Feykir


Feykir - 20.09.2012, Blaðsíða 13

Feykir - 20.09.2012, Blaðsíða 13
35/2012 Feykir 13 Heilir og sælir lesendur góðir. Það er Einar M. Jónsson sem er höfundur að fyrstu vísunni að þessu sinni. Nú hin mæta sumarsól seig við rætur fjalla. Togna nætur tímans hjól tjaldið lætur falla. Kunnar voru hér áður fyrr margar snjallar tækifærisvísur eftir Jakob Thorarenssen. Þessi mun ort að morgni dags eftir fjörugt nætur- mannamót. Einn í blundi úti á grund að sér hrundu vefur. Gull í mund á marga lund morgunstundin gefur. Til ástfanginnar konu yrkir Jakob. Þetta líður, þráin er þungi kvíða og vona. En ástin bíður eftir þér unga, fríða kona. Þegar svo nálgaðist brúðkaup hjá frúnni orti Jakob. Aldrei dvín það upphafsgaman öldin vel því kann. Að kona og maður komi saman og kveiki nýjan mann. Svo þegar líður á ævina og frúin orðin öldruð og þreytt dettur Jakobi í hug að lýsa aðstæðum. Þú, sem fyrst varst flugrík hlín að fegurð, mýkt og yndi, ert nú blásnauð, barnaskrín blásin mótgangsvindi. Axel Oddsson sem mun hafa verið Reyk- víkingur mun vera höfundur að þessari, sléttubandavísu. Gránar áin kólgu kná kulna stráin fögur. Blánar fránum Ægi á öldu mána kögur. Þegar nú skammdegið er farið að lengja skugga sína svo um munar er okkur vonandi góð hressing að rifja næst upp þessar ágætu vísur Hjálmars Þorsteinssonar áður bónda á Hofi. Skúrir stækka, skinið dvín skuggar hækka í bænum. Sunna lækkar ljósin sín laufum fækkar grænum. Reifaður lágum rökkurfeld ræki háa dóminn. Sezt ég þá við arineld yrki um dáin blómin. Ljótar fréttir berast nú, er þessi þáttur er í smíðum, um hryllilega erfiðleika bænda í Skagafirði við að ná fé sínu niður af Öxnadalsheiði. Emil Petersen mun ekki hafa hlakkað til fundar við hana er hann orti svo. Fornar leiðir fjallasals um fanna breiðu kalda, upp á heiði Öxnadals enn ég neyðist halda. Þar sem verið er að nefna Öxnadalsheiði er freistandi að færa sig aðeins niður í Blönduhlíðina og rifja næst upp þessar snilldar vel gerðu hringhendur Magnúsar Gíslasonar bónda á Vöglum. Gróa á hjalla grösin smá Vísnaþáttur 578 grænka vallar börðin. Nú er falleg sjón að sjá sól um allan fjörðinn. Geislar flæða fjalls um skaut fegra hæð og buga. Hér í næði lyngs við laut leitar kvæði í huga. Margan seiðir mann að sér mörkin breið og hálsar. Uppi á heiðum eru mér allar leiðir frjálsar. Góð kveðja var þessi sending Magnúsar til að mynda til okkar Húnvetninga vestur yfir fjöllin. Kannski hefur Ásgrímur Kristinsson bóndi á Ásbrekku í Vatnsdal haft hana í huga er hann orti þessa fallegu hringhendu. Yfir haga holt og mó hljómuðu faguryrði. Ár og daga andinn dró ilm úr Skagafirði. Þegar nú þessi hausttími sem helgast af göngum og réttum og stússi við blessaðar kindurnar okkar sauðfjárbænda, koma ósjálfrátt upp í hugann góðar minningar frá samskiptum við góða vini sem nú eru ekki lengur á meðal okkar í dag. Einn af þeim er Borgar Símonarson bóndi í Goðdölum í Skagafirði. Okkar vinátta byggðist upp á því að tala saman um það leyti er nálgaðist göngur og réttir og gleðjast þá yfir þeim dögum í huganum sem þá voru á næsta leiti. Kölluðum við okkar á milli Stafnsréttardaginn draumadag, sem lengi var búið að hlakka til að kæmi. Einkenni Borgars var á slíkum hátíðum að vera alltaf með Whisky og þótti okkur vinum hans það ómissandi svaladrykkur á slíkum gleðistundum. Haustið 2011 var ég að vanda staddur í Stafnsrétt og beið og vonaði að þessi góði félagi kæmist þangað. Svo varð ekki vegna heilsubrests og duldi ég ekki persónulegan söknuð er þessi vísa varð til. Þegar á draumadaginn líður daprast hugur mér. Ekki lengur Borgar býður besta vínið hér. Ekki get ég rifjað upp þessi minningarbrot um þessa góðu vini sem nú eru fallnar frá, án þess að minnast einnig Ólafs Péturssonar í Álftagerði sem lést nú í sumar. Vorum við gangnabræður í mörg haust á Eyvindarstaðarheiði. Var okkar verkefni á fyrsta degi aðalgangnamanna að leita sk. Svörtutungur. Var gleðiefni mitt að leggja á stað frá Skiptabakka sem svo var kallaður við Svörtukvísl, þar sem áður var skipt göngum, með Óla sem félaga flugríðandi á glæsihestum, oftast rauðum og leirljósum stólpagripum. Langar mig að kveðja þennan góða vin með þessum fjórum línum. Þú hefur vinur glaðheim gist gengið lífsins klungur, þakka af alúð þína vist þessar Svörtutungur. Annar góður og persónulegur vinur okkar Borgars var Sigurður Guðmannsson bóndi á Fossum og gangnastjóri til fjölda ára. Er ég var að ganga frá gröf hans, 31. mars síðastliðinn urðu hugleiðingar mínar á þessa leið og gott að enda þáttinn með þessari kveðju til hans. Vættir kalla vininn sinn vonir falla núna. Þegar fjallaforinginn fer um gjallarbrúna. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) ( MATGÆÐINGAR VIKUNNAR ) berglindth@feykir.is Gígja og Jón kokka Rjúpur og vín sem vekur bragðlaukana Matgæðingar vikunnar að þessu sinni eru Helga Gígja Sigurðardóttir þjónustufulltrúi hjá Vís á Sauðárkróki og Jón Sveinsson Ríkisstjóri. Þau ætla að bjóða upp á girnilegar rjúpur í for- og aðalrétt og sætan eftirrétt. Jón segir hvaða vín hentar best með hverjum rétti. Þau skora á Helga Sigurðsson og Hrund Pétursdóttur til að taka við keflinu. „Ég mundi fá mér þurrt sérry í fordrykk, t.d. Gonzalez Byass Tio Pepe Fino en fleirum mundi henta að fá sér þurrt freyðivín, s.s. Veuve Clicquot Ponsardin Brut eða Bollinger Brut Special Cuvee. Passa verður hitastig á öllum vínum til að allir bragðeigin- leikar vínsins komi fram. Þurrt vín er gott sem fordrykkur því sýran vekur bragðlaukana og kemur meltingunni af stað. Sumum mundi blöskra verðið en hafa skal í huga að þetta er ekki hversdagsmatur sem kostar lítið.“ FORRÉTTUR Fyllt rjúpuhjörtu rjúpuhjörtu gráðostur eða piparostur portvín AÐFERÐ: Uppskrift fyrir fjóra. Hreinsið hjörtun að innan og fyllið þau með gráðosti/ piparosti hvort sem ykkur finnst betra og látið hjörtun standa í portvíni a.m.k. 6 klst. áður en þau eru steikt í ofni við 200°C í um 15 mín. Gott er að steikja hjörtun með portvíninu sem eftir er í fatinu og bera fram með góðu salati. Með hjörtunum hentar portvín, t.d. Graham's 10 ára Tawny og nota sama vín og hjörtun eru marineruð uppúr. AÐALRÉTTUR Fylltar rjúpur rjúpur beikon brauð sveskjur rjómi sjávarkrydd piparblanda AÐFERÐ: Uppskrift fyrir fjóra. Rjúpur hamflettar og hreinsaðar. Fyllið rjúpurnar með beikoni, brauði, sveskjum og rjóma og kryddið vel með sjávarkryddi. Rjúpurnar fylltar vel og krydd- aðar með piparblöndu. Steiktar í ofni á 200°C þar til þær eru orðnar stökkar að utan eftir um 50 mín. Borið fram með rjómasósu eða brúnni sósu. Með fylltu rjúpunum væri gott að hafa vín frá Rhone t.d. M. Chapoutier Chateauneuf-du- Pape La Bernardine eða E. Guiga Chateauneuf-du-Pape. EFTIRRÉTTUR Ávextir dýfðir í súkkulaði AÐFERÐ: Eftirrétturinn er einfaldur bræðið saman mars eða annað gott súkkulaði og smá rjóma. Borið fram með allskonar ávöxtum og dýfið í súkkulaðið um leið og þið borðið. Mörgum finnst gott að fá sér sætt á eftir veislumat sem þessum, t.d. súkkulaði eða ís. Þá væri ekki verra að gæða sér á góðu sætvíni með, best finnst mér gott sauternes vín eins og t.d. Chateau Guiraud. Verði ykkur að góðu! Nokkrir glaðbeittir Krókshlauparar haustið 2009.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.