Feykir


Feykir - 31.05.2012, Blaðsíða 7

Feykir - 31.05.2012, Blaðsíða 7
21/2012 möguleiki á því að halda eftir einhverjum kvóta,“ segir Ómar og útskýrir að hann telji það ekki vera eðlilegt að byggðarlög sem hafa reitt sig á veiðar svo öldum skiptir geti tapað niður atvinnuháttum sínum með tilkomu einhvers kerfis sem er sett á. Veiðiheimildirnar fara svo í eigu örfárra einstaklinga sem og kjósa svo kannski að selja hann allan burt - í kjölfarið situr byggðin eftir með sárt ennið. Það var raunin á Hvammstanga en samkvæmt Ómari var helmingur inn- fjarðarrækjukvótans seldur burt tveimur til þremur árum eftir að kvótakerfmu var komið á laggirnar. Byggöakvótinn heldur í okkur lífinu Harpa HU-4 er 60 tonna stálbátur sem kom í eigu Ómars árið 1994. „I gegnum tíðina erum við búnir að veiða nánast allt; þorsk, kola, rækju, hörpudisk, ígulker. Búnir að vera á netum og línu - bara nefndu það,“ útskýrir Ómar en nú hefúr Harpan setið aðgerðarlaus við Hvammstangabryggju síðast hðna þrjá mánuði þar sem sá litli kvóti sem eftir er kláraðist fljótt og örugglega. Á meðan hafa Ómar og hinir skipsmennirnir beðið eftir úthlutun byggðakvótans með óþreyju og tilhlökkun eftir því að komast aftur út að róa. Kvótinn kom loks í hús síðast liðinn föstudag. „Byggðakvót- inn hefur verið að halda í okkur lífmu,“ segir Ómar en þá fær hann úthlutað um 50 tonnum á ári. „Hér skiptir byggðakvótinn verulega miklu máli, ef ekki væri fyrir hann þá væru þau fjögur starfsgildi hjá mér farin,“ útskýrir hann. Áður fyrr var hægt að leigja kvóta en Ómar segir það ekki vera hagkvæmt lengur þar sem hann sé orðinn svo dýr. „Þegar leiguverðið er orðið jafnt fiskverðinu þá borgar það sig ekki.“ Þetta vandamál segir hann hafa farið vaxandi síðasta eina og hálfa árið eða svo, þar sem framboð á kvóta hefur farið ört minnkandi. Síðustu misseri hefur Ómar að mestu stundað veiðar á kola, sem lifir á sjávarbotni, og notar til þess dragnót en slík veiðarfæri eru umdeild og hafa viða verið bönnuð. „Við sem stundum dragnótaveiðar hér við Húna- flóa gerðum samkomulag við sveitarstjórn Húnaþings vestra og ráðuneytið, þar sem leitast var eftir því að koma til móts við alla,“ útskýrir Ómar. Samkomulagið fellst í því að búið er að loka innsta hluta Miðfjarðar og Hrútafjarðar og svo er alveg lokað fyrir dragnótaveiðar yfir hrygningartímann, sem stendur yfir í mars-, apríl- og maímánuði. „Menn eru almennt sáttir með þetta fyrirkomulag og vilja vinna í sátt og samlyndi við umhverfi sitt,“ segir Ómar og bætir við að honum þyki þó undarlegt að loka bara fýrir dragnót yfir hrygningartímann en að leyfa önnur veiðafæri á sama tíma. Hann segist ekki vera sannfærður um eyðilegg- ingarmátt dragnótarinnar og bendir á að hjá Alþjóðlegu hafrannsóknarstofnuninni er dragnótin sett í sama flokk og handfæri. Ómar tekur þó fram að hann telji nauðsynlegt að rannsaka öll veiðarfærin til hlítar og komast að niður- stöðum. „Við viljum ekki að það sé verið að drepa lífríkið hér upp á framtíðina og því viljum við auðvitað sjálf að þetta sé rannsakað.“ Fann vin sinn á hafsbotni Ómar segir lífið á sjónum vera mjög skemmtilegt, sérstaklega með góðan mannskap um borð. Þrátt fyrir að hafa oft siglt í vondum veðrum þá segist hann hafa verið blessunarlega laus við að lenda í nokkurri hættu. „Ég hef verið heppinn að því leyti, það hefur aldrei orðið slys hjá mér. Þó hef ég lent í að leita að öðrum,“ segir Ómar og rifjar upp atburð sem átti sér stað á sjómannadaginn í fýrra þegar tveir björgunarsveitarmenn urðu eftir úti á sjó eftir sjó- mannadagsskemmtun. Hann fór af stað til að hjálpa til við leitina og sigldi inn fjörðinn en þar fann hann mennina tvo, kalda og þrekaða effir klukkustunda veru í sjónum. Annar þeirra segir Ómar hafa verið verr haldinn en hinn þar sem hann var í lekum blautgalla og mátti ekki tæpara standa. Hans mesta afrek segir hann þó vera þegar hann fann vin sinn sem fórst úti á sjó. Maðurinn hét