutina í allt öðru ljósi en þeir sem hafa verið þarna í lengri tíma, þ.e. maður tekur þátt af fullum krafti en á sama tíma horfir á úr fjarlægð,“ útskýrir hún. „Það eru margir hlutir sem ég myndi vilja sjá unna á allt annan hátt en tíðkast nú en um leið átta ég mig á að því verður ekki breytt svo auðveldlega. Mér myndi til dæmis þykja vænt um að sjá þingmenn og -konur bera meiri virðingu fyrir hvert öðru.“ Í lokin segir Telma það vera óljóst hvort dagar hennar á Alþingi Íslendinga séu taldir - „hugsanlega fæ ég tækifæri til að láta ljós mitt skína síðar meir.“ /BÞ Mikil vinátta og sterk tengsl mynduðust milli krakkanna sem áttu erfitt með að kveðja hvert annað við ferðalok. Hér eru þeir á góðri stund. Mynd: Magnús Hinriksson

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.