Feykir


Feykir - 13.12.2012, Blaðsíða 7

Feykir - 13.12.2012, Blaðsíða 7
47/2012 Feykir 7 skotsár og að fara á vettvang eftir skotbardaga. Í Pittsburgh eru nokkur fátækrahverfi, þar af tvö sérstaklega erfið, og sum heimili sem við komum inn á þótti mér fjárhúsin hjá afa snyrtilegri í samanburði. Það sem ég lærði og upplifði þar var eins og á heilli æfi hér,“ segir Vernharð. Sorgleg staðreynd: Langflest dauðsföll þar sem ekki er reykskynjari Aðspurður um minnisstæð útköll segist Vernharð muna eitt og eitt en svo fennir yfir önnur í gegnum árin. Hann rifjar upp fyrsta alvarlega útkallið sitt í sjúkraflutningum í Reykjavík sem var honum mjög minnistætt. „Við vorum tveir á leiðinni í útkall á Lækjartorgi og ég alveg grænn. Þar hafði maður fengið hjartastopp um hádegisbilið og bærinn fullur af fólki. Þegar við komum á staðinn þá hafði maðurinn kastað upp og leit ansi illa út, eins og gerist. Einhver sem hafði átt þar leið hjá hafði breitt dulu yfir andlit hans til að vernda samborgara sína fyrir ásjónu hans. Það var sú fyrsta hjálp sem hann fékk – ég gleymi því aldrei,“ segir Vernharð alvörugefinn á svip, en sá maður lést af veikindum sínum. „Sem betur fer hefur margt breyst í þessum efnum og margir framkvæma skyndihjálp í dag,“ bætir hann við. Vernharð hefur tekið þátt í slökkvistörfum á mörgum stórum og landsþekktum brunum sem hann segist muna vel eftir einna helst vegna umfangsins. Til dæmis stórbrunanum í Gúmmívinnu- stofunni á Réttarhálsi árið 1989 en fyrirtækið eyðilagðist algjörlega. Eldurinn breiddist ört út og gassprenging varð nokkru síðar, þannig að starfsmenn þar áttu fótum sínum fjör að launa. Einn- ig þegar skemmtistaðurinn Tunglið við Lækjargötu brann árið 1998 og eldsvoðanum við Laugaveg árið 2002 þegar fimm íbúðir í tveimur samliggjandi húsum eyðilögðust í mesta eldsvoða sem hefur orðið í íbúðabyggð í Reykjavík í áratugi. „Svo auðvitað þegar Kaffi Krókur brann 18. janúar 2008, skömmu eftir að ég flutti hingað en ég tók við starfi slökkviliðsstjóra hér 1. janúar 2008,“ segir Vernharð. Einnig rifjar hann upp brunann sem varð á fiskeldisstöðinni á Lambanesreykjum í Fljótum vorið 2009 en þá varð stór skemma, tvö aðstöðuhús og íbúð eldi að bráð. „Við náðum að bjarga stórum hluta af húsinu en það skemmdist mikið og það borgaði sig ekki að endurreisa það,“ segir hann. Þegar Vernharð er inntur eftir því hvernig það sé að koma á vettvang eldsvoða segir hann það velta mikið á aðstæðum. „Þegar árin líða og reynsla safnast upp þá venst starfið en óþægilegustu tilkynningarnar, sem vekja alltaf kvíða hjá manni, er að fá tilkynningu um eld í íbúðar-húsi að nóttu og að grunur sé um að fólk sé inni. Maður veit það af reynslunni að það getur endað illa,“ segir Vernharð og bætir við að þess vegna sé honum, sem og öðrum í hans stétt, mikið í mun um að brýna fyrir fólki mikilvægi brunavarna heimilanna. „Því miður hafa langflest dauðsföll í eldsvoða verið vegna þess að ekki var reykskynjari á staðnum. Það er ótrúlega sorglegt að hugsa til þess að jafn einfaldur og ódýr hlutur eins og reykskynjari hefði getað bjargað lífi þess fólks,“ segir hann. Þess má geta að reykskynjarar kosta einungis um 1000 kr. og uppúr og endast í um fimm til tíu ár, eftir framleiðanda. Mikilvægt er að gæta þess að skipta um rafhlöður einu sinni á ári. „Að öðru leyti vinnur maður bara sína vinnu og klárar verkefnið sem er fyrir höndum – það má ekkert koma í veg fyrir það,“ bætir hann við. Brennandi hús er hættu- legur vettvangur og eru að- stæður metnar hverju sinni hvernig slökkviliðsmenn bera sig að. „Það er lesið í brunaferli og kannað hve þróaður eldurinn er í húsinu og hvað er í hættu. Ef burðarvirki er