Feykir


Feykir - 28.06.2012, Blaðsíða 8

Feykir - 28.06.2012, Blaðsíða 8
8 Feykir 25/2012 Ferðasaga Kristrúnar Kristjánsdóttur frá Melstað í Miðfirði Með penna í farteskinu VII Kristrún Kristjánsdóttir fór í heimsreisu ásamt vinkonu sinni Lóu Dís Másdóttur. Undanfarnar vikur hefur hún deilt upplifun sinni af ævintýrum þeirra á leiðinni austur á bóginn. Ferðalagið hófst þann 15. febrúar með stuttu stoppi í Kaupmannahöfn, þaðan var haldið til Dubai, svo til Balí, Kuala Lumpur, Ha noi höfuðborg Víetnam og nú eru þær komnar til Sapa, í Norðvestur Víetnam. - - - - Eldsnemma um morguninn þann 19. mars komum við á lestarstöðina í Lao Cai. Þar beið okkar leiðsögumaðurinn hann Hví blessaður með nöfnin okkar á lofti og við tók um klukkustundar keyrsla til Sapa town. Við vorum skildar eftir á veitingastaðnum Lizard til að fá okkur morgunmat. Hví kom svo aftur að honum loknum og fór með okkur yfir búnaðinn sem við þyrftum að hafa fyrir gönguna. Þarna fór okkur að gruna að þetta yrði líklegast mun erfiðara en við bjuggumst við, því að Hví fannst eiginlega bara fyndið hvað við vissum ekkert um þetta og vorum illa búnar. Þá fórum við að kaupa gönguskó fyrir Lóu. Næst vorum við kynntar fyrir burðarmanninum okkar, Sam, en hann gekk einungis á plast inniskóm með um 20-30 kg á bakinu í nokkurs konar bambus körfu, með kaðalspotta sem ólar yfir axlirnar. Við vorum frekar undrandi á þessu og þótti skrýtið að hann væri með svona lélegan búnað, við hefðum getað látið hann bera þetta í öðrum hvorum bakpokunum okkar í staðinn en Hví sagði að þeir vilja víst hafa þetta svona. Þá byrjaði gangan. Það var rosalega heitt fyrsta daginn þannig að við svitnuðum eins og svín en það er nú bara daglegt brauð. Gangan var þó ekkert svo erfið og okkur gekk ágætlega miðað við það hræðilega form sem við vorum í. Við gengum í gegnum mörg lítil þorp, þar sem mikið var um sölukonur sem voru heldur ágengar. Við sáum fallegar vefnaðarvörur og alls kyns minjagripi sem voru þar til sölu. Útsýnið þarna var líka ótrúlegt. Í aldanna rás hafa bændur gert hrísgrjónaakra í hæðirnar, nokkurs konar ,,hrísgrjónaakrastiga” og þar ganga vatnsbuffalóarnir um ásamt svínunum og kjúklingum. Það er líka svo fyndið að sjá hvað allir, menn jafnt sem dýr, eru ólétt eða hafa afkvæmi hlaupandi útum allt; litlir hvolpar, kettlingar, andarungar, gríslingar, krakkar og svo lengi mætti telja. Eftir nokkurra tíma göngu jók alltaf á mis- skilninginn við Hví, sem talaði svo hræðilega ensku að Lóa og hann gátu ekki einu sinni talað saman. Ég hló mig máttlausa í mörg skipti sem ég horfði á þau reyna að hafa samskipti en það var þeim lífs ómögulegt og einhvern veginn gekk þeim alltaf rosalega illa að muna nöfn hvors annars líka. Lóa kallaði hann Hú og hann sagði alltaf bara þú, eða þá að hann sleppti því bara að tala við hana og sagði bara Kris. Hann talaði þó mikið um að hann vildi gera allt til að gera ferðina sem besta fyrir okkur, því hann væri sko leiðsögumaðurinn og hann tæki það hlutverk mjög alvarlega. Hann sagðist líka vera einhleypur og margt fleira sem við botnuðum ekkert í. Loksins komum við þó að fyrsta nátt- staðnum