Feykir


Feykir - 21.06.2012, Blaðsíða 6

Feykir - 21.06.2012, Blaðsíða 6
6 Feykir 24/2012 Evelyn er fædd árið 1973 og ólst upp í bænum Rheinsberg, ásamt bræðrum sínum tveimur og foreldrum. Rheinsberg er í Austur-Þýskalandi um 90 km norðvestan Berlínar, smábær á þýskan mælikvarða en þar búa í dag tæplega 8500 manns. Evelyn segir Rheinsberg afar menningarríkan bæ sem kynti undir áhuga hennar á menningu, sögu og tónlist, frá unga aldri. Þar hafði Friðrik mikli aðsetur sitt áður en hann varð konungur Prússlands árið 1740 og safnaði í kringum sig fjölda tónlistarmanna og heimspekinga og iðar bæjarlífið af menningu og tónlist enn þann dag í dag. „Ég byrjaði snemma að syngja í kór, fór í reiðkennslu í sveitinni og var mjög virk í unglingastarfi kaþólsku kirkjunnar,“ segir Evelyn um uppvaxtarár sín en bætir við að á þeim árum hafi ekki verið sjálfsagt að fólk væri trúað og það raunar litið hornauga í kommunistaríkinu Austur- Þýskalandi. „Við vorum eiginlega alltaf undir smá eftirlit af hinu „óopinbera“ vegna þessa og þurftum alltaf að hafa varann á okkur,“ útskýrir Evelyn og segir frá því þegar hún gleymdi sér í eitt sinn. „Það var þegar ég var nýbyrjuð í Menntaskólanum árið 1989. Bróðir minn og konan hans höfðu flúið land, yfir landamæri Ungverjalands-Austurríkis til þess að komast til Vestur- Þýskalands. Þá fannst mér nóg komið og lét heyra í mér þegar ég átti að hylla kommúnismann í skólanum,“ segir Evelyn en henni var næstum því vísað úr skólanum og þá hefði það þýtt endalok skólagöngu hennar og möguleika til frekara náms. „Ég var alin upp sem mjög sjálfstæð og ákveðin manneskja og fjölskylda mín stóð alltaf við bakið á mér,“ segir hún. „Það sem bjargaði málunum var að akkúrat á þessum tímapunkti var allt komið að suðupunkti og stjórn Austur-Þýskalands byrjuð að leysast upp,“ segir hún en stuttu seinna féll Berlínarmúrinn sem hún segir hafa verið það albesta sem gat komið fyrir. Man hverja einustu mínútu Evelyn segist muna hverja einustu mínútu þegar fréttin um fall múrsins barst henni til eyrna og þeirri miklu gleði sem fylgdi. „Ég man að ég var nýkomin heim úr skólanum. Ég kveikti á útvarpinu og heyrði umræður um að búið væri að opna múrinn. Ég man að ég þurfti að hlusta aftur og aftur, ég trúði þessu ekki!“ rifjar Evelyn upp. Hún fór yfir til vinkonu sinnar sem bjó í næsta herbergi á heimavistinni og spurði hana hvort hún væri búin að heyra fréttirnar. Saman hlustuðu þær á útvarpið í vantrú. Evelyn segir að það sem stóð mest upp úr var þegar hún fór yfir til Vestur-Berlínar í fyrsta sinn, tveimur dögum eftir fall múrsins. „Við vorum vön múrnum og máttum ekki koma of nálægt honum. Við vissum alveg að hinum megin við múrinn var eitthvað sem við máttum ekki sjá eða upplifa. En allt í einu gátum við farið þangað yfir, hjartað í mér hoppaði,“ rifjar Evelyn upp með bros á vör. „Við hlustuðum á Vestur-berlínskt útvarp, þó við mættum það í raun ekki, og vorum því alveg meðvituð um hvað fór þar fram. Ég þekkti þar ýmsa staðarhætti, stórar götur og torg, eftir að hafa hlustað á umferðarútvarpið og það var svo magnað þegar ég keyrði loks framhjá þessum götuskiltum og sá alla staðina sem ég hafði heyrt um í útvarpinu,“ segir hún og heldur áfram: „Það var allt svo glampandi og skínandi, hreint, fínt, málað, upplýst, já, bara allt öðruvísi,“ lýsir hún en fyrir nokkru sá hún mynd á facebook sem tekin var fyrir fall múrsins og segist hún hafa fengið áfall. „Maður er svo fljótur að gleyma. Þá rifjaðist upp fyrir mér hvernig húsin voru í niðurníðslu, allt drullugt og grátt.“ Hún segir það hafa verið skrýtið að hugsa til þess hve langt Vestur- Berlín hafði alltaf verið frá henni, en samt svo stutt frá, einungis klukkustunda akstur. „Aðalánægjuefnið var þó að sjá bróðir minn aftur,“ segir hún. Eftir fall Berlínarmúrsins stofnuðu foreldrar Evelyn litla ferðaskrifstofu og þá komst hún fyrst í snertingu við ferðaþjónustuna. „Ég byrjaði 17 ára gömul með leiðsagnir í rútum sem komu frá Berlín og Hamborg til að kynnast Austur-Þýskalandi. Þá vann ég ýmis önnur fjölbreytt verk fyrir ferðaskrifstofuna okkar, t.d. lærði ég að skipuleggja og selja ferðir og lagði rækt við þjónustulundina,“ segir hún og brosir. Í kjölfarið fór hún í Háskólann í Luneburg þar sem hún lagði stund á Menningarfræði sem hún segir hafa verið fjölbreytt og skemmtilegt nám. Hesturinn kom sterkast inn Það var í tengslum við námið sem leið Evelyn lá til Íslands í fyrsta sinn. „Ég fór í verknám á mörgum stöðum og meðal annars í Reykjavík haustið 1995. Áður en ég hóf verknámið ætlaði ég að ferðast um landið og fór í hestaferð yfir Kjöl, þar sem ég kynntist honum Sveini mínum,“ segir Evelyn en það var þá sem hún kom á Lýtingsstaði í fyrsta sinn. „Ég ætlaði að ferðast í kringum landið en gerði það ekki, þar sem mér líkaði svo vel hjá Sveini,“ segir hún og hlær. Evelyn snéri aftur til Þýskalands og kláraði meistaragráðuna í Menningarfræði árið 1997 og dreif sig svo strax aftur til Íslands, þar sem hún hefur búið síðan. Þegar Evelyn settist að á Lýtingsstöðum gafst henni tækifæri til að tengja saman öll hennar áhugamál, reynslu og þekkingu. Hún og Sveinn byggðu upp hestatengda ferðaþjónustu á Lýtingsstöðum og hafa rekið fyrirtækið í sameiningu frá árinu 2000. VIÐTAL Berglind Þorsteinsdóttir Tengir saman áhugamál sín, reynslu og þekkingu. „Ég hef aldrei séð eftir því að hafa sest að á Íslandi, og hér í Skagafirði. Ég hef komið mér vel fyrir og er ánægð með lífið,“ segir Evelyn aðspurð um lífið og tilveruna. Evelyn Kuhne rekur ferðaþjónustu á Lýtingsstöðum í samnefndum hreppi, ásamt manni sínum Sveini Guðmundssyni. Blaðamaður Feykis ræddi við Evelyn um uppvaxtar ár hennar í Austur-Þýskalandi og hvernig hún fylgdi hjarta sínu til Skagafjarðar. Hestar og menningararfleifð

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.