Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 8

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 8
8 Ljósmæðrablaðið - desember 2011 score was significantly higher in the home birth group. The Icelandic pilot study results are in line with recent studies on home birth in other countries. Further research with larger sample size is needed, exploring influential factors like residence, transfer and midwives’ experience. Keywords: Outcome, planned home birth, planned hospital birth, midwife. INNGANGUR Til skamms tíma var fæðing jafn sjálfsagður hluti af lífsferli fólks og að borða, sofa og elska. Á tuttugustu öldinni breyttust hins vegar viðhorf til barnsfæðinga á Vesturlöndum á byltingarkenndan hátt. Hið mannfræðilega sjónarhorn, að þróun mannkyns sé nægileg sönnun á góðum árangri hins náttúrulega fæðingarferlis, fékk að víkja fyrir læknis- fræðilegu sjónarhorni sem hefur verið ráðandi í barneignarþjónustunni síðan. Samkvæmt því skapar fæðing áhættu og engin fæðing er eðlileg fyrr en henni er lokið áfallalaust (Bryar, 1995; Robertson, 2004; Walsh, El-Nemer og Downe, 2004). Flutningur fæðinga inn á sjúkrahús varð í kjölfarið bæði hraður og almennur (Bates, 2004; Robertson, 2004; Walsh, 2004; Walsh o.fl., 2004). Hér á Íslandi náði tíðni heimafæðinga sögulegu lágmarki á tíunda áratugnum þegar innan við tíu börn fæddust heima á ári hverju, mörg hver án þess að heimafæðing hefði verið ákveðin fyrirfram. Við aldamótin byrjaði pendúllinn hins vegar að sveiflast til baka með stöðugri aukningu á tíðni heimafæðinga á Íslandi úr 0,7% árið 2000 í 1,8% árið 2009 (Mynd 1). Samkvæmt skýrslum Fæðingarskráningarinnar hefur aukningin verið hröð frá árinu 2005, á bilinu 10-50% milli ára (Landspítali, e.d.). Upplýsingaflæði alnetsins hefur aukið aðgengi kvenna að fæðingarsögum úr heima- húsum og niðurstöðum erlendra rannsókna á útkomu heimafæðinga (Björkin ehf., e.d.-a; Dagný Ósk Ásgeirsdóttir, e.d.; Hagsmuna- samtök um heimafæðingar, e.d.; Jógasetrið, e.d.). Í kjölfarið hefur opnast umræða um heimafæðingar sem raunhæfan valkost fyrir hraustar konur í eðlilegu barneignarferli. Slík viðhorfsbreyting gæti að hluta til skýrt aukna tíðni heimafæðinga. Þróunin gæti einnig skýrst af viðhorfs- breytingu meðal ljósmæðra, sem sýna heimafæðingum sífellt meiri áhuga. Í kjölfar þess að menntun þeirra færðist inn í háskóla- samfélagið stendur hugmyndafræði ljósmæðra um eðlilega fæðingu styrkari fótum. Í dag sinna sjö ljósmæður heimafæðingum á höfuðborgar- svæðinu (Björkin ehf., e.d.-b) og sex á Akur- eyri og í Eyjafirði. Á Suðurnesjum, Akranesi, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Snæfellsnesi og Árborg hafa ljósmæður einnig tekið á móti börnum í heimahúsum. Ekki hefur áður verið gerð fræðileg rann- sókn á útkomu heimafæðinga á Íslandi. Í þessari grein verður lýst forrannsókn sem forprófaði rannsóknaráætlun fyrir samanburð á útkomu heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi 2005-2009. Til stendur að gera framhaldsrann- sókn á stærri rannsóknarhópum, alls um 700 fæðingum. Rannsóknin er hluti af norrænu samstarfi og er að hluta til staðfærð endur- tekning á nýlegri norskri rannsókn Dr. Ellen Blix, Anette Schaumburg Huitfeldt, Dr. Pål Øian og Dr. Merethe Kumle á útkomu heimafæðinga í Noregi 1990-2007 (greinar bíða birtingar). Gengið er út frá þeirri hugmyndafræði íslenskra ljósmæðra að barneignarferlið sé lífeðlislegt, náttúrulegt ferli og hver fæðing eðlileg nema annað komi í ljós (Ljósmæðra- félag Íslands, 2000). Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort heimafæðingar væru öruggur valkostur við sjúkrahúsfæðingar meðal hraustra kvenna í eðlilegu barneignarferli. Tilgangur rannsóknarinnar var að vísa veginn við þróun barneignaþjónustu og auðvelda verðandi foreldrum upplýst val á fæðingarstað. Settar voru fram tvær rannsóknarspurningar: Hver er útkoma fyrirfram ákveðinna heimafæðinga á Íslandi á árunum 2005-2009? Er marktækur munur á útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga á Íslandi og útkomu fyrirfram ákveðinna sjúkrahúsfæðinga hjá sambærilegum hópi hraustra kvenna í eðlilegu barneignarferli? FRÆÐILEGUR BAKGRUNNUR Fræðilegur grunnur að forrannsókn var lagður með samantekt á niðurstöðum erlendra rannsókna á efninu. Leitað var í íslensku