Feykir


Feykir - 26.07.2012, Blaðsíða 9

Feykir - 26.07.2012, Blaðsíða 9
29/2012 Feykir 9 Ferðasaga Kristrúnar Kristjánsdóttur frá Melstað í Miðfirði Með penna í farteskinu IX Kristrún Kristjánsdóttir fór í heimsreisu ásamt vinkonu sinni Lóu Dís Másdóttur. Undanfarnar vikur hefur hún deilt upplifun sinni af ævintýrum þeirra á leiðinni austur á bóginn. Ferðalagið hófst þann 15. febrúar ennú eru þær komnar til Sapa, í Norðvestur Víetnam. - - - - 21. mars vöknuðum við guðs lifandi fegnar að hafa ekki þurft að drekka hrísgrjónavín kvöldið áður. Við vorum úthvíldar þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þessi dagur var mikið niður í móti og fyrir hádegi vorum við mjög duglegar að ganga þrátt fyrir að það væri mjög hált niður moldarslóðina í skóginum. Við stoppuðum við á til að borða og Sam skar rosalega snúin tré sem litu út eins og horn og setti í körfuna sína. Það var ótrúlega fallegt að ganga þarna um, sjá litlu krakkana drulluga upp fyrir haus að leika sér í litlum lækjum, renna sér eftir flötum steinum í ánni og þau yngstu voru annað hvort bara í bol eða peysu og ber að neðan. Svo hlupu þau svona um og gerðu þarfir sínar þar sem þeim sýndist. Það var samt svolítið leiðinlegt hvað þau voru hrædd við okkur greyin og það mátti eiginlega ekki taka myndir af þeim. Eitt skiptið reyndi ég að taka mynd af nokkrum krökkum, sneri mér við hratt og smellti af, en krakkinn brást hinn versti við, byrjaði að öskra og hlaupa í burtu frá okkur. Okkur Lóu brá svo svakalega að við snerum okkur við og hlupum hræddar í hina áttina, hræddar um að fjölskyldufaðirinn kæmi alveg snarvitlaus á eftir okkur. Við gengum svo í gegnum skóg og vegurinn var eiginlega ekki vegur og varla troðningur og okkur fannst ótrúlegt hvernig þeir vissu hvert þeir áttu að fara. Á leiðinni sáum við slöngur og Hví var tvisvar bitinn af blóðsugum. Síðan komum við að á sem við stikluðum á steinum yfir og sem ég, mér til mikillar gremju datt ofaní með annan fótinn og ég varð svo reið að ég ákvað að vaða bara yfir þessa fjárans á. Hví og Sam vissu ekkert hvað þeir áttu við mig að gera svona pirraða íslenska snót svo þeir hlógu bara að mér. Þegar við komum að næsta náttstað urðum við heldur betur undrandi. Þetta var heldur stór sveitabær, þessi heimagisting var hjá þjóðflokki sem heitir Red Dao og það var alveg einstakt. Þau eru greinilega ekki vön að fá útlendinga þarna og nánast enginn talaði ensku. Konurnar voru klæddar í rautt með rauð höfuðklæði og í þessum þjóðflokki sjá mennirnir um börnin heima og brugga hrísgrjónavín á meðan konan gengur langar göngur með rosalega þungar byrðar á milli staða. Svo á kvöldin sátu konurnar allar saman og saumuðu út. Þær voru mjög vingjarnlegar og mennirnir líka en líka svolítið vör um sig og feimin. Þarna var bara holuklósett og bali til að baða sig í en við notuðum skóginn bara sem klósett en fórum nú samt í bala bað en það er eiginlega nauðsynlegt að þrífa sig eftir þessar göngur alveg sama þó hlutirnir lykta skringilega. Þegar við sáum svefnstaðinn brá okkur þó heldur í brún. Við fengum að liggja uppi á háalofti á bambusdýnu sem var jafnvel harðara undirlag heldur en fyrri nóttina, svo ég tali nú ekki um kóngulóavefina allt um kring. Við vorum þó þakklátar moskítónetinu. Þetta kvöld endaði eins og flest kvöldin, við borðuðum kvöldmat á litlum kollum við lágt borð, boðið var upp á marga rétti og m.a. reykt svínakjöt sem við sáum oft hangandi yfir eldstæðunum, það verður jú að nýta reykinn. Við urðum að drekka hrísgrjónavínið eins og góðum stúlkum sæmir og kvöldið varð að miklum gleðskap og vorum við komnar upp í rúm um 10 leytið. Kristrún Kristjánsdóttir skrifar ~ „Þarna var bara holuklósett og bali til að baða sig í en við notuðum skóginn bara sem klósett en fórum nú samt í bala bað...“ ( TÓN-LYSTIN ) oli@feykir.is Páll Sigurður Björnsson / bassaleikari m.m. Sextíu og sjötíu tíma- bilin í uppáhaldi Páll Sigurður Björnsson býr á Hvammstanga en ólst upp á Bessastöðum í Hrútafirði. Páll sem er af árgangi 1972 hefur lært á ýmis hljóðfæri en þau sem hann spilar nú á eru trompet - sem hann segist þó vera slakur á-, píanó - sem hann væri til í að vera betri á - og bassi. Helstu tónlistarafrek: Að spila á níu söngvarakeppnum sem haldnar hafa verið hér í Húnaþingi vestra síðan 2000 og að spila á hljómborð og píanó á Pink Floyd heiðurstónleikum sem haldnir voru hér árið 2005. Uppáhalds tónlistartímabil? Sextíu og sjötíu tímabilin en svo ákveðin tímabil hjá mörgum hljómsveitum. Ég er meira í svoleiðis pælingum varðandi tímabil. Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Mér finnst ný íslensk tónlist mjög góð í dag. Til dæmis lög með Múgsefjun, Tilburi, Ásgeiri Trausta, Kiriyama Family og fleiri. Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var nú alls konar tónlist. Mikið af kóratónlist, harmonikkutónlist, rokk og popp og MJÖG margt fleira. Hver var fyrsta platan/diskurinn/ kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta platan: Dead Or Alive – You spin me round like a record. Diskurinn: Sálin hans Jóns míns – Garg. Kasettan: Einhver spóla með Mezzoforte. Niðurhalið: Robbie Williams – Let me entertain you. Hvaða græjur varstu þá með? JVC ekta gamaldags stóra stofugræju. Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ég raula oftast eitthvað sem ég er að reyna að búa til sjálfur en oftast gleymist það allt nokkrum mínútum síðar. Wham! eða Duran? Báðar hljómsveitir góðar á sinn hátt en Duran Duran frekar því Nigel John Taylor er svo assgoti magnaður bassaleikari.... eða var það allavega einu sinni. Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég færi einföldu leiðina til að gera flestum til hæfis og setti um árs gamlan Pott þétt disk í græjuna. Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Rólegan Jazz/Blues með Béla Fleck and the Flecktones. Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Cold Play í Royal Albert Hall og tæki Helgu með mér. Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur ekki dreymt um að vera neinn tónlistarmaður svo sem en þeir tónlistarmenn sem ég lít upp til eru Jóhann Ásmundsson bassaleikari og Wictor Wooten bassaleikari. Svo finnst mér Pálmi Sigurhjartarson alveg einstaklega skemmtilegur píanóleikari. Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Úff.... stórt er spurt. Þá svara ég stórt (eða langt kannski frekar): Það er engin best að mínu mati. Nýlegt dæmi um mjög góða plötu er diskurinn Múgsefjun (gefinn út 2012) með hljómsveitinni Múgsefjun.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.