Þróttur - 01.12.1944, Blaðsíða 3

Þróttur - 01.12.1944, Blaðsíða 3
Nær því í hálfa öld hafa íslenzkir íþróttamenn sótt á brattann í baráttunni fyrir aukinni líkamsmennt landsmanna. Eftir því, sem lengra hefir liðið og íþróttafélögunum hefir vaxið fiskur um hrygg, hefir tómlæti almennings um störf íþróttamanna minkað og í stað þess komið samúð og skilningur. Nú er ekki lengur um það deilt, að starf það, sem unnið er í íþróttafélögunum er þjóðnytjastarf. Og í samræmi við það almenn- ingsálit veita hinir opinberu aðilar, ríki, bæjar- og sveitarfélög, árlega ríflegar fjár upphæðir og vaxandi til íþróttastarfseminnar. I októbermánuði síðastliðnum berst forráðamönnum íþróttafélaganna hér í bænum, bréf frá íþróttafulltrúa ríkisins, þar sem íþróttafulltrúinn, með tilvísun til 16. gr. íþróttalaganna frá 1940, bannar að taka til íþróttaæfinga og keppni, nú og framvegis, nokkurn skólanemanda, sem ekki hefir upp á vasann leyfi skólastjóra til að afla sér íþróttaæfingar utan skóla. Nú er það að vísu svo, að meðal vankantanna á þessari umdeildu löggjöf er 16. greinin, sem bannar jafnt háskólaborgurum sem barnaskólanemendum, að leita sér nokkurrar frekari líkamsmenntar en viðkomandi stofnanir kunna að geta boðið. Tilraunir til úrbóta á þessum ágöllum löggjafarinnar hafa enn ekki verið gerðar, og veldur það, að brátt munu íþróttalögin í heild verða endurskoðuð og því treyst að þessu ákvæði yrði ekki harkalega beitt; þar sem fólki mun almennt sýnast, að ekki komi það ríkisvaldinu frekar við, þótt foreldrar leyfi börnum sínum aukakennslu í íþróttum, heldur en t.d. aukakennslu í stærðfræði eða tungumálum. Þessi röggsemi íþróttanefndarinnar og íþróttafulltrúans mælist misjafnlega fyrir og þykir lítt skiljanleg. Sýnist enginn almennur áhugi fyrir því að unglingum sé meinað að eyða við iðkanir hollra íþrótta tómstundum, sem að öðrum kosti yrðu ef til vill ónýtar eða kannske verra en það. Með því að meina skólaæskunni starfs í íþróttafélögunum er í raun og veru verið að gera tilraun til að höggva á lífæð þeirra. Og skýtur sú stefna ríkisvaldsins mjög skökku við þá viðurkenningu, sem hin frjálsa íþróttastarfsemi í landinu hefir áunnið sér. Skipulagning íþróttamála verður ávallt að vera miðuð við hagsmuni þess fólks, sem hennar á að njóta. Þessvegna eiga íþróttafélögin að njóta skjóls og stuðnings ríkisvaldsins sem alls ekki á að keppa við þau, jafnvel þótt opinberir skólar sjái nemendum sínum fyrir nokkurri íþróttakennslu. ÞRÓTTUR 1

x

Þróttur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þróttur
https://timarit.is/publication/1299

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.