Skírnir - 01.09.2001, Page 57
SKÍRNIR
UM BERSERKI
321
andi heimildum, en þó hefur Ynglinga saga Snorra Sturlusonar
einkum verið talin með traustari heimildum. Samkvæmt henni eru
tvær síðari skýringarnar líklegar, þar sem talað er um brynjulausa
menn og þeim jafnframt líkt við birni:
Óðinn kunni svá gera, at í orrostu urðu óvinir hans blindir eða daufir eða
óttafullir, en vápn þeira bitu eigi heldr en vendir, en hans menn fóru
brynjulausir ok váru galnir sem hundar eða vargar, bitu í skjgldu sína,
váru sterkir sem birnir eða griðungar. Þeir drápu mannfólkit, en hvártki
eldr né járn orti á þá. Þat er kallaðr berserksgangr.14
Samkvæmt þessu eru berserkirnir menn stríðsguðsins Óðins og
berserksgangurinn í sjálfu sér frá guðlegu valdi runninn. Snorri
segir þá vera galna sem birni eða griðunga, en lýsingarorðið galinn
er komið af sagnorðinu gala, þ.e. að syngja (flytja) eins konar
töfrasöng og á þann hátt stendur það í nánu samhengi við galdur
eða seið.15 Hinir gölnu berserkir Óðins tengjast þess vegna því
sem hann „kunni að gera“, þ.e. göldrum hans - enda var Óðinn
margkunnugur; hann var talinn deyfa sverð óvina sinna, jafnframt
því sem hann framdi seið og skipti hömum.16 Sama hugmynd
kemur víðar fyrir í íslenskum miðaldabókmenntum, s.s. í Ketils
sögu hængs, þar sem segir frá víkingakonunginum Framari, sem
sagður er blótmaður mikill og hið mesta tröll: „Þat hafði Óðinn
skapat Framari, at hann bitu eigi járn“.17 Þetta bendir til þess að
menn hafi lengi talið berserkina njóta galdurs Óðins og því hefur
berserksgangurinn líklega verið tengdur guðlegri forsjá og álitinn
af mönnum í dýrafeldum sem hugsanlega gætu verið berserkir. Sjá t.d. Gunn-
ell 1995:61 og 64-70.
14 Ynglinga saga, 6. kafli, ÍF XXVI. Því hefur verið haldið fram að Snorri hafi
„misskilið" merkingu orðhlutans ber- og talið hann þýða „nakinn". Sjá Blaney
1972:27-30; Noreen 1932:253; de Vries 1956-57: I 454 og II 97; Sigurð Nordal
í Egils sögu, ÍF II, nmgr. bls. 5; Bjarna Aðalbjarnarson í Ynglinga sögu, IF
XXVI, nmgr. bls. 18; Höfler 1934:170; Kaiser 1998:293.
15 Sjá Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:225.
16 Ynglinga saga, 6. og 7. kafli, ÍF XXVI (bls. 17-19) og Hávamál, 148. erindi,
Eddadigte I (bls. 37).
17 Saga Ketils hængs, 5. kafli, FN II (bls. 132-139). Þótt Framar sé hvergi nefnd-
ur berserkur, eru lýsingar af honum allar á einn veg og falla undir staðlaðar lýs-
ingar á berserkjum og háttum þeirra.