Feykir


Feykir - 18.10.2012, Qupperneq 4

Feykir - 18.10.2012, Qupperneq 4
4 Feykir 39/2012 Spjallað við Maríu Magnúsdóttur um uppvöxtinn, stríðsárin og ævistarfið María Magnúsdóttir fluttist aftur á heimaslóðir eftir 55 ára búsetu í Bretlandseyjum þar sem hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur. Nú býr hún á Blönduósi þar sem hún segist eiga hlýjar æskuminningar af sólríkum dögum og varð það til þess að hún kaus að eyða haustdögum lífs síns við bakka Blöndu, þar sem hún býr í notalegri íbúð fyrir eldri borgara. Yfir tebolla fékk blaðamaður Feykis að heyra sögur um það hvernig það var fyrir unga stúlku að flytja til Bretlands á barmi heimstyrjaldar og hvernig hún helgaði líf sitt hjúkrun annarra. Helgaði líf sitt hjúkrun María (lengst til hægri) á fyrsta stofugangi sínum sem deildarstjóri á National Hospital for Nervous Diseases árið 1948. „Í minningunni var alltaf sólskin á Blönduósi,“ segir María og minnist góðra stunda þegar hún var 10 ára gömul og eyddi sumrinu hjá Rannveigu Líndal í Kvennaskólanum á Blönduósi. „Hún og mamma voru vinkonur úr Kvennaskólanum í Reykjavík og Rannveig vildi endilega fá mig til sín yfir sumarið,“ segir María en þá hjálpaði hún til í ýmsum verkum og í matjurtagörðunum. „Hún talaði alltaf við mig eins og ég væri fullorðin manneskja og spurði mig jafnvel ráða - það þótti mér merkilegt,“ segir hún og hlær. María rifjar einnig upp góðar minningar frá þeim stundum sem hún dvaldi hjá frænda sínum, Kristni Magnússyni á Kleifum, sem reyndist henni afar vel. „Þegar ég kom á Kleifar í fyrsta sinn þá gaf hann mér nýja danska skó og silkisokka – ég var í skýjunum, þú getur ímyndað þér,“ segir María með bros á vör. María er fædd í Geldingaholti í Skagafirði þann 10. október 1916 og fagnaði því 96 ára afmæli í síðustu viku. Faðir hennar hét Magnús Magnússon lögfræðingur og var ritstjóri blaðsins Storms, sem hann var einnig stofnandi að. Móðir hennar hét Halldóra Sigríður Jónsdóttir og stjúpfaðir Magnús Jónsson. María átti fimm hálfsystkini, þrjú frá föður sínum og tvö frá móður. María var fyrstu æviár sín á Þorkelshóli í Víðidal, þar sem móðir hennar og stjúpi voru í húsmennsku, og árið 1929 flutti hún svo til Hafnafjarðar þar sem hún bjó í 10 ár. María fór í Flensborg og eftir að hún lauk námi fór hún að vinna hjá Sigríði Snæland nuddkonu sem var með stofu á Brekkugötu í Hafnafirði. „Mig langaði alltaf að læra nudd og var að skoða möguleikana á því, en á þeim tíma var kreppa og mikil gjaldeyrishöft, því fengust engir peningar,“ segir María. Frændi hennar Jón Thordarson forstjóri Sjóklæðagerðarinnar bauð henni lán en þeir peningar voru fastir í Leipzig í Þýskalandi og þurfti hún því að sækja aurana þangað. Hún stefndi því á að fara þangað í nám og sótti þýskutíma hjá séra Jóni Auðuns í tvö ár. „Hann hafði verið í námi í Heidelberg og talaði alltaf svo fallega um land og þjóð,“ rifjar María upp. „En svo varð útlitið æ dekkra á meginlandinu og sífellt fleiri að tala um að það væri að koma stríð, því var ekkert vit í því að fara þangað,“ útskýrir hún. Eitt sinn þegar María var stödd í Skagafirði hitti hún vinkonu sína Steinunni Hafstað frá Vík, ásamt frænku hennar, sem var stödd hérlendis í skemmtiferð. Þessi frænka hennar var hjúkrunarfræðingur og hafði sest að í Vatnahverfinu í Englandi. „Þá sagði Steinunn mér að hún væri á leið til Skotlands til að starfa á geðsjúkrahúsi. Frænka hennar sagðist þekkja forstöðukonuna á sjúkrahúsinu og að hún gæti komið mér þangað líka. Ef mér líkaði vel gat ég verið áfram og farið í hjúkrunarnám – ég ákvað að slá til,“ segir María brosandi. Annaðist aðalsfólk María hélt af stað til Skotlands með Brúarfossi vorið 1939, þá 22 ára gömul og full af ævintýraþrá. Geðsjúkrahúsið sem María hóf störf hjá hét þá Glasgow Royal Mental Hospital og var stór einkaspítal, í afskaplega fallegu umhverfi, í Gartnavel. Þegar hún kom á spítalann var Steinunn vinkona hennar þegar búin að vera þar í sex mánuði en fljótlega ákvað hún að snúa sér að öðru. Hún fór til Danmerkur að leggja stund á hótelhald en bróðir hennar Árni Hafstað var þá í Danmörku að læra símaverkfræði. Þegar stríðið skall á segir María að þau hafi bæði orðið innlyksa í Kaupmannahöfn. „Árið 1940 komust þau loks heim til Íslands með Esjunni, en skipið flutti fjölda Íslendinga aftur heim í gegnum Petsamo í Finnlandi,“ segir María. Maríu líkaði starfið á geðsjúkrahúsinu vel. Að launum fékk hún frítt fæði og húsnæði auk þriggja punda á viku í vasapening. „Pundin voru mun hærri í þá daga og þegar ég kom til Skotlands átti ég fimm pund, þannig að ég var bara nokkuð vel sett,“ segir María og brosir. Hún segist hafa verið nokkuð góð í ensku, gat lesið málið vel og varð fljótlega vel talandi. Hún ákvað að vera áfram og hefja hjúkrunarnámið. Forstöðukonan á spítalanum hét Mrs. Brody og segir María hana hafa verið kvenskörung mikinn. „Ég man að hinar stúlkurnar sögðu að hún væri með augu í hnakkanum og það fór ekkert framhjá henni,“ segir María og hlær. „Hún sagði við okkur að við yrðum að muna það að fólkið sem við vorum að annast væri af aðalsættum, það væri efnað og vel menntað fólk. Ég man að mér fannst gáfulegt af henni að benda okkur á þetta, að við mættum alls ekki líta niður á sjúklingana,“ rifjar María upp, en Mrs. Brody átti eftir að reynast Maríu vel. Væri ekki hér ef sprengjan hefði sprungið Haustið eftir komu Maríu til Skotlands skall heimstyrjöldin síðari á. „Stríðið byrjaði í september og strax í október byrjuðu árásirnar,“ segir María. Sjúkrahúsið sem hún starfaði á var skammt frá Clyde ánni sem rennur í gegnum Glasgow en við hana voru miklar skipasmíðastöðvar og kafbátalægi og gerði það hennar nánasta umhverfi að hernaðarlegu skotmarki. „Á hverri nóttu heyrðum við í loftárásum, svo vandist

x

Feykir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.