Feykir


Feykir - 13.09.2012, Blaðsíða 9

Feykir - 13.09.2012, Blaðsíða 9
34/2012 Feykir 9 Spjallað við Merete á Hrauni um lífið og æðarbúskapinn Saumar gæða- sængur á Skaganum Merete Rabølle býr á Hrauni á Skaga ásamt eiginmanni sínum Steini Rögnvaldssyni og börnum þeirra þremur. Merete hefur alltaf nóg fyrir stafni á Hrauni en þar fer m.a. fram sauðfjár- og æðarbúskapur. Undanfarið hefur Merete kannað möguleikann á því að nýta þann hágæða æðardún sem unninn er á Hrauni til sængurgerðar. Merete var bústörfum ekki ókunn þegar hún settist að á Hrauni en hún er alin upp á sveitabæ á Fjóni í Danmörku. Þó segir hún margt nýtt verið fyrir henni á Hrauni þar sem foreldrar hennar voru með svínabú og því opnaðist nýr heimur fyrir henni í kringum rollurnar og æðarkollurnar. Merete segist líka afar vel við sig á Hrauni en þar er mikið fuglalíf á vorin. „Það er mjög gaman að fylgjast með hvernig allt iðar af lífi og hvernig bætist við fuglalífið á degi hverjum, sérstaklega af mófuglum,“ segir hún en þar segir miklu hafa skipt þegar þau girtu varpsvæðið af svo tófan kæmist ekki í varpið. En hvernig lágu leiðir þínar til Íslands? „Ætli það hafi ekki verið löngun til að ferðast og smá ævintýraþrá,“ segir Merete en á þeim tímapunkti var hún í búfræðinámi í Danmörku. „Ég réði mig í vinnu á Hvalnesi á Skaga og ég hef því hvergi annarsstaðar verið á Íslandi en á Skaganum,“ segir hún kímin á svip en á meðan á dvöl hennar stóð kynntist hún mannsefni sínu árið 1990 og fluttist á Hraun haustið 1991. Ísland ráðandi í sölu á æðardúni Hugmyndina af sængurgerð segir Merete hafa kviknað þegar hún var að velta fyrir sér hvernig hún gæti skapað sér vinnu og að sama skapi aukið verðmætasköpun fyrir jörðina. Hingað til segir hún ákveðna hefð fyrir því að selja æðardún í heildsölu. „Þar sem ég hef ekki enn lagt mikið í þróunarvinnu þá er þægilegast að byrja á að markaðssetja sængur. Fólk veit hvað það er og auðvitað er það líka það sem flestir eru að gera. Svo með tímanum er nauðsynlegt að gera eitthvað fleira en sængur,“ útskýrir hún. Merete segist ekki hafa verið að markaðssetja sig mikið fram til þessa, þess þá heldur innanlands. „Ég hef meira verið að leita utan landssteinana en auðvitað er maður alltaf ánægður ef fólk biður um sæng,“ segir hún. Merete segir framleiðsluna vera í þróun, ekki bara hjá sér heldur hjá öllum æðar- bændum yfir höfuð. Hlunn- indaráðuneytið segir hún hafa lagt mikið á vogarskálarnar með því að koma upp eftirliti með tilbúinni vöru. Þá eru dúnmatsmenn viðstaddir þegar verið er að setja dúninn í sængurnar og vakta gæði og magn dúnsins. Loks er sængin frágengin með stimpli og innsigluð með blýi. „Aukna eftirlitið er svar við því að mikið var verið að blanda erlendum dún við íslenska æðardúninn. Ísland er að framleiða þrjú tonn af æðadún á ári en á einhvern dularfullan hátt var verið selja marfalt meira magn en það erlendis,“ útskýrir Merete en Ísland segir hún framleiða 80% af þeim æðardúni sem seldur er í heiminum. Noreg og Kanada segir hún einnig vera að gera nokkuð góða hluti í þessum geira. „Hér á Íslandi ríkir mikil hefð og við búum vel af því,“ segir Merete. „Þess má geta að Æðarræktarfélag Íslands gaf nýverið út fallegan bækling og verið er að þýða hann á fleiri tungumál,“ bætir hún við. Kollan gefur af sér dún í áratugi Tínsla á æðardúni hefur tíðkast í áratugi á Hrauni og því voru aðstæður kjörnar fyrir Merete til að kanna þennan nýja starfsvettvang. „Valdi, tengdafaðir minn, er með hús hér á Hrauni þar sem hægt er að hreinsa æðardúninn. Svo smíðaði Jóhann, mágur minn, góðan þurrkara en lykillinn að verkun fyrsta flokks æðardúns er að hann sé vel þurrkaður – það skiptir höfuðmáli,“ útskýrir hún. „Ég kaupi sængurver, set í það æðardún og loka þeim sjálf,“ segir Merete. Í fyrra setti hún sig í samband við verslun í Danmörku og sendi þeim prufusængur. „Þau báðu um tvær sængur til viðbótar og ég geri mér vonir um að það geti þróast frekar,“ segir hún. Merete segir sængurfram- leiðsluna í raun enn vera á frumstigi en hún segir hug- myndina heilla. „Mér finnst það mjög ánægjuleg hugsun að ekki sé gengið á náttúruna. Dúnninn er afurð sem fellur til og ef við hirðum hann ekki, eftir að hann hefur gegnt hlutverki sínu, þá eyðileggst hann eða blæs í burtu,“ segir hún og bætir við: „Svo þegar sængin þín er orðin gömul og vel notuð, þá er æðarkollan enn að gefa af sér dún - kannski 20 árum seinna.“ Þá útskýrir hún að mikil vinna sé á bakvið æðarbúskapinn og vel er hugsað um dýrin. „Það er einnig umhugsunarvert að fólk er reiðubúið að greiða mikið fyrir hesta sem notaðir eru nokkrum sinnum á ári, eða sjónvörp og allskonar græjur, en fólki finnst mikið að borga kannski sama verð fyrir sæng sem það kemur til með að nota í átta klukkustundir á sólarhring, til fjölda ára,“ segir Merete og bætir við þegar fólk festir kaup á góðri æðardúnsæng fær það mikið fyrir peninga sína. /BÞ

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.