Feykir


Feykir - 16.05.2012, Blaðsíða 8

Feykir - 16.05.2012, Blaðsíða 8
8 Feykir 19/2012 ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Erla Einarsdóttir skrifar frá Sauðárkróki Stuðningur við fjölskyldur langveikra barna Þegar elsti sonur minn var 3 vikna gamall var mér tilkynnt að blóðprufan sem tekin var úr hæl hans á fæðingardeildinni hefði sýnt að mögulega væri hann með sjaldgæfan meðfæddan efnaskiptagalla. Viðbrögðin voru þau að fara afsíðis eins fljótt og ég gat og gráta úr mér augun. Ég var hrædd, ótrúlega sorgmædd og full vanmáttar því þetta var eitthvað sem ég gat ekki stjórnað eða breytt neinu um og það var rosalega vont. Þó má segja að ég hafi verið ótrúlega heppin með hvernig ég fékk þessar fréttir því Birgir læknir og fjölskylda voru vinir og nágrannar. Það vildi svo til að Atli Dagbjarts barnalæknir þekkti Birgi og hringdi í hann og bað hann að segja okkur frá niðurstöðum blóðprufunnar. Birgir var búinn að lesa sér til um efnaskiptagallann, PKU, áður en hann kom til að færa okkur fréttirnar og gat því svarað ýmsum spurningum sem brunnu strax á mér. Við tók svo ferð til Reykjavíkur með ungann minn og innlögn á barnadeild LSP þar sem margt þurfti að læra og takast á við. Þetta var hrikalega erfiður tími fyrir alla fjölskylduna en 3 árum síðar eignaðist ég svo yngri soninn sem greindist líka með PKU og að auki annan sjaldgæfan efnaskiptagalla, CAH. Með honum eyddi ég 6 mánuðum á LSP fyrsta 1-1og ½ árið hans. Ég var svo heppin að eiga góða að og í þessum spítalainnlögnum mættu foreldrar mínir og amma og afi á barnadeildina og haldnir voru fundir þar sem stórfjölskyldan fræddist um sjúkdóma sona minna sem var eiginlega lífsnauðsynlegt fyrir okkur öll og ekki síst drengina. Næstu árin voru að segja má þrotlaus barátta, með og við fullt af góðu fólki og kerfið. Allt sem við, foreldrar þeirra 4 drengja sem voru á PKU-fæði (próteinsnauðu sérfæði), gerðum má segja að hafi að mestu leiti verið „grasrótarbarátta“. Þeir voru fyrstu börnin sem fæddust með PKU á Íslandi í 13 ár og á þeim tíma var enginn annar á sérfæði en þeir. Það var enginn umönnunarstyrkur fyrir langveik börn, enginn innflutningsaðili að próteinsnauða matnum og engar niðurgreiðslur á honum heldur, engin matreiðslubók, engin námskeið til að læra að elda matinn o.s.frv. Allt þurfti að hugsa frá byrjun og berjast fyrir flestum réttindum barnanna. Þetta er oftar en ekki hlutskipti foreldra sem eignast börn með sjaldgæfa sjúkdóma. Það leið ekkert á löngu þar til ég fór að finna fyrir þunglyndi, kvíða, þreytu og oft hreinlega algerri örmögnun. Meðal annars fórum við á fundi með ýmsum aðilum sem höfðu með málefni langveikra barna og fjölskyldna þeirra að gera. Þegar við vorum spurð um okkar reynslu og hvað okkur fyndist að betur mætti fara tókum við alltaf fram aðferðir við að tilkynna foreldrum veikindi barna þeirra og stuðning við fjölskylduna og fólkið sem kemur að umönnun barnanna. Þar á meðal er þetta: Þegar foreldrum er tilkynnt að barnið þeirra sé veikt þurfa allar upplýsingar að vera til staðar, óvissa gerir fólk hrætt og fyllir það enn meiri vanmætti en ella. Til staðar við tilkynningu þarf að vera, auk lækna og sérfræðinga, sálfræðingur sem getur svo fylgt fjölskyldunni eftir a.m.k. á innlagnatíma. Þegar barn greinist með sjúkdóm þurfa foreldrar að eiga sjálfkrafa bókaðan tíma hjá sálfræðingi, sem fer með þeim yfir eðlileg viðbrögð í framhaldi af svona fréttum og það sem framundan getur verið, og félagsfræðingi, sem gerir fólki grein fyrir réttindum sínum og aðstoðar við umsóknir til TR m.a. Nauðsynlegt er að foreldrum standi til boða að fá fræðslufundi með stórfjölskyldunni, og vinum e.t.v., þar sem fólk getur spurt sérfræðingana beint. Það getur verið erfitt og þreytandi að þurfa að útskýra sömu hlutina aftur og aftur. Fjölskylda og vinir geta orðið meiri og betri stuðningur með svona þáttöku frá byrjun. Áframhaldandi stuðningur m.a. frá sálfræðingi og félagsráðgjafa er að mínu mati nauðsyn eftir að heim er komið og daglegt amstur tekur við. Þegar ég var í endurhæfingu fyrir ekki löngu síðan og spurði einn meðferðaraðilann hvort fólk sem kæmi á endurhæfingarstofnunina vegna annars en slysa og fatlana ætti eitthvað sérstakt sameiginleg brá mér svolítið við svarið: „Já, hingað til hefur stærsti hlutinn verið þolendur kynferðis- og/eða heimilisofbeldis en núna finnst mér vera rosalega mikið af foreldrum, sem eru búnir að ala upp fötluð eða langveik börn, sem koma í endurhæfingu, fólk sem er hreinlega bara búið á því, „brunnið út“ og getur ekki meira“. Getur verið að þetta sé staðreynd? Höfum við jafnvel verið að „framleiða“ öryrkja og/eða sjúklinga framtíðarinnar með því að styðja ekki nógu vel við fjölskyldur langveikra barna? Ég ætla ekki að fara út í stuðning við þolendur ofbeldis hér... það er efni í aðra grein. Að lokum vil ég segja að ég fagna tilkomu Fléttuverkefnisins hér í Skagafirði, þar er um að ræða verkefni sem á heldur betur eftir að verða samfélaginu til góðs ef vel er að staðið. Meira svona takk! - - - - - Ég ætla að skora á Álfhildi Leifsdóttur. Styrking fyrir leikskólastarfið Leikskólar í Skagafirði Í upphafi mánaðarins útskrifuðust þrettán leikskólakennarar í Skagafirði með PMT grunnmenntun en um er að ræða fræðslu á grunnþekkingu í hugmyndafræðum og framkvæmd á svokallaðri PMT meðferð. PMT stendur fyrir „Parent Management Training“ eða foreldrafærni. PMT stuðlar að góðri aðlögun barna og er því afar mikilvæg aðferð ef börn sýna hegðunarfrávik. „Þetta var gríðarlega flottur hópur sem var að útskrifast og er hann mikil styrking fyrir það starf sem fram fer í leik- skólanum,“ segir Selma Barð- dal Reynisdóttir, uppeldis- og sálfræðiráðgjafi á Skólaskrif- stofu Skagfirðinga, sem hafði umsjón með námskeiðinu ásamt Þuríði Sigurðardóttur, verkefnisstjóra PMT á Akur- eyri. Umræddir leikskólakenn- arar starfa við alla þrjá leik- skólana í Skagafirði; Ársali á Sauðárkróki, Birkilundi í Varmahlíð og Tröllaborg út að austan. „Þetta er í annað sinn sem við bjóðum upp á þetta námskeið hér í Skagafirði og nú hafa alls 28 leikskóla- kennarar lokið þessari mennt- un,“ segir Selma. Leikskólarnir þrír eru að innleiða svokallaða SMT skólafærni undir handleiðslu Selmu. SMT skólafærni stend- ur fyrir „School Management Training“ og byggir á PMT- foreldrafærni. Þá er lögð áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því að kenna og þjálfa félags- færni, umbuna fyrir æskilega Selma (lengst til vinstri) ásamt leikskólakennurum í Skagafirði sem útskrifuðust með PMT grunnmenntun. hegðun og samræma vinnu- brögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæski- lega hegðun. PMT er þróað af Dr. Gerald Patterson, Dr. Marion Forgatch og samstarfs- fólki á rannsóknarstofnun, Origon Social Learning Center (OCLC), í Oregonfylki í Bandaríkjunum. „PMT byggir á sterkum grunni rannsókna og hefur sýnt sig að hún stuðli að góðri aðlögun barna. Jafnframt þykir hún árangursrík aðferð til að draga verulega úr hegðunar- erfiðleikum barna og ungl- inga,“ útskýrir Selma. Hún bætir við að aðferðin skili mestum árangri ef unnt er að grípa snemma inn í og vinna með vandamál sem upp koma á fyrstu stigum, en þess vegna þykir hún afar hentug á leikskólum. /BÞ

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.