Feykir


Feykir - 06.09.2012, Blaðsíða 9

Feykir - 06.09.2012, Blaðsíða 9
33/2012 Feykir 9 Heilir og sælir lesendur góðir. Það er Hreiðar Eyjólfsson Geirdal sem er höfundur að fyrstu vísunum að þessu sinni. Er hann trúlega að lýsa ýmsu sem hann hefur áttað sig á um langan æviveg. Til að greina böl frá bót brestur skilning taman. Allir vita; gull og grjót getur legið saman. Mönnum títt á móti blæs, margur hrekst á grunninn. Fremur sjaldan flýgur gæs feit og steikt í munninn. Þjóðin öll – í orðum fám- yfir sannleik breiðir. Ekki sjást í ættarskrám ýmsar krókaleiðir. Guðmundur Gunnarsson á Tindum yrkir kannski í svipuðum dúr. Skulda ótta að mér slær aldrei rótt má verða. Vökunóttum valda þær vinnuþróttinn skerða. Þó á mér hvíli eins og blý iðgjöld heimsku minnar. Dauðahaldi held ég í hálmstrá vonarinnar. Oddgeir Guðjónsson er höfundur að næstu vísu sem er ágæt hringhenda. Mun hún ort einhverju sinni er rætt var um skaða af tófum. Margt er þref í amstri og önn ýmsir hnefa miða. Ekki hefir tímans tönn tekist ref að siða. Þar sem ekki verður undan því komist að viðurkenna að blessað sumarið er liðið að þessu sinni og göngur og réttir á næsta leiti er þessi þáttur er í smíðum. Að því tilefni langar mig næst að rifja upp nokkrar vísur eftir okkar snjalla Rósberg G. Snædal. Eins og ég hef getið um áður orti hann óhemju mikið af hringhendum eins og reyndar kemur vel fram í þessum vísum. Eru þær ortar á gleðskaparstundum í Stafnsrétt og lýsa vel mannlífinu eins og það var þar áður fyrr. Haustið bíður allra oss úti er blíða og friður. Safnið líður líkt og foss lækjar hlíðar niður. Bliknar margt og bleik er grund blóma skart í valnum, á þó hjartað óskastund innst í Svartárdalnum. Fótanettan fák má sjá flýgur um þetta staka. Sléttum réttareyrum á ýmsir spretti taka. Vísnaþáttur 577 Hér er líf og líka fjör lagleg víf og jeppar. Heyrast gífuryrði ör óðir rífast seppar. Léttist þungur þanki minn því skal sungið vinurinn. Verð ég ungur annað sinn er ég Tungubræður finn. Svona bras er siður forn sumir hrasa og slaga, taka í nasir tóbakskorn tappa úr glasi draga. Þar er sparkað kjaftað kýtt karlar þjarka um hross og skjátur. Þar er slarkað þjórað spítt þá er Marka-Leifi kátur. Senn að völdum svefninn fer sveit í tjöldin skríður. Svona er öldin önnur hér er á kvöldið líður. Kunnar voru hér áður fyrr gleðskaparferðir þeirra félaga Rósbergs, Bjarna frá Gröf, Hjartar Gíslasonar og fleiri hér vestur í Svartárdalinn á Stafnsréttardögum. Í einni slíkri ferð var smíðameistarinn Ari frá Baugaseli með þeim félögum. Á leiðinni hér vestur frá Akureyri þegar orðinn var góður gleðskapur hjá þeim félögum orti Rósberg. Vestur haugast verstu bullur vínsins laug er sopið á. Nú er auga útúr fullur Ari Baugaseli frá. Þegar komið var á áfangastað færðist gleðin heldur betur í aukana og gat þá stundum verið misjafnt hvað menn héldu lengi út. Aftur tekur Rósberg til við að lýsa ástandinu. Vilja safnast vestur að Stafni visku hrafnar ýmiskonar. Er að kafna undir nafni Ari jafni Þorgilssonar. Á síðari réttardegi tóku gestir að tygja sig til brottfarar og var þá oft lítið orðið eftir af nestinu eins og Bjarni frá Gröf lýsir svo vel í þessari kunnu vísu. Þó ég bjarta þrái veig þreyttur og hjarta kalinn. Nú er hart um nýjan fleyg niður Svartárdalinn. Gott að enda þessa ágætu syrpu með góðri vísu eftir Jón Tryggvason í Ártúnum sem ort er í ferð með góðum félögum um Eyvindarstaðaheiði 29. ágúst 1981. Þó að húmi og hausti senn hitna fornar glóðir. Þegar gamlir gangnamenn ganga um þessar slóðir. