Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 35

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 35
35Ljósmæðrablaðið - desember 2011 Heilbrigðisstofnun Suðurlands Um áramótin 2009-2010 urðu miklar breytingar á starfsemi fæðingadeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu). Vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu var lögð niður vaktþjónusta fæðinga- skurð- og svæfingalækna við stofnunina. Miklar umræður spunnust innan stofnunarinnar sem utan, hvort verjandi væri að halda úti fæðingaþjónustu við breytt þjónustustig stofnunarinnar. Ljós- mæður HSu voru einhuga um það að halda skyldi úti fæðingarþjónustu þrátt fyrir að vaktir lækna hafi verið aflagðar. Farið var út í mikla vinnu við að undir- búa þessa breytingu og haldnir voru fundir innan ljósmæðrahópsins til að halda öllum upplýstum og skipuleggja. Farið var í saumana á plaggi Land- læknisembættisins um Val á fæðingastað og þjónustan skipulögð með það sem viðmið. Haldnir voru fundir með yfirmönnum deilda fæðinga- og kvennasviðs Land- spítala þar sem undirbúin var samvinna milli sjúkrahúsana. Ljóst var að náin samvinna yrði að vera milli ljósmæðra á HSu og starfsfólks fæðinga- og kvennadeildar Landspítala þar sem hún er okkar bakhjarl. Rétt fyrir áramótin 2009-2010 var svo formlega undir- ritaður samningur á milli stofnanana um samstarf. Í stuttu máli sagt hefur það samstarf gengið mjög vel. Hópur þeirra kvenna sem áttu þess kost að fæða á HSu eftir breytingar minnkaði, þar sem allar áhættufæðingar fluttust yfir á Landspítala. Skilyrði fyrir því að fæða á fæðingastað sem flokkaður er sem D1 fæðingastaður, eins og HSu er í dag, eru eftirfarandi: • Fyrirfram ákveðið og upplýst val konu. • Hraust kona, eðlileg meðganga, 37-42 vikur og sjálfkrafa sótt. • Ekki fyrirsjáanleg vandamál í fæðingunni. • Ljósmóðir og/eða læknir til staðar sem vill taka að sér fæðingar og hafa þjálfun og færni í fæðingahjálp (Landlæknisembættið, 2007). Þetta breytingarferli hefur að sjálfsögðu ekki eingöngu verið dans á rósum, langt frá því og hefur það verið snúið og erfitt á köflum. Það sem hefur verið erfiðast í ferlinu er óvissan um það hvað verður. Ekki hefur verið gefin út nein stefnumörkun er varðar fæðingaþjónustu í landinu og engin veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Einnig er óvissa um það hvort konur og fjölskyldur þeirra séu sáttar við þjónstuna á HSu og muni nota hana í framtíðinni. Einn mesti kosturinn í þessu breytingarferli var sá að ljós- mæðrahópurinn á HSu var einhuga um að láta þessar breytingar ganga upp og það held ég að hafi skipt sköpum í þessu ferli. Ýmsar fleiri breytingar hafa átt sér stað á fæðingadeildinni þar sem þurft hefur að hagræða og samnýta starfskrafta innan stofnunarinnar. Í febrúar eftir að breytingin varð á fæðingadeildinni tóku ljósmæðurnar að sér að vera með hjúkrunarvakt á öldrunardeildum HSu sem eru tvær með samtals 40 skjól- stæðingum. Um áramótin síðustu varð svo róttæk breyting á mæðravernd innan HSu þar sem öll mæðravernd á heilsugæslustöðinni á Selfossi var flutt á fæðingadeildina þar sem ljósmæður á vakt sinna mæðravernd. Einnig tók undirrituð við yfirumsjón allrar mæðraverndar innan HSu, sem sinnt er á fjórum heilsugæslu- stöðvum utan fæðingadeildarinnar, og sér um skipulagningu á henni. Eins og áður sinnum við einnig yfirgripsmikilli göngudeildarþjónustu og símaþjónustu. Á göngudeildinni sinnum við bæði konum í eðlilegri meðgöngu og áhættumeðgöngu og þá í samvinnu við fæðingalækna á Landspítala. Nú eru liðin tæplega tvö ár síðan breytingin var gerð og fyrsta árið fæddu hjá okkur 97 konur en höfðu fætt hjá okkur 165 konur árið áður. Svipaður fjöldi kvenna hefur svo fætt á HSu það sem af er árinu 2011 eins og á sama tíma árið 2010. Árið 2010 þurfti að flytja 16 konur sem byrjaðar voru í fæðingu og 6 konur voru fluttar eftir fæðingu vegna fastrