Feykir


Feykir - 16.08.2012, Blaðsíða 4

Feykir - 16.08.2012, Blaðsíða 4
4 Feykir 30/2012 Smá í Feyki :: Síminn er 455 7171 smáAUGLÝSING Til sölu lóðin Furulundi 7, Varmahlíð í Skagafirði Gatnagerðargjöld eru greidd. Rafmagn, vatn og klóaklögn eru komin og tengd. Með lóðinni fylgir stórt hjólhýsi og lítið bjálkahús sem er snyrting og geymsla. Tilboð óskast. Eigendur hafa venjubundinn rétt til að taka eða hafna tilboðum sem berast. Upplýsingar fást í síma 453-8031 eða 845-5499 ( ÁSKORENDAPENNINN ) Brynjar Elefsen er brottfluttur Skagfirðingur Talar vel um Skagafjörð Í næsta mánuði eru liðin 12 ár frá því að undirritaður gerðist „brottfluttur skagfirðingur“. Fyrst var leiðinni heitið á suðurströnd Frakklands til Aix en Provence í nokkra mánuði áður en sest var að í höfuðborginni þar sem maður hefur dvalist síðan. Óhætt er að segja að þessi tími hafi liðið hratt en maður huggar sig við það að heilmikið hefur jú gerst í millitíðinni, þannig að sennilegast hefur þetta liðið hægar en maður heldur! Ég hef tamið mér að tala vel um Skagafjörð og halda heiðri hans á lofti við hvert einasta tækifæri sem gefst. Frúin er löngu búin að gefast upp á þessu en ég tel að málstaðurinn sé verðugur. Sem dæmi þá er alltaf gott veður í Skagafirði, þar kemur t.d. ekki þoka heldur hitamistur, þar er aldrei rok heldur hafgola og svo má lengi telja. Annað sem legg mikla áherslu á að halda til haga er þegar maður er spurður hvort maður sé „Sauðkræklingur“. Ég svara yfirleitt á þessa leið: „Nei, og ertu til í að fallbeygja orðið krókur fyrir mig og segja mér hvar kræklingur kemur þar við sögu“. Yfirleitt verður spyrillinn kjánalegur en mun héðan í frá tala réttilega um „Sauðkrækinga“. Þegar hugsað er til baka þá er í raun ótrúlegt hvað Skagafjörðurinn hefur verið nálægt manni hérna í c.a. 290 km. fjarlægð. Ég byrjaði að vinna í árslok 2000 á lagernum hjá Wurth. Af 10 strákum sem voru að vinna þar þá vorum við 9 úr Skagafirðinum og þessi eini, sem var það ekki, átti þá og á enn, konu frá Sauðárkrók. Það var því ekki að ósekju sem Wurth var þá kallað „Litla Skagfirðingabúðin“. Síðan fór ég að vinna hjá Fossberg , sem stofnað var af Skagfirðingi árið 1927 og er annar eiganda þess í dag ættaður frá Skagafirði. Síðastliðin 5 ár hef ég starfað hjá Heklu bílaumboði og þar er vart þverfóta fyrir Skagfirðingum enda hefur markaðshlutdeild Heklu á Norðvesturlandi verið mjög góð í gegnum tíðina. Ég hef stundum gantast með að það eru allir úr Skagafirðinum og þeir sem eru það ekki.... .þeir vilja vera það! - - - - - Ég skora á Ágúst Inga Ágústsson frænda minn í Óðinsvé að taka við pennanum og óska honum um leið til hamingju með þrítugsafmælið um daginn. Afhjúpun minnisvarða um Hrafna-Flóka Minnisvarði um Hrafna- Flóka landnámsmann var afhjúpaður í Fljótum sl. laugardag. Minnisvarðinn stuðlabergsdrangur er staðsettur skammt frá Siglufjarðarvegi í landi Ysta-Mós. Það var innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson sem afhjúpaði minnisvarðann en hönnuður hans var Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson. Áhugahópur um framfarir í Fljótum stóð fyrir fram- kvæmdinni. Það var Herdís Sæmundardóttir sem hafði orð fyrir þeim sem að framkvæmdinni stóðu. Hún ávarpaði allmarga gesti sem mættu á staðinn og lýsti því í upphafi hvernig unga fólkinu í stórfjölskyldunni á Ysta-Mói var sögð sagan af Hrafna-Flóka hér fyrrum. Flóki bjó á Ysta- Mói en þó ekki lengi því hann trassaði að afla vetrarforða og fénaður hans féll úr hor fyrsta veturinn. Kennileiti í Fljótum Flókadalur og Flókasteinar hafa þó orðið til þess að minning hans hefur lifað góðu lífi í sveitinni og vera kann að sú staðreynd að hann gaf landinu nafnið Ísland hafi haldið minningu hans meira á lofti en sumra annarra landnámsmanna. Frásögn af sögu Hrafna- Flóka hefur verið komið fyrir við minnisvarðann og er texti á íslensku og ensku. Eftir að Ögmundur Jónasson hafði afhjúpað minnisvarðann og Skagafjörður lýst ánægju með framkvæmd- ina og verk hönnuðarins var haldið í félagsheimilið Ketilás. Þar flutti innanríkisráðherra ræðu og fjallaði um Hrafna- Flóka í fortíð og nútíð. Einnig flutti Hjalti Pálsson ritstjóri erindi og fjallaði um mannlíf í Fljótum á fyrri tíð og sagði m.a. frá forfeðrum sínum sem ýmsar sögur hafa varðveist af. Guðrún Halldórsdóttir þakkaði fyrir að íbúum í Fljótum hefði í raun verið færður landnámsmaðurinn. Þá flutti Herdís þakkir þeim fjölmörgu aðilum sem höfðu komið að framkvæmdinni með einum eða öðrum hætti. En styrktaraðilar voru Alþingi Íslendinga, Menningarsjóður Norðurlands vestra, Menn- ingarsjóður- og styrktarsjóður Norvikur og Kaupfélag Skag- firðinga. /ÖÞ Texti um Hrafna-Flóka og sögu hans við minnisvarðann. Herdís Sæmundardóttir, Ögmundur Jónasson og Guðbrandur Ægir. Það er víðsýnt af Móshöfðanum þar sem minnismerkið er og talsvert af fólki var mætt af þessu tilefni. Myndir ÖÞ:

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.