Friðrik Jón Friðriksson, kallaður Bíi. Dag einn í rjómablíðu á haustmánuðum árið 2000 sökk bátur hans Ingumundur Gamli með sviplegum hætti, tveir komust lífs af en Bíi fór niður með bátnum. Hvernig Ómari tókst að finna vin sinn á hafsbotni er með ólíkindum. „Það hafði verið afleitt veður í sex vikur eftir slysið en þegar veðrinu slotaði héldum við út með neðansjávarmyndavél. Eftir á að hyggja var í raun rugl að reyna þetta enda hafði fólk eðlilega ekki mikla trú á því að við findum hann,“ segir Ómar. „Við lögðum út með að reyna að fmna bátinn, sem var 100 tonna stálbátur, og vonuðumst til þess að karlinn væri fastur við bátinn. Á leiðinni á slysstað sá ég lóðningu í mælitækinu og plottaði staðsetninguna hjá mér,“ segir Ómar en dýptar- mælitækin nema það sem er á milli báts og hafsbotns og eru notuð til að finna fisk. „Ég gerði þetta í raun ósjálfrátt, hugsaði bara með mér að hér væri fiskur og hélt svo áfram á þann stað sem Ingimundur Gamli átti að hafa farið niður, í 2-300 metra fjarlægð.“ Leitin stóð yfir allan daginn en án árangurs. Síðar um daginn snéri hann aftur á staðinn sem hann hafði merkt hjá sér og stillti neðansjávar- myndavélina. „Þar fundum við Bía heitinn, beint undir bátnum á 260 metra dýpi,“ segir Ómar og tekur fram að hann sé sannfærður um að hann hafi verið leiddur áfram til að finna hann. „Það var í raun ótrúlegt að við höfðum fundið hann þar sem það var ekkert útsýni þarna niðri en bátinn sjálfan fundum við talsvert seinna," segir Ómar og bætir við að það hafi verið mikill léttir að geta jarðsett vin sinn. Ómar rifjar upp gleðistund- ir með Bía og Bigga bróður sínum, sem voru saman í rækjuútgerð, en Ómar byrjaði fyrst að fara á sjó hjá þeim félögum einungis 12 ára gamall. „Mér fannst þetta voða gaman og spennandi. Ég notaði hvert tækifæri til að fara út á sjó og fór nánast allar helgar og öll sumur,“ segir Ómar en hann vissi snemma að hann vildi leggja sjómennskuna fyrir sig. Þeir félagarnir léku sér á bryggjunni alla daga og ofan í bátunum. „Ég fór fyrsta alvöru túrinn á rækjubát 10 ára gamall. Ég varð alveg ægilega sjóveikur, við tveir félagarnir vorum nær dauða en lífi,“ segir hann og hlær. Vingjarnlegt andlit Björns Þóris Sigurðssonar, betur þekktur sem Bangsi, var dagleg sjón á bryggjunni þá, líkt og nú, og tók hann félagana upp á sína náðarhönd og kenndi þeim ófá handtökin. „Það var góður skóli að fá að vera með honum. Hann er mjög skemmtilegur og fróður karl og þekkir allt inn og út eins og puttana á sér,“ segir Ómar og segir frá því þegar Bangsi gerði upp árabát, sem búið var að leggja af og sjósetti fyrir þá félaga til að hafa. Ómar segir frá því hvernig það atvikaðist að hann varð skipstjóri í fyrsta sinn 18 ára gamall. „Við vorum þrír strákar að leysa af á bátnum Neista. Það gekk eitthvað erfiðlega hjá þeim sem átti að koma bátnum frá bryggju og gekk ekki betur en svo að hann keyrði alltaf á bryggjuna. Það var mikið hlegið að okkur skal ég segja þér,“ segir Ómar og hlær. „Ég hugsaði með mér: „Ég skal prófa þetta!“ og fyrst ég gat það þá varð ég skipstjórinn." Oft gat skapast ægileg stemmning á inníjarðarrækju- veiðunum hér áður fyrr, segir Ómar en þá mátti veiða visst magn á dag og var þá mikið kapp lagt á að klára skammtinn sem fyrst, á sem stystum tíma. „Þá var oft mikið fjör og gaman, öfugt við í dag þar sem hver veiðir í sínu horni,“ segir Ómar. „Ég er ekki viss um að maður hefði hugsað um að líta út á sjó hefði maður alist upp í dag,“ segir hann og bætir loks við: „Það var meiri rómantík í kringum sjómennskuna í þá daga - alltaf mikið um að vera og gaman að umgangast alla þessa skemmtilegu karla.“ Ómar ásamt eiginkonu sinni Hörpu Lind Vilbertsdóttur. Ómar taiar oft um Hörpurnar sinar þrjár; eiginkonuna, bátinn og Söluskálann Hörpu á Hvammstanga, þar sem þau hjónin reka farsælan veitingarekstur sem hefur aldeilis hitt i mark hjá heimamönnum.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.