Feykir


Feykir - 06.12.2012, Blaðsíða 8

Feykir - 06.12.2012, Blaðsíða 8
8 Feykir 46/2012 Skagfirsk matarmenning Eldað undir bláhimni AÐALRÉTTUR Lambalæri með íslenskum villijurtum 1 lambalæri, frá Kjötafurðastöð KS um 2 kg matarolía / salt og pipar íslenskar villijurtir, t.d. blóðberg, ljónslöpp og birkilauf Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Nuddið lærið vel upp úr góðri olíu og kryddið með salti og pipar. Saxið kryddjurtirnar smátt og dreifið þeim vel yfir lærið. Steikið í miðjum ofni í um eina og hálfa klukkustund. EFTIRRÉTTUR Karamellusúrmjólk- ur-pannacotta með bökuðu mangói og pistasíum 600 ml rjómi / 600 ml mjólk 10 msk. sykur / 1 vanillustöng 600 g karamellusúrmjólk frá Mjólkursamlagi KS 9 blöð matarlím (gelatín) Aðferð: Hitið rjóma, mjólk, sykur og vanillustöng saman að suðu. Kælið. Fjarlægið vanillustöngina. Leggið matarlímið í kalt vatn og leysið svo upp í einni ausu af volgu rjómablandinu. Hrærið uppleysta matarlímið saman við afganginn af rjómablandinu. Hrærið hluta af rjómablandinu saman við karamellusúrmjólkina og blandið loks öllu saman. Hellið þessu í vínglös eða fallegar skálar á fæti og skreytið með bökuðu mangói og pistasíum. Uppskriftin nægir í 12 skálar. Bakað mangó 1 mangó 3 msk hrásykur Aðferð: Skerið mangó í miðlungsstóra teninga og stráið hrásykri yfir. Bakið við 180° C í 12 mínútur. Verði ykkur að góðu! UMSJÓN berglindth@feykir.is Bókin Eldað undir bláhimni, sem kemur úr prentun nú fyrir helgi, er tileinkuð skagfirskri matarmenningu sem byggir á þeirri hugmyndafræði að nýta það spennandi hráefni sem finna má í skagfirsku matarkistunni. Í bókinni er boðið upp á sannkallað bragðlaukaævintýri: Sælkeraferð um Skagafjörð þar sem fögur náttúra og ljúffengir réttir eru í öndvegi. Hér gefur að líta tvær girnilegar uppskriftir af þeim rúmlega fjörutíu uppskriftum sem bókin skartar, lambalæri með íslenskum villijurtum að hætti Ágústar Andréssonarforstöðumanns Kjötafurðastöðvar KS og Karamellusúrmjólkur-pannacotta eftirrétt að hætti Svanhildar Pálsdóttur hótelstýru Hótel Varmahlíðar. Bókin innilheldur einnig fjölda stórglæsilegra ljósmynda af skagfirskri matargerð, náttúrufegurð og mannlífi. Ritstjórn var í höndum Heiðdísar Lilju Magnúsdóttur og myndir eru eftir Pétur Inga Björnsson og Óla Arnar Brynjarsson. Texti bókarinnar er bæði á íslensku og ensku og er bókin tilvalin til gjafa – allt árið um kring. Bókin verður fáanleg í Skagfirðingabúð, eftir helgina í verslunum Eymundsson og víðar. Linda Fanney Valgeirsdóttir er brottfluttur Skagfirðingur Í barnsnauð á bakkanum Sú tilfinning að vera á heimahögunum í Skagafirði er ómótstæðileg. Hvergi betra. Það veit hver taug og hvert bein í mér. Raunar er líkami minn svo ótrúlega meðvitaður um sæluna í Skagafirði að þegar ég var komin rétt 36 vikur á leið af mínu fyrsta barni síðasta haust, þá tók líkami minn þá ákvörðun að rétt væri að koma barninu í heiminn. Þetta var hin svokallaða gangnahelgi á Höfðaströndinni og líkt og lög gera ráð fyrir þá fór minn heittelskaði í göngur fyrir tengdaforeldra sína. Örþreytt eftir daginn fórum við í sundlaugina á Hofsósi ásamt fríðu föruneyti. Stjörnubjartur himinn og heitur pottur. Þetta var lífið. Þegar upp úr pottinum var komið þá var raunveruleikinn ekki flúinn. Legvatnið byrjaði að leka á steingráu náttúruflísarnar frá Steinunni og Lilju og eftir rökræður við sjálfa mig og systur mína játaði ég mig sigraða og lagðist niður. Ég hafði nefnilega heyrt það að óskorðuð börn og naflastrengurinn kynnu svo illa að meta það ef maður stæði uppréttur. Þarna lá ég, hálfber á fínu flísunum, og bað manninn minn ítrekað afsökunar á því að vera að standa í þessu einmitt þetta kvöld þegar hann var svona þreyttur eftir göngurnar. Eftir á að hyggja var rökhugsunin eflaust ekki upp á marga fiska. Þar sem systir mín var með langbestu rænuna af okkur þremur þá hringdi hún í vakthafandi lækni á Króknum. Hún spurði hvort það væri hægt að senda ljósmóður yfir á Hofsós til að kanna bæði hvort það væri í lagi með móður og barn, sem og að ganga úr skugga um að fæðing væri byrjuð. „Það er ekki hægt að senda ljósmóður, það er helgi,“ sagði læknirinn. Ég var farin að sjá það að tímasetning mín var verulega slæm. Hvernig átti ég að vita það að ljósmæður á Króknum væru ekki á vakt um helgar? „Bölvaður niðurskurður,“ hugsaði ég. Mér fannst heimabyggðin vera að bregðast mér. Læknirinn ráðlagði okkur að „skutlast“ á Akureyri með sjúkrabíl. Eftir nokkrar tiltölur féllst ég á það og við tók rússíbanareið með sjúkrabílnum. Það hafði aldrei verið fjallað um neitt þessu líkt á þeim fjölmörgu undirbúningsnámskeiðum sem við foreldrarnir höfðum sótt á meðgöngunni. Hina þaulskipulögðu sjúkrahústösku var hvergi að finna, einungis blaut sundföt í KS-poka. Í sjúkrabílnum var hvorki að finna lækni né hjartsláttartæki og það fékk verulega á frumbyrjuna mig sem ekki hafði fundið hreyfingar hjá barninu allan daginn. Enn á ný varð ég fyrir vonbrigðum með þá þjónustu sem boðið er upp á í firðinum mínum. Allt er gott sem endar vel og skemmst er frá því að segja að tæpum sólarhring síðar fæddist alheilbrigt stúlkubarn á Akureyri. Það var ljóst að dóttir mín vildi ekki fæðast í Reykjavík fyrir sunnan eins og lagt hafði verið upp með. Hún vill vera Norðlendingur, það láir henni enginn. Ég skora á Sigurð Örvar Sigurmonsson að taka við pennanum og skrifa pistil í næsta tölublað Feykis. ÁSKORENDAPENNINN UMSJ berglindth@feykir.is

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.