Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 4

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 4
4 Ljósmæðrablaðið - desember 2011 Oft hefur komið upp umræða um val barnshafandi kvenna á fæðingarstað. Þær ljósmæður sem kynntust Fæðingarheimilinu fá blik í auga og ljóma allar þegar rætt er um það. Má segja að konur hafi minna val í dag en áður til að fæða börnin sín. Búið er að loka Fæðingarheimilinu, leggja niður MFS-eininguna og fækka fæðingastöðum á landsbyggðinni. Auðvitað hefur fólk val um að fara út á land eins og til Keflavíkur, á Selfoss og til Akraness, en ég held við getum samt sagt að konur sem búa á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki mikið val í dag. Tíðni heimafæðinga á Íslandi hefur aukist hratt á síðustu árum í kjölfar sögulegrar lægðar í lok síðustu aldar og er þar komin raunverulegur valkostur fyrir konur sem ekki vilja vera inn á spítölum. Ekki hefur áður verið gerð fræðileg rannsókn á útkomu heimafæðinga á Íslandi. Í blaðinu birtist ritrýnd grein úr rannsókn á heimafæðingum á Íslandi sem Berglind Hálfdánsdóttir gerði, niðurstöður þessarar forrannsóknar leiddu í ljós góða útkomu móður og barns. Brjóstagjöf er okkur ljósmæðrum hugleikin nú sem endranær. Ýmsir orsakaþættir hafa verið nefndir fyrir því að konur hætta fyrr með börn sín á brjósti en ráðlagt er. Nýlegar heimildir hafa einblínt sérstaklega á þá þætti eða þá sem mögulegt er að hafa áhrif á með þjónustu við konur. Einn þessara þátta er sjálfsöryggi mæðra við brjóstagjöf en um það skrifar Hildur Sigurðardóttir ritrýnda grein í blaðið Núna göngum við í gengum mikla samdráttartíma og verður barneignarþjónustan fyrir niðurskurðarhnífnum. Þessi niðurskurður hefur komið hart niður á mörgum fæðingar- stöðum á landsbyggðinni. Fæðingarstaðir hafa þurft að endurskoða sína starfsemi með tilliti til fjármagns og hafa þeir stuðst við flokkun Landlæknis varðandi leiðbeiningar um val á fæðingarstað. Í blaðinu fáum við fréttir frá nokkrum fæðingardeildum á landsbyggðinni þar sem á sumum þeirra hafa orðið töluverðar breytingar. Má segja að konur og fjölskyldur þeirra hafi einnig lítið val á landsbyggðinni, þær geta sumar ekki fætt í sinni heimabyggð vegna breytinga hjá viðkomandi sjúkra- húsi og þurfa því stundum að bíða á höfuð- borgarsvæðinu eftir því að fæða barn sitt, oft fjarri fjölskyldu. Þetta er kannski það sem við þurfum að borga fyrir óráðsíu auðmanna á góðæristímanum, ekki urðum við mikið vör við góðærið inni á heilbrigðisstofnunum landsins fyrir hrun. Aðventan er gengin í garð og við förum að lýsa upp skammdegið með jólaskreytingum. Sumir kalla þá hátíð sem framundan er „hátíð áts og kviðar“. Allavega gerum við okkur dagamun í mat og drykk, dveljum með fjölskyldunni og njótum. Kæru ljósmæður nær og fjær, við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jólahátíðar og gleðilegs nýs árs, þökkum það liðna. Fyrir hönd ritnefndar Hrafnhildur Ólafsdóttir Hrafnhildur Ólafsdóttir ritstjóri Ljósmæðrablaðsins Ritstjórapistill Ljósmæðrafélag Íslands óskar öllum ljósmæðrum og fjöskyldum þeirra, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum þeim fjölmörgu ljósmæðrum sem unnið hafa óeigingjarnt starf fyrir félagið. Með kærri kveðju - Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.