Saga - 2010, Qupperneq 72
kölluð 20 hundruð. Í Íslendingasögum og fleiri fornritum er getið
höfðingja og fyrirmanna á Víðimýri.60
Hér er gerður greinarmunur á höfðingjasetri og valdamiðstöð.61
Höfðingjasetur þurfti ekki að hafa miklu meira sér til ágætis en að
þar sæti höfðingi. Þar hefur þó verið gott undir bú, jarðarmat
kannski 50 til 60 hundruð. Til þess að höfðingjasetur yrði eiginleg
valdamiðstöð þurfti það að hafa sérstakt miðstöðvargildi (centrality,
sentralitet). Þá er átt við að eitthvað annað dró að en búseta höfð -
ingja, svo sem að þjóðleið lá hjá bænum og að þar væri heppilegur
áningarstaður eða sóknarkirkja. Miðstöðvargildi höfðingjaseturs
þurfti aftur á móti ekki að vera fólgið í öðru en því að fólk sótti
þangað til að hitta höfðingjann. Sumir bæir höfðu hins vegar mikið
miðstöðvargildi þar fyrir utan, voru á krossgötum eða kannski
nálægt mikilvægu vaði eða ferju. Þeir voru því í þjóðbraut og eins
gat verið þar laug eða forvitnileg kirkja sem dró að. Höfðingjar gátu
svo aukið aðdráttarafl slíkra bæja, t.d. með því að láta hlaða upp
laugina með setum eða reisa vönduð húsakynni til samkomuhalds
þannig að sveitarmönnum þætti kjörið að hittast þar og halda form-
legar samkomur. Stjórnsamur og metnaðargjarn höfðingi vildi líka
lokka til sín ferðamenn; um Hof í tíð Þorsteins Ingimundarsonar
segir Vatnsdæla,
þar var öllum mönnum matur heimill og hestaskipti og allur annar
farar greiði og skylt þótti það öllum utanhéraðsmönnum að hitta
Þorstein fyrstan og segja honum tíðendi úr sveitum …62
helgi þorláksson72
60 Í Hænsna-Þóris sögu er talað um Þorkel á Víðimýri sem þekktan mann enda skal
egill Skallagrímsson hafa sótt brúðkaup á heimili hans, sbr. Egils saga Skalla-
Grímssonar. Útg. Sigurður Nordal. Íslenzk fornrit II (Reykjavík: Hið íslenzka
fornritafélag 1933), bls. 273. Hænsa-Þóris saga í Borgfirðinga sögur. Útg. Sigurður
Nordal, Guðni Jónsson. Íslenzk fornrit III (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag
1938), bls. 6. Í Finnboga sögu ramma segir að goðinn Þórarinn ætti heima á
Víðimýri, sbr. Finnboga saga í Kjalnesinga saga. Útg. Jóhannes Halldórsson.
Íslenzk fornrit XIV (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag 1959), bls. 306–7. Í
Landnámu er nefndur Úlfhéðinn á Víðimýri sem getið er til að hafi verið
höfðingi, sbr. Lúðvík Ingvarsson, Goðar og goðorðsmenn III, bls. 371–4. Þá er getið
um Örn son Þorkels á Víðimýri, „af göfugri ætt“, sem var helst í ráðum með Jóni
biskupi Ögmundarsyni á Hólum, sbr. Jóns saga ins helga. Biskupa sögur I. Útg.
Sigur geir Steingrímsson, Ólafur Halldórsson og Peter Foote. Íslenzk fornrit XV
(Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag 2003), bls. 215.
61 Helgi Þorláksson, „Höfðingjasetur, miðstöðvar og valdamiðstöðvar“, bls. 191.
62 Vatnsdæla saga. Útg. einar Ól. Sveinsson. Íslenzk fornrit VII (Reykjavík: Hið
íslenzka fornritafélag 1939), bls. 84.
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:05 Page 72