Feykir


Feykir - 05.07.2012, Blaðsíða 9

Feykir - 05.07.2012, Blaðsíða 9
26/2012 Feykir 9 Skagfirsk sæla Hús frítímans efndi til ljóða-, smásögu- og ljósmyndakeppni fyrir Sæluviku þar sem þema keppninnar var að leyfa sköpunargleði Skagfirðinga að njóta sín í máli og myndum. Dæmt var eftir því hvernig höfundar náðu að fanga skagfirska sælu í verkum sínum. Feykir birtir verðlaunaverkin og nú er komið að smásögunni „Skagfirsk sæla“ eftir Magnús H. Sigurjónsson en fyrir hana fékk hann önnur verðlaun. Hús frítímans ber nafn starfsemi þeirrar sem þar fer fram. Þetta hús byggði á sínum tíma Konráð Þorsteinsson kaupmaður með meiru. Hann fékkst við sitt af hverju var um tíma í Hvítasunnusöfnuðinum sem var öflugur hér í bæ á þeim árum. Við Konráð vorum keppinautar þegar ég seldi raftæki fyrir kaupfélagið og Konráð veitti harða samkeppni í þeim efnum. Einhvern tíman eignaðist hann bíl með númerinu K-77, sem ég hafði átt, en seldi fyrir klaufaskap með númerinu. Þegar Konráð seldi þennan bíl lét hann mig vita í tíma svo ég gæti eignast aftur númerið. Við vorum ekki óvinir þótt við værum keppinautar. Konráð var í bæjarstjórn, krati eins og Elli Hansen. Það var áður en ég fór að skipta mér af bæjarmálum. Þeirra tími var líka skemmtilegur. Það voru margir þeirra sem nú eru eldri borgarar mótfallnir því að gera þetta hús að heimili eldri borgara. Það væri illa byggt og slæmur andi í húsinu. Annað hefur komið á daginn og ekki skemmir að andi Konráðs svífi hér yfir og gaman væri að taka við hann slag, þótt síðar verði. Spiladagur Það á að byrja klukkan eitt. Uppúr hálf eitt fer fólk að koma í húsið. Helga Sigurbjörnsdóttir stjórnar innandyra, það er sama hvar hún er, hún stjórnar alltaf, enda þarf einhver að gera það. Raða stólum og borðum. Taka fram spil og búnað sem spilunum fylgir. Leggja á borð fyrir kaffidrykkju kl. 3.00 og sitthvað fleira. Fólk er að tínast inn allt fram til klukkan eitt. Allir bera aldurinn vel. Reyndar nokkuð mis vel. Skrefin smá styttast, sumir bogna aðeins í baki, þó ekki allir. Þarna komu gömlu vinnufélagarnir mínir Helena Magnúsdóttir, Marta Sigtryggsdóttir, Silló og fleiri. Þegar ég byrjaði að vinna á skrifstofu kaupfélagsins 1951 var frænka mín hún Lena þar fyrir, hún er sú eina sem eftir er af þeim sem þar unnu þá. Síðar í gömlu Gránu unnum við Marta saman hjá Jóni Björnssyni, sem var deildarstjóri. Þar vann einnig Magnús Jónsson, sem síðan flutti til Ástralíu með stóra fjölskyldu og var því miður horfin Íslandi. Í Gránu seldum við allt milli himins og jarðar, nema vefnaðarvörur. Melís sem olíulampa, strásykur og lampaglös, járnkarla og hakasköft. Á þessum árum var mikil verðbólga og þótti bara eðlilegt. Engum datt í hug að selja bankana og að ríkið seldi kartöflur og annað grænmeti þótti bara eðlilegur hlutur. Eitt sinn henti það að bóndi einn gerði athugasemd við að allt annað verð og lægra var letrað á hakaskaft sem hann keypti, heldur en það sem hann var látinn greiða. Deildarstjórinn kunni svar við því, “Þetta er verksmiðjunúmer á hakaskaftinu” Arnór Sigurðsson var um þetta leiti starfsmaður við Skipaafgreiðslu, en strandflutningar voru þá aðal flutningaleiðin til og frá höfuðborgarsvæðinu. Í sælu- viku henti það að Arnór var ekki kominn til vinnu á réttum tíma. Skip beið í höfninni eftir afgreiðslu. Sveinn Guðmunds- son sem þá var kaupfélagsstjóri var orðinn æði brúnaþungur þegar Arnór loksins birtist kófdrukkinn eftir sælunótt. Sveinn var ekki myrkur í máli þegar hann spurði Arnór hvernig hann ætlaði að af- greiða skipið undir þessum kringumstæðum. Arnór var fljótur til svars: „Við bara hvolf- um úr skipinu.