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) Breytingar á almenningssamgöngum í Norðvesturkjördæmi Fyrsta strætó- ferðin norður Jómfrúarferð Strætó milli Reykjavíkur og Akureyrar var farin sl. sunnudag en nýtt fyrirkomulag um fólksflutninga tók gildi þann 1. september þar sem sérleyfisakstur eins og verið hefur til fjölda ára, heyrir sögunni til. Breytingarnar hafa m.a. í för með sér styttri stopp og styttri aksturstíma, auk nýrra leiða á völdum köflum. Þar má helst til nefna að áætlun- arakstur verður til Stykkishólms, Búðardals, Hólmavíkur og Reyk- hóla en einnig verður boðið upp á ferðir til Grundarfjarðar, Ólafsvíkur, Hellissands, Rifs, Reykholts, Hvammstanga og Skagastrandar en þær ferðir verður að panta sérstaklega a.m.k. tveimur tímum fyrir brottför. Þá verður sú meginbreyting gerð á akstursleið frá fyrri tíð að ekið er yfir Þverárfjall og þar með er Sauðárkrókur orðinn einn af viðkomustöðum fólks- flutningavagna milli Akureyrar og Reykjavíkur. Meðal farþega Strætó í þessari ferð voru Páll Brynjarsson sveitarstjóri í Borgarbyggð, Sveinn Kristinsson formaður stjórnar SSV og Gísli Friðjónsson forstjóri Hópbíla sem sjá um aksturinn, en Bjarni Jónsson formaður SSNV tók á móti þeim í Staðarskála þar sem samningar um aksturinn voru undirritaðir. Að sögn Páls Brynjarssonar gekk ferðin ljómandi vel og er hann sannfærður um að þetta fyrirkomulag eigi eftir að breyta heilmiklu fyrir svæðið. -Við sjáum það að í fyrsta lagi er þetta stóraukin þjónusta við íbúa á svæðinu og í öðru lagi er mun hagstæðara að nota almenningssamgöngur en áður var. Fargjaldið er lægra heldur en var áður og síðan gerist það að núna liggja leiðir þeirra gegnum tvo af stærstu þéttbýlisstöðunum í Norðvestur kjördæmi, þ.e. Akranes og Sauðárkrók. Ég held að þetta eigi eftir að breyta miklu, segir Páll. Bjarni Jónsson tók í sama streng en hann settist upp í bílinn í Staðarskála og tók sér far á Krókinn. –Ferðin var ljómandi fín og gekk ljúflega fyrir sig. Þessar breytingar á almenningssamgöngur opna margvíslega möguleika t.d. út frá Sauðárkróki sem er orðinn einn af viðkomustöðunum. Bjarni segir að möguleikar séu á því að tengja áfram út frá Sauðárkróki t.d. með því að fjölga ferðum á Skagaströnd og Blönduós og þá sérstaklega morgunferðir til að geta þjónustað skólafólk en einnig fólk sem þarf að sækja vinnu á milli staðanna því töluverð ferð er á fólki milli þessara staða. –Þetta getur orðið ennþá öflugra sem eitt atvinnu og skólasvæði og svo þurfum við að hugsa til þess hvernig við getum tengt Hóla og Hofsós betur inn í þetta jafnvel Fljót og þess vegna áfram á Siglufjörð, segir Bjarni en hann vill samt fara varlega í sakirnar þar sem unnið er út frá þeim fjármunum sem nú voru settar í verkefnið. Í framtíðinni segir Bjarni hugsanlega vera hægt að tengja samgöngur enn frekar og er þá að hugsa m.a. til skólaaksturs og nýta þær ferðir betur fyrir almenning. Segir hann að fyrst umsjón með þessum ferðum sé komin í hendur heimamanna sé auðveldara að vinna að þeim málum. /PF Bjarni Jónsson formaður SSNV tekur á móti Páli Brynjarssyni sveitarstjóra Borgarbyggðar í Staðar- skála í jómfrúarferð Strætó norður í land sl. sunnudag. Bjarni Jónsson, Sveinn Kristinsson, Gísli Friðjónsson og Páll Brynjarsson við undirskriftir fyrir utan Staðarskála.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.