okkar sem var í svokallaðri heimagistingu. Þar bjó semsagt fjölskylda sem hefur risastórt herbergi með fullt af rúmum með teppum og koddum, eiginlega nokkurs konar hostel. Þarna komumst við að því að við vorum kannski svolítið snobb- aðar, en Paul Young okkar í Balí hafði nefni- lega sagt við okkur að við vesturlandabúar værum svolitlar snobbhænur. Ég og Lóa þverneituðum samt fyrir það þá, sögð- umst vera úr sveit á Íslandi og við værum svo langt frá því að vera eitthvað snobbaðar. Við skildum þó hvað hann átti við þegar við gengum þarna inn á moldargólfið og völdum okkur rúm sem var með örþunnum dýnum og með skítugum og blettóttum lökum, koddum og teppum. Þarna var þó sturta og venjulegt klósett sem við vorum afskaplega þakklátar fyrir, en holurnar eru líka mjög algengar í Víetnam. Við skildum dótið okkar eftir og hlupum út að á til að kæla okkur niður. Það var gott að synda um í kaldri ánni og fylgjast með innfæddum vaða í ánni og veiða fiska með höndunum einum! Þegar tók að dimma fórum við heim þar sem beið okkar dýrindis veisla. Hví reyndist vera hinn besti kokkur og töfraði fram alls kyns mismunandi rétti; tófú, fisk, svínakjöt, eggjasúpu, bestu vorrúllur heims (gerðar úr hrísgrjónapappír), einhvern kjúklingarétt og einhvers konar soðinn bambus og auðvitað voru hrísgrjón. Við borðuðum með fjölskyldunni, gædunum, burðarmönnunum og áströlsku pari, sem var þar í brúðkaupsferðinni sinni. Áður en ég held áfram verð ég að segja ykkur að bændur í Víetnam eru rosalega duglegir að brugga hrísgrjónavín en það er um 30-40 % alkóhól. Við hverja einustu kvöldmáltíð fær hver og einn lítið staup við hliðina á skálinni sinni en það er talinn dónaskapur að drekka vatn með matnum. Þetta fyrsta kvöld var engin undantekning, fyrst þurfti auðvitað að skála fyrir matnum, næst var það að bjóða okkur öllum velkomin, við þurftum auðvitað að þakka fyrir það og svona gekk þetta allt kvöldið. Við sungum öll lag á okkar tungumáli sem var mjög skemmtilegt, hlógum mikið og frúin á bænum sá til þess að staupin væri ávallt full, ekki síst hennar eigið. Hún var mjög fyndin lítil kona og svolítið mikið fyrir það að skála og kenna okkur að segja alls kyns hluti á víetnamsku. Hví sagði fyrr um kvöldið að dagurinn yrði auðveldur á morgun svo við höfðum engar áhyggjur, skemmtum okkur bara konunglega og fórum svo í rúmið um 11 leitið en þá voru allir orðnir heldur betur hressir, enda byrjaði kvöldmaturinn um kl. 6. Kristrún Kristjánsdóttir skrifar ~ „Það er líka svo fyndið að sjá hvað allir, menn jafnt sem dýr, eru ólétt eða hafa afkvæmi hlaupandi útum allt; litlir hvolpar, kettlingar, andarungar, gríslingar, krakkar og svo lengi mætti telja.“ Með töfralækninum Ketur Lyier. ~ „Við hverja einustu kvöldmáltíð fær hver og einn lítið staup við hliðina á skálinni sinni en það er talinn dónaskapur að drekka vatn með matnum. Þetta fyrsta kvöld var engin undantekning, fyrst þurfti auðvitað að skála fyrir matnum, næst var það að bjóða okkur öll velkomin, við þurftum auðvitað að þakka fyrir það og svona gekk þetta allt kvöldið.“ Sapa.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.