“ En nú erum við í Húsi frítímans að raða borðum og undirbúa dagsverkið þar. Menn og konur, ég hef aldrei sætt mig við þá skilgreiningu að konur séu ekki líka menn, en hvað um það, fólk vill hafa þetta skýrt. Fólkið sem kemur inn skiptist sjálfkrafa í tvo hópa. Annar hópurinn spilar félagsvist eða bingó, sá hópur lítur upp til hins hópsins sem spilar brids og líkar þeim hópi vel að láta líta upp til sín. Helga stjórnar vistarhópnum og heyrist vel í henni einkum þegar spilað er bingó. Þessi hópur segir bridsarana vera miklu alvarlegri og líkast því að þeir séu þjáðir af þunglyndi. En það er bara af því að þeir þurfa að hugsa svo mikið. Þar verða reyndar stundum leiðindi út af vitlausum sögnum, annaðhvort sagt of lítið eða of mikið. Vandratað. Í vistarhópnum er gleði meiri einkum í félagsvistinni. Þar er Drangeyjarjarlinn. Hann er búinn að afhenda öll völd í ríki sínu til afkomenda sinna en heldur ennþá jarlstigninni. Mér þótti gott svar hjá Ástu dóttur hans þegar hún var spurð hvort hún ætti ekkert erfitt með að síga í fuglabjörgin í Drangey. Hún á að hafa sagt að ef eitthvað væri þá væri hún betur sett frá náttúrunnar hendi en strákarnir, þau væru þá ekkert að flækjast fyrir sér þessi tæki sem þeir væru að burðast með í klofinu. En þetta kemur nú málinu ekkert við lengur og gott ef einhverjir í þessu húsi muna eftir því til hvers þau tæki eru notuð. Helga hringir bjöllu klukk- an þrjú. Þá hefur verið borið fram kaffi og meððí. Bakaríið leggur til meðlætið, Helga safnar fimmhundruðköllum og segir jafnoft “takk”eins og þeir eru margir. Fólk mokar í sig brauðinu og skolar niður með kaffinu, gefur sér rétt tíma til að kyngja og svo er aftur sest að spilunum, eins og engan tíma megi missa. Klukkan fjögur er pakkað saman og hver stormar heim til sín. Félagar í félagi eldri borgara í Skagafirði eru nær 300 Starfsemin er margvísleg auk þess sem starfað er í Húsi frítímans Þar má nefna kór eldri borgara sem er skipaður mörgum góðum röddum. Kórinn æfir í Ljósheimum þar sem sagður er góður hljómburður. Farið hefur verið í söngferðir við góðar undirtektir áheyrenda. Þá hittist fólk í leshóp og handavinnu, og fleira mætti nefna. Sæluvikan er sterk í minni eldri borgara. Bifröst með Græna salnum var barn síns tíma, en þegar rætt er við eldri borgara um þá daga sem þetta hús var aðalsamkomustaður héraðsins, þá kemur glampi í augun og feginsstuna líður frá brjósti. En tímarnir breytast, nú er ekki aðeins sæluvika heldur sífelld sæla og sjálfsagt fyrir þá sem geta að njóta þess. Takmarkið er „eilíf sæla“. Guðrún Sigurjónsdóttir frá Syðri-Grund verður níræð þann 16. júlí næstkomandi. Í tilefni afmælisins býður hún vinum og vandamönnum til veislu sunnudaginn 15. júlí að Ósbæ, Þverbraut 1 á Blönduósi á milli klukkan 15 og 18. Hún vonast til að sjá sem flesta en gjafir eru vinsamlegast afþakkaðar. Þeir sem vilja gleðja afmælisbarnið geta gefið í söfnunarbauk til styrktar hjartveikum börnum sem verður á staðnum. Frá starfsemi eldri borgara í Húsi frítímans.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.