leitarvélunum Gegni og Hirslu, og erlendu gagnasöfnunum og leitarvélunum PubMed, Scopus, Cinahl, PsychInfo og Proquest. Helstu leitarorð voru heimafæðing, sjúkrahús- fæðing, útkoma og samanburðarrannsóknir. Greinar voru útilokaðar ef þær báru ekki saman útkomubreytur eða rannsökuðu litla hópa. Leitin skilaði 17 greinum um 16 rannsóknir sem uppfylltu öll skilyrði. Þar sem markmiðið var að skoða nýjustu þekkingu var ákveðið var að afmarka formlega greiningu og úrvinnslu við sjö greinar sem birtar hafa verið frá upphafi rannsóknartímabilsins árið 2005. Eldri rannsóknir frá árunum 1990 til 2003 voru ekki greindar með sama hætti og þær nýrri. Þótt flestum beri þeim saman um góða útkomu heimafæðinga gefa sumar til kynna verri útkomu á ákveðnum breytum. Slíkt þarf þó að skoða í ljósi þeirrar aðferðafræði sem er beitt. Sem dæmi má nefna að í tveimur áströlskum rannsóknum kemur fram marktækt hærri tíðni burðarmálsdauða í heimafæðingum. Tekið er fram að í rannsóknarhópunum hafi verið konur með þekkta áhættuþætti á meðgöngu (Bastian, Keirse og Lancaster, 1998; Crotty, Ramsay, Smart og Chan, 1990). Í nýrri rannsóknum hefur verið lögð áhersla á að skoða bakgrunnsbreytur sem geta haft áhrif á útkomu fæðinga, svo sem heilsufar og félags- lega þætti. Innra og ytra réttmæti rannsóknanna er aukið með því að taka tillit til áhrifabreyta sem eru ólíkar meðal kvenna sem fæða heima og þeirra sem fæða á sjúkrahúsi, s.s. aldurs, félagslegrar stöðu og fjölda fyrri fæðinga (de Jonge o.fl., 2009; Hutton, Reitsma og Kaufman, 2009; Janssen, Saxell, Page, Klein, Liston og Lee, 2009; Johnson og Daviss, 2005; Kennare, Keirse, Tucker og Chan, 2010; Lindgren, Radestad, Christensson og Hildingsson, 2008; Wax, Pinette, Cartin og Blackstone, 2010). Rannsóknargreinarnar sjö birtust í erlendum fagtímaritum. Þær voru unnar og birtar víða um heim, í Svíþjóð, Bretlandi, Hollandi, Banda- ríkjunum, Kanada og Ástralíu. Bakgrunnur rannsakenda var ólíkur og lá ýmist í ljósmóður- fræði, læknisfræði, faraldsfræði, lýðheilsu- vísindum eða tölfræði. Flestar rannsóknirnar voru unnar þverfaglega. Burðarmálsdauði Á árunum 2005 til 2009 voru birtar stórar rannsóknir sem bera saman tíðni burðarmáls- dauða í fyrirfram ákveðnum heimafæðingum og sjúkrahúsfæðingum. Engin leiddi í ljós marktækan mun, hvernig sem burðarmálsdauði var skilgreindur (Hutton o.fl., 2009; Janssen o.fl., 2009; Johnson og Daviss, 2005; Lindgren o.fl., 2008). Stærð rannsóknarhópanna var þó ekki nægjanleg til að fullyrða með vissu að ekki væri um raunverulegan mun að ræða í þýðinu, þar sem burðarmálsdauði er mjög sjaldgæfur meðal hraustra kvenna. Nýleg, hollensk rannsókn náði að yfirvinna þennan veikleika. Holland hefur þá sérstöðu meðal vestrænna ríkja að tíðni heimafæðinga hefur haldist há og er í dag um 30%. Þetta gerir Hollendingum kleift að fullyrða með miklu tölfræðilegu öryggi um tíðni burðarmálsdauða (de Jonge o.fl., 2009). Rannsóknin sýndi fram á að ekki var marktækur munur á tíðni burðar- málsdauða í heimafæðingum (N=321,307) og sjúkrahúsfæðingum (N=163,261). Einungis ein nýleg rannsókn gefur til kynna marktækt aukna tíðni burðarmálsdauða í heimafæðingum. Niðurstöðurnar einskorðast við nýbura sem látast vegna súrefnisskorts í fæðingum sem enda á sjúkrahúsi eftir flutning (Kennare o.fl., 2010). Heilsufarsvandamál nýbura Nýlegar rannsóknir gefa yfirleitt til kynna betra heilsufar nýbura eftir heimafæðingu en sjúkrahúsfæðingu. Hjá þeim eru marktækt minni fæðingaráverkar, fósturstreita, litað legvatn, þörf fyrir endurlífgun, öndunaraðstoð og færri vökudeildarinnlagnir eða annað sérhæft eftirlit með nýbura (Janssen o.fl, 2009; Kennare o.fl., 2010; Wax, Pinette o.fl., 2010). Fæðingarþyngd nýbura í heimafæðingum var marktækt sjaldnar undir 2500 grömmum, og þeir fengu síður þurrmjólkurgjafir (Hutton o.fl., 2009; Wax, Pinette o.fl., 2010). Tvær rannsóknir sýndu þó að í heimafæðingum var marktækt hærra hlutfall nýbura sem höfðu Apgar stig undir 7 við 5 mínútna aldur (Kennare o.fl., 2010; Wax, Pinette o.fl., 2010). Heilsufarsvandamál móður Rannsóknum ber saman um að ef eingöngu væri litið til heilsufars móður væri heimafæðing öruggasti kosturinn. Blæðing eftir fæðingu, sem löngum hefur verið talinn sá áhættuþáttur

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.