Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 24

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 24
24 Ljósmæðrablaðið - desember 2011 INNGANGUR Brjóstagjöf má líta á sem framhald af fæðingunni þar sem barnið tryggir sér umönnun, næringu og hlýju í faðmi móður sinnar. Samkvæmt nýlegum rannsóknum er margt sem bendir til þess að barnið geti borið mun meiri ábyrgð á sinni brjóstagjöf en til þessa hefur verið talið. Við höfum öðlast þekk- ingu á stórkostlegum hæfileika nýburans til að leita að og finna brjóst móður sinnar með engri eða lítilli aðstoð sé hann rétt staðsettur á bringu móður. Í þessari grein er farið yfir þá hæfileika sem barnið býr yfir til að taka meiri þátt í sinni fyrstu brjóstagjöf, fái það tækifæri til þess. Einnig er fjallað um kenningu sem á ensku kallast biological nurturing og þýða mætti sem líffræðilegt uppeldi eða líffræðilega umönnun, sem gæti breytt miklu fyrir móður og barn, hvað varðar næringu til nýburans, örvun brjóstanna og hvíld móður. Þessi kenning byggir m.a. á hæfileika nýburans til að finna brjóstið. ÓSJÁLFRÁÐ VIÐBRÖGÐ NÝBURA OG „LEITIN AÐ BRJÓSTINU“ Nýburar nota allt að 20 ósjálfráð viðbrögð (e. reflex) sem gerir þeim kleift að taka brjóst. Lengi vel var nær eingöngu litið til leitunar, sogs- og kyngingarviðbragðs þegar verið var að skoða ósjálfráð viðbrögð nýbura í sambandi við brjóstagjöf (Colson, Meek og Hawdon, 2008). Dæmi um ósjálfráð viðbrögð sem barn notar þegar það leitar eftir brjóstinu eru: hönd að munni, fingrahreyfingar – rétta úr og kreppa fingur, galopna munn, tunga út og sleikja, hringhreyfingar handleggs, hringhreyfingar fótleggs, höfuðlyfta, höfuð–upp og niður, grip handa, grip fóta, skrið og upp-og niður höfuð- hreyfingar (e. bobbing head movements). Þetta eru mun fleiri viðbrögð en áður var talið að gegndu hlutverki við að hjálpa barninu við brjóstagjöf fyrstu fjórar vikurnar eftir fæðingu, en eftir það verður þetta nokkurn veginn lært atferli. Eftir eðlilega fæðingu leita nýfædd börn uppi brjóst móður sinnar og byrja að sjúga brjóstið séu þau sett á magann á maga móður. Barnið þarf tíma til að ná sér eftir eðlilega fæðingu og þarf að hvíla sig í 15-20 mínútur á kvið móður áður en það fer að mjaka sér að brjóstum hennar. Þetta getur það án aðstoðar móður eða ljósmóður, fái það nægan tíma til þess. Það getur tekið um það bil eina klukkustund (Matthiesen, Ransjö-Arvidson, Nissen og Uvnäs-Moberg, 2001; Righard og Alade, 1990; Widström, Lilja, Aaltomaa-Michalias, Dahllöf, Lintula og Nissen, 2011; Widström, Ransjö- Arvidsson, Christensson, Matthiesen, Winberg og Uvnäs-Moberg, 1987). Þetta hefur stundum verið nefnt „breast crawl“ á ensku sem þýða mætti sem „leitin að brjóstinu“. Barnið opnar augun að meðaltali 6 mínútum eftir fæðingu og leitar strax eftir samskiptum, sé það á maga móðurinnar og virðist skipta athygli sinni á milli geirvörtubaugs, sem hefur dökknað til að verða sýnilegri, og andlits móður (Ransjö-Arvidson, Mattiesen, Lilja, Nissen, Widström og Uvnäs- Moberg, 2001). Húðhiti geirvörtubaugs er 0.5°C lægri en brjóstsins til þess að hjálpa barninu að finna geirvörtuna (Odent, 2003). Ný rannsókn Widström o.fl. (2011) hefur greint ferli nýfædds barns í 9 þrep, frá fæðingu þar til það sofnar í fyrsta sinn. Þessi stig eru 1) fæðingargráturinn, 2) slökun u.