Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 30

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 30
30 Ljósmæðrablaðið - desember 2011 Gæðaverkefni á Landspítala: Fækkum 3. og 4. gráðu spangarrifum við fæðingar Það er mikilvægt að fylgjast reglulega með útkomuþáttum í klínísku starfi og reyna að bæta útkomu þegar fyrir liggja upplýsingar um aðferðir sem geta gagnast til þess. Þegar skoðuð er tíðni 3. og 4. gráðu spangarrifa á Landspítala kemur í ljós að hún er nú um 6%, en það er hærra en á hinum Norður- löndunum. Í Noregi hefur náðst einstakur árangur á 4 sjúkrahúsum í því að lækka tíðni 3. og 4. gráðu spangarrifa úr 4-5% niður í 1-2% með innleiðingu á breyttu vinnulagi við fæðingar (Hals o.fl., 2010). Í ljósi hárrar tíðni á Landspítala og góðs árangurs í Noregi var ákveðið að hrinda af stað gæðaverkefni með það að markmiði að fækka 3. og 4. gráðu spangarrifum. Ákveðið var að fara í sams- konar átak og farið var í Noregi og fá Norð- menn til liðs við okkur. Undirbúningur verk- efnisins hófst í janúar og þjálfun starfsfólks hófst í lok október. Gæðaverkefnið felur í sér að innleiða gamla aðferð sem víða var notuð við barnsfæðingar á árum áður en hefur smám saman lagst af á Norðurlöndunum, nema í Finnlandi. Í þessari gömlu aðferð er ákveðnum handtökum beitt sem gerir okkur kleift að veita góðan stuðning við spöng og koll, því er mikilvægt er að konan fæði í stellingu sem gefur færi á að sjá og halda við spöngina. Einnig er lögð áhersla á góð samskipti milli þess sem tekur á móti barninu og konunnar sem er að fæða til að hægt sé að leiðbeina konunni með að hætta að rembast þegar kollurinn er að fæðast. Handtökin kannast margir við en hvernig þeim er beitt og hvernig konunni er leiðbeint kann að vera frábrugðið því sem við eigum að venjast. Ætlunin er svo að mæla árangur af breyttu vinnulagi og hvort hægt verði að ná svipuðum árangri hér og í Noregi, þannig að verkefnið er bæði gæðaverkefni og rannsókn. Enn fremur verður skráning bætt í því skyni að hægt verði að aðgreina betur 3. gráðu rifur, greina áhrif einstakra þátta aðferðarinnar, áhrif líkams- þyngdarstuðuls kvenna, áhrif fæðingarþyngdar barna og áhrif fæðingarstellinga. Sá árangur sem Hals o.fl. (2010) hafa náð í Noregi sýnir að með innleiðingu á þessari gömlu aðferð má lækka verulega tíðni alvarlegra spangarrifa. Gera má ráð fyrir því að aðstæður á Land- spítala séu líkar aðstæðum í Noregi nema hvað meðalfæðingarþyngd barna á Íslandi er heldur hærri eða um 3.800 g en um 3.500 g á þeim stöðum sem hafa innleitt handtökin í Noregi. Miðað við sama fjölda fæðinga og óbreytta tíðni spangarrifa má gera ráð fyrir að 150-170 konur hljóti slíkan skaða árlega, í stað 40-50 kvenna ef hægt væri að lækka tíðnina í 1,5%. Verkefnið hefur því mikla þýðingu fyrir fæðandi konur því 30-50% kvenna sem fá 3. eða 4. gráðu rifur geta átt við langvarandi vanda að stríða vegna þess, s.s. hægðaleka, loftleka, truflun á kynlífi og andlega vanlíðan (Hals o.fl., 2010; RCOG, 2007). Töluverð fjárhagsleg hagræðing ætti að nást með því að fækka 3. og 4. gráðu spangarrifum því slíkar rifur krefjast viðgerðar í deyfingu eða svæfingu á skurðstofu fljótlega eftir fæðingu og margar konur þurfa frekari meðferð síðar á ævinni. Verkefnið hófst í lok október og á innleiðingu að vera lokið fyrir árslok 2011. Á þessu tímabili munu allar ljósmæður og allir læknar sem starfa við fæðingar á Landspítala fá þjálfun í þeim handtökum sem reynst hafa svo vel í Noregi og Finnlandi. Jouko Pirhonen og Elisabeth Hals komu hingað til lands í lok október til að koma verkefninu af stað. Jouko er finnskur fæðingarlæknir sem hefur starfað í Noregi og Elisabeth Hals er ljósmóðir sem starfar í Lillehammer. Þau hafa bæði reynslu af innleiðingu handtakanna í Noregi. Jouko dvaldi hér í einn sólarhring og hélt fyrirlestra fyrir ljósmæður og lækna en Elisabeth dvaldi hér í 4 vikur og einbeitti sér að verklegri þjálfun ljósmæðra og lækna. Stofnaður var svokallaður spangarhópur sem samanstendur af 6 ljósmæðrum af fæðingargangi, 3 ljós- mæðrum úr Hreiðri og 2 fæðingarlæknum. Þessi hópur fékk meiri þjálfun en aðrir og fékk það hlutverk að halda kennslu og þjálfun áfram eftir að Elisabeth snéri aftur til Noregs. Undirrituð er verkefnisstjóri verkefnisins en ég stunda nú sérfræðistarfsnám fyrir ljós- mæður á Landspítala. Verkefnið nýtist vel sem liður í því námi og fellur vel að mark- miðum þess. Auk undirritaðrar vinna eftir- farandi starfsmenn Landspítala að verkefninu: Berglind Steffensen, fæðingar- og kven- sjúkdómalæknir, Gróa Margrét Jónsdóttir, ljós- móðir og gæðastjóri á Kvenna- og barnasviði og Reynir Tómas Geirsson, prófessor/ yfirlæknir. Rannsóknin hefur fengið leyfi Siðanefndar Landspítala og Persónuverndar. Anna Sigríður Vernharðsdóttir Heimildir Hals, E., Øian, P., Pirhonen, T., Gissler, M., Hjelle, S. Nilsen, E.B. ofl. (2010) A Multicenter Interventional Program to Reduce the Incidence of Anal Sphincter Tears. Obstetrics & Gynecology, 116(4), bls. 901-908. Royal College of Obstetrician and Gynaecologists (2007). The Management of Third and Fourth Deegree Perineal tears. Green-top Guideline No. 29. RCOG Press: London. Jouko og Elisabeth sýna hvernig hægt er að nota handtökin við sogklukkufæðingu.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.