Feykir


Feykir - 05.07.2012, Blaðsíða 10

Feykir - 05.07.2012, Blaðsíða 10
10 Feykir 26/2012 Forsetaslagurinn á enda Þá er forsetakosninga- slagurinn á enda og Ólafur Ragnar Grímsson mun sitja sitt fimmta kjörtímabil í embættinu. Slagurinn var sögulegur að mörgu leyti sem ekki verður tíundað hér að öðru en því að Skagfirðingur lagði það á sig og fjölskyldu sína að koma frá Noregi og bjóða fram krafta sína í viðleitni landans við að skapa nýtt Ísland. En eitthvað verður það að bíða þar sem Ísland er ekki enn tilbúið fyrir þennan unga eldhuga. „Þessu er lokið já. Það hefur verið mikið að gera og við höfum svo sannarlega farið út fyrir þægindaramman. Að sama skapi höfum við vaxið sem einstaklingar og vonandi sem meðborgarar. Vissulega hefur það verið ögrandi á tímum – að vera óþekktur í baráttunni. Það hefur einkum birst í því að við höfum þurft að sannfæra þjóðina um okkar eigið ágæti. Því ekki er laust við að ég hafi fengið ákveðna ímynd á mig þegar ég steig fram og tilkynnti um framboð. Í seinni tíð hef ég heyrt utan af mér að margir hafi talið mig athyglissjúkan, haldið að ég væri eitthvað, drepast úr monti, nú eða þá að fólk hafi talið mig hálfgerðan bjána“, segir Hannes. „Öllum þessum „tilbúnu“ ímyndum af mér og okkur hjónum höfum við mætt með jafnaðargeði. Við höfum haldið okkar jarðtengingu alla leið og leitast við að vera sönn og einlæg í allri okkar umræðu og viðskiptum við fólk og fréttamiðla. Við höfum leitast við að koma fram eins og við erum, með öllum okkar kostum og göllum. Í svo sérstakt embætti eins og forsetaembættið er, þá hefur okkur fundist almenningur í landinu eigi einmitt rétt á því að kynnast frambjóðendum á þann hátt“. Draumur sem lifir ennþá Hannes segir að smátt og smátt hafi svo fleiri og fleiri opnað augun fyrir því hvaða fólk þau hjónin hafi að geyma. Enda fundu þau fyrir mikilli jákvæðni í þeirra garð eftir því sem leið á baráttuna. „Það er með ólíkindum hversu margir hafa haft orð á því að við værum eiginlega besti valkosturinn. Engu að síður hafi viðkomandi ákveðið að kjósa annan frambjóðenda vegna ógnunar sem stafaði frá hugsanlegri inngöngu í Evrópusambandið. Eftir á að hyggja, það að koma óþekktur fram á sjónarsviðið, þá held ég að það hefði breytt litlu þó svo við hefðum eytt miklum fjármunum í það að auglýsa framboðið. Hitt hefði verið mun áhrifaríkara að koma frá stöðu í þjóðfélaginu þar sem andlit eða rödd var þekkt fyrir kosningar. Nú má segja að þú sért þekkt andlit á Íslandi eftir þessa kosningabaráttu, er möguleiki á því að þú farir í aðra kosningabaráttu til forseta þegar Ólafur hættir? „Vissulega erum við nú orðin kunn almenningi og vonandi af einu góðu. Hvernig og hvort við munum nýta okkur það á þann hátt að líta til forsetaframboðs eftir fjögur ár höfum við ekki rætt. Hins vegar höfum við rætt það hvernig við gætum nú komið að uppbyggingu eða unnið að velferðarmálum á Íslandi svo gott hljótist af. Hvað við gætum gert og þá hvernig vitum við ekki ennþá. En vonandi getum við látið gott af okkur leiða, í þágu bæði lands og þjóðar. Það er sannarlega draumur sem lifir ennþá þrátt fyrir að hafa tapað forsetakosningunum“. /PF Fornleifarannsóknir BSk á járnvinnslustað í Fnjóskadal Á sér lengri sögu en áður var talið Hópur fornleifafræðinga á vegum Fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga hefur undanfarnar vikur unnið að fornleifarannsóknum á jörðinni Skógum í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðrar gangnagerðar undir Vaðlaheiði en á síðasta ári komu þar í ljós minjar umfangsmikillar járnvinnslu. „Frumniðurstöður þessa árs benda til að járnvinnslan eigi sér lengri sögu en áður var talið og að hana megi rekja að minnsta kosti aftur til 11. aldar,“ segir Guðmundur Stefán Sigurðarson fornleifafræðingur. Rannsókn þessara minja hófst síðasta haust en járnvinnsluna segir Guðmundur vera mitt í gangnastæði Vaðlaheiðagangna að austanverðu. „Slitrur úr gjósku úr þekktu Heklugosi frá árinu 1104 fundust í stórum gjallhaugi sem er á svæðinu og virðist hluti framleiðslunnar hafa átt sér stað fyrir þann tíma,“útskýrir Guðmundur og segir að allri vinnslu virðist hins vegar hafa verið hætt nokkru fyrir 1300, þegar önnur þekkt gjóska úr Heklu féll. „Ljóst er að framleiðsla járns á staðnum hleypur á tonnum, en unnið er að mælingum á umfangi og innihaldi gjallhaugsins, sem og uppgreftri og uppmælingum annarra minja á svæðinu,“ segir hann. Guðmundur tekur fram að ekki sé gert ráð fyrir töfum við gangnagerð af þessum sökum, en starfsmenn fornleifadeildar safnsins verða við rannsóknir á Skógum út mánuðinn. /BÞ Fornleifafræðingar mæla umfang og innihald gjallhaugsins en hér má sjá könnunarskurð sem grafinn var þvert í gengum hauginn. Mynd: BSk. Fornleifafræðingar að störfum í Fnjóskadal. Gjallhaugurinn sést fyrir miðju myndar. Mynd: BSk.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.