Feykir


Feykir - 03.05.2012, Blaðsíða 8

Feykir - 03.05.2012, Blaðsíða 8
8 Feykir 17/2012 ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Guðmundur Helgason skrifar frá Hvammstanga Átthagarnir Þegar maður heyrir orðið „átthagar“ tengir maður það ósjálfrátt við staðinn þar sem maður fæddist eða ólst upp, sem í mínu tilfelli var suðurlandsundir- lendið. Núna í seinni tíð hefur þó tengingin í mínu tilfelli verið að færast til. Skal ég nú útskýra það. Húnaþingi vestra kynntist ég fyrst vorið 2001, þá nýlega tekinn saman við konu héðan frá Hvammstanga, en þá bjó ég á suð-vesturhorninu. Sumarfríinu það ár eyddi ég hér, en þá vildi einmitt svo til að norðanáttin (oft kölluð innlögn), sem að jafnaði er dugleg að heimsækja staðinn, var óvenju iðin og afkastamikil og dældi svölu íshafslofti yfir sumargestinn mig, með þoku upp á hvern einasta dag (í minningunni allavega) og fimbulkulda. Þá tók ég eina af þessum stóru ákvörðunum sem maður tekur í lífinu: aldrei skal ég búa hér! Með tímanum fór maður svo að venja komur sínar hingað oftar, ég kynntist fleira og fleira fólki og fór að verða vel kunnugur staðháttum, bæði á Tanganum og í sveitinni, hvert konan á tengingar. Allstaðar var hið sama uppi á teningnum; manni var tekið eins og týnda syninum hvarvetna og árið 2004 var ekki lengur umflúið að flytja hingað, enda vorum við þá farin að keyra norður nánast um hverja helgi, undum okkur engan veginn fyrir sunnan. Þannig liðu ekki nema þrjú ár þangað til ég var búinn að snúast og sestur að í blessaðri innlögninni. Þegar ég í dag hugsa til baka, þá finnst mér ég í rauninni hvergi hafa átt heima, fyrr en ég flutti hingað. Ég á við að hér finnst mér ég loksins kominn heim: Húnaþing vestra er „heima“ í mínum huga. Þannig að þegar orðið „átthagar“ dúkkar upp, þá er það í mínu tilfelli tengt Húnaþingi vestra órjúfandi böndum. En núna stendur til að gera eins og allir hinir: flytja til Noregs. Maður lætur nú fjandinnhafiða ekki heila ævi líða án þess að prófa að búa í útlöndum. Það er þó bara hugsað sem nokkurra ára plan, síðan vil ég koma aftur heim (og núna þarf ég væntanlega ekki að taka fram hvað ég á við með „heim“), helst að eignast landskika (í Vesturhópinu takk) og geta verið með skepnur. Ef það mun hins vegar haga þannig til að við tökum upp búsetu annarsstaðar á landinu, þá er ég að minnsta kosti löngu búinn að taka aðra stóra ákvörðun, sem ég reyndar ætla mér að standa við: að hér á Hvammstanga vil ég láta husla mig þegar minn tími kemur og hananú! - - - - - Ég skora á Tryggva Ólafsson að koma með næsta pistil, hann er rafvirki og snillingur á ótal öðrum sviðum. Ferðasaga Kristrúnar Kristjánsdóttur frá Melstað í Miðfirði Með penna í farteskinu IV Kristrún Kirstjánsdóttir er í heimsreisu ásamt vinkonu sinni Lóu Dís Másdóttur. Undanfarnar vikur hefur hún deilt upplifun sinni af ævintýrum þeirra á leiðinni austur á bóginn. Ferðalagið hófst þann 15. febrúar með stuttu stoppi í Kaupmannahöfn, þaðan var haldið til Dubai og nú eru stöllurnar komnar til Balí. Þann 8. mars vöknuðum við snemma til að ná morgunmat. Það var ótrúlega heitt í Kuta svo við ákváðum að skella okkur á ströndina. Á leiðinni niður á strönd gengum við í gegnum markað en um leið og við stigum einn meter inn í markaðinn þyrpt- ust sölumennirnir að okkur eins og mý að mykjuskán. Það var togað í okkur úr öllum áttum og beinlínis reynt að plata og pína okkur í að kaupa allt sem fyrir augum bar. Við reyndum hvað við gátum að ganga bara beint áfram og segja orðin: „No thank you“ aftur og aftur en þrátt fyrir hraða göngu náði ein kona að klófesta Lóu með því að binda á hana armband og segja að það væri gjöf frá Balí. Um leið og ég stoppaði með henni kom önnur með álíka armband og festi það á úlnliðinn á mér. Við reyndum að koma okkur í burtu en þær heimtuðu að fá að klippa endana af, við fylgdum þeim því inn í básinn og á meðan konan hélt um úlnliðinn til að klippa armbandið kom önnur sem byrjaði að gera blóm á neglurnar á okkur. Til að gera langa sögu stutta heimtuðu þær auðvitað að lokum pening með háum öskrum og við enduðum á því að henda í þær íslenskum peningum og forða okkur svo. Við komumst þó á ströndina loksins, sem var alveg hreint dásamlegt. Við gengum í hlýju vatninu og fengum svo bekk leigðan af nokkrum innfæddum strákum. Þeir voru mjög fínir, spjölluðu heilmikið og buðu okkur að koma í surf daginn eftir, sem við að sjálfsögðu þáðum. Eftir klukkustund í sólbaði ákváðum við að koma okkur heim því ég hafði ekki sett neina sólarvörn á fæturna, rauð- hærðamanneskjan sjálf. Um leið og við stóðum upp snerist allt fyrir augum mér og það lá við að ég kastaði upp. Lóa greyið og nokkrir forvitnir Balíanar reyndu að hjálpa mér, komu mér inn í leigubíl og vorum komnar inn í loftkælda hótelherbergið okkar fyrr en varði. Þegar leið á kvöldið kom í ljós að fæturnir á mér voru svo ~ „Við fórum í apótekið áður en við fórum heim á hótelið aftur, konurnar þar þekktu Lóu vel og voru glaðar að hitta mig: „Lóa’s sick friend“.“ brenndir báðum megin að ég gat hvorki legið né setið. Næstu dagar einkenndust af innilokun á hótelherberginu, köldu baði, roomservice og reglulegum ferðum Lóu í apótek til að reyna að lina sársauka minn. Þetta var hryllilega vont og ég var við það að verða geðveik á innilokuninni og bólgnum og rauðum fótum mínum. Þrátt fyrir að þetta hafi verið erfitt fyrir mig var þetta varla auðveldara fyrir Lóu sem þurfti að þola mig, en ég segi með sanni að ég var á mörkum þess að verða geðveik. Ég rak Lóu þó út stöku sinnum, einn daginn fór hún á ströndina að læra að sörfa og síðasta kvöldið ákváðum við að fara út að borða. Ég dældi í mig verkjatöflum og bólgueyðandi og svo gengum við af stað. Kuta er rosalegur partý staður með hárri tónlist út um allt. Við fórum á rosalega fínan stað þar sem við völdum okkur humar og svo var hann eldaður ofan í okkur, hann var geggjaður. Við stoppuðum þó ekki lengi heldur fórum í apótekið áður en við fórum heim á hótelið aftur, konurnar þar þekktu Lóu vel og voru glaðar að hitta mig: „Lóa’s sick friend“. 12. mars vöknuðum við snemma og Paul Young kom að ná í okkur því nú áttum við að fara í bílferð til Ubud. Paul blaðraði alla leiðina og við höfðum gaman af. Við stoppuðum á leiðinni á ótrú- lega fallegu hóteli þar sem við fengum okkur hádegismat. Kíktum líka á silfurverk- smiðju þar sem við fengum að sjá hvernig allt var gert og enduðum í risa- stórri skart- gripabúð. Við keyptum sinn hvorn silfur- hringinn og gáf- um hvor annarri. Stuttu síðar vorum við komnar til Ubud, á fallegt lítið hótel með stórum hrísgrjóna- akri í miðju hótel-svæðinu, þar voru froskar útum allt og eðlur upp um alla veggi. Kristrún Kristjánsdóttir skrifar ~ „Fallegt lítið hótel með stórum hrísgrjónaakri í miðju hótelsvæðinu, þar voru froskar útum allt og eðlur upp um alla veggi.“ Lóa að surfa í Kuta.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.