í hættu þá eru reykkafarar ekki sendir inn, eða ef hætta er á reyksprengingu eða yfir- tendrun. Yfirtendrun lýsir sér svo að hitinn er orðinn svo mikill að allt í rýminu logar; loftið, gólfið og gufurnar. Það er mjög alvarlegt – menn farast við slíkar aðstæður,“ útskýrir Vernharð. Slökkviliðsmenn komast einnig í tæri við mikið af eiturefnum sem geta verið mjög heilsuspillandi. „Við erum að vaða inn í hús til að bjarga fólki og slökkva eld, í reyknum er mikið af eiturefnum sem setjast á galla okkar, svo getur húðin tekið upp þessi eiturefni. Rannsóknir hafa sýnt að lífaldur slökkviliðsmanna sé allt að 10 árum styttri en ella og að krabbamein sé algengara,“ útskýrir hann. Vernharð segir að sturtur og sána sé orðinn staðalbúnaður í slökkviliðsstöðvum svo menn geta skolað þessi efni úr húðinni hið fyrsta. „Í mörgum nágrannalöndum okkar er farið að meðhöndla gallana sem spilliefni. Þá er farið úr honum í ákveðnu rými og farið beint í sturtu. Gallinn er í kjölfarið meðhöndlaður á sérstakan hátt og alltaf farið í tandurhreinan galla á eftir,“ segir hann. Vernharð tekur fram að ef mannslíf er í hættu þá sé alltaf reynt að fara inn og leita eftir fólki ef mögulegt er. „Við gætum mikils öryggis í hvert skipti, ef fólk er í hættu þá tekur maður meiri áhættu. Við gerum allt sem við getum til að tryggja öryggi reykkafara en þeirra starf er gríðarlega erfitt. Í fyrsta lagi þurfa þeir að bera mjög þungan búnað sem er um 25 kg og svo fara þeir inni í mikinn hita, allt að 700 – 1000°C þar sem heitast er. Þess vegna þurfa þeir að standast þrek- og læknispróf,“ segir Vernharð. Man frekar eftir góðum útköllum en slæmum Þegar Vernharð er spurður hvort hann hafi einhvern tíman séð eftir því að hafa valið þennan starfsvettvang svarar hann í fljótu bragði: „Aldrei. Ég hef aldrei litið til baka með það. Eitt af því sem mér líkar svo vel við þetta starf er að engir tveir dagar eru eins og þú veist aldrei hvað hver dagur ber með sér. Við gerum þetta ekki launanna vegna heldur vegna þess hvað þetta gefur manni. Ég man ekki endilega eftir erfiðustu útköllunum eða erfiðustu endurlífgununum. Ég man frekar eftir öllum börnunum sem ég hef tekið á móti eða þeim endurlífgunum sem gengu vel. Ég man til dæmis eftir að hafa endurlífgað mann og hitti hann svo tveim dögum síðar, eldsprækan og var hann frískur mörg ár á eftir. Ég man frekar eftir góðu útköllunum en þeim slæmu,“ segir Vernharð og bætir við: „Svo er það sem okkar stétt hefur umfram lögregluna að það vilja allir fá mann á vettvang og það eru allir alltaf glaðir að sjá okkur,“ segir hann og hlær. Auk þess að vera spennandi og gefandi starf segir Vernharð einstaklega góðan vinnuanda ríkja hjá Brunavörnum Skaga- fjarðar og þar sé að finna góðan félagsskap. „Mörg okkar viðfangsefni eru viðkvæm og oft á tíðum erfið, því skapast mikil samkennd í hópnum. Félag slökkviliðsmanna í Skagafirði er líka mjög virkur félagsskapur. Við hittumst oft, gerum okkur glaðan dag og hristum hópinn saman. Við erum með nokkrar uppákomur yfir árið, höldum fjölskyldudag, þorrablót, förum í óvissuferðir og fleira,“ segir Vernharð. Í lokin segir hann að í starfinu felist ekki einungis puð og vinna, heldur einkennist það einnig af ákveðinni ánægju og léttleika – og er það góð blanda. - - - - - Þeir sem hafa áhuga á að kynnast starfinu nánar og jafnvel vera hluti af þessu teymi geta haft samband við Vernharð hjá Brunavörunum Skaga- fjarðar í síma 453 5425. Efsta mynd: Góð stemning í slökkviliðinu. Miðmynd: Frá æfingu slökkviliðsins síðastliðið þriðjudagskvöld. Neðsta mynd: Slökkviliðið að störfum við að slökkva eld í Kaffi Krók.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.