þ.b. 2 mín eftir fæðingu, 3) vaknar upp u.þ.b. 2 ½ mín eftir fæðingu, 4) hreyfir sig u.þ.b. 8 mín eftir fæðingu, 5) hvíld u.þ.b. 18 mín frá fæðingu, 6) mjakar sér að brjóstinu u.þ.b. 36 mín eftir fæðingu, 7) kynnir sér brjóstið og sleikir það u.þ.b. 43 mín eftir fæðingu 8) grípur brjóst að meðaltali 62 mín eftir fæðingu og að lokum, 9) svefn. Barnið tekur sér góðan tíma í sjöunda. þrepið og sleikir og kannar brjóstvörtuna þar til það grípur brjóstið allt í einu. Ýmislegt bendir til þess að við höfum vanmetið hlutverk handa nýburans við að koma sér á brjóst. Nýburinn notar munninn til að leita að brjóstvörtunni, allan líkamann til að komast að brjóstinu og hendurnar til að hjálpa sér við að grípa brjóstið. Í stað þess að halda höndum nýburans frá andliti hans ætti að leyfa honum að nota þær til að hjálpa sér við að taka brjóst. Haka nýburans og/eða kinn hans verður að snerta brjóstið. Einnig gengur honum betur að taka brjóstið þegar um þétta snertingu er að ræða við brjóstið, eins og gerist þegar hann er á maganum. Þegar nýburinn sýgur hendurnar sínar í tilraun sinni til að ná brjóstvörtunni þá gerir hann það til að róa sig og aðeins tímabundið áður en hann gerir aðra tilraun til að grípa brjóstvörtuna. Það þarf að sýna nýfæddu barni mikla þolinmæði, bæði við fyrstu brjóstagjöfina og þær sem á eftir koma (Watson-Genna, 2010). Þessa þolinmæði þarf að varðveita eða koma á sem góðum starfs- háttum ljósmæðra og stofnana. Hefji nýfætt barn sjálft leitina að brjóstvörtunni þá styður það við brjóstagjöf með sameiginlegum og flóknum skynörvunum hjá móður og barni. Hins vegar er auðvelt að trufla þetta viðkvæma ferli, hjá öllum spendýrum, með íhlutun af hvaða tagi sem er (Bergman, 2005). Það er mikilvægt að gefa móður og barni tíma til þess að barnið geti hafið ferð sína að brjóstinu og komist á brjóst af sjálfsdáðum. Það eykur farsæld og lengd brjóstagjafar. Aðskilnaður eftir 15-20 mínútur til að mæla barnið og klæða það truflar mjög þessa fyrstu brjóstagjöf (Righard og Alade, 1990). Sumir fræðimenn hafa fært rök fyrir því að fái barnið tækifæri til að komast á brjóst af sjálfsdáðum hafi það áhrif á mikilvæga þroskaþætti síðar í lífinu sem tengjast sjálfstill- ingu eða sjálfstjórn (e. self-regulation). Það eru atriði eins og líkamleg heilsa, vímuefnaneysla, fjármál (e. personal finances) og sakaferill (e. criminal offending outcomes) (Widström o.fl., 2011). Aðrir telja að brjóstagjöf hljóti alltaf að vera samvinna milli móður og barns (Colson, 2010) og ekki má gleyma ríkjandi viðhorfi, að brjóstagjöf sé mál móðurinnar, hún leggi barnið á brjóst, beri ábyrgð á brjóstagjöfinni og sé þar með við stjórnvölinn (Glover, 2007). Sé ekki kostur á húð við húð snertingu við mæður strax eftir fæðingu er faðirinn mjög mikilvægur. Börn sem fá húð við húð Upphaf brjóstagjafar: Er það eingöngu mál móðurinnar eða er það einnig mál barnsins? Hulda Sigurlína Þórðardóttir ljósmóðir á Fæðingardeild Landspítala F R Æ Ð I G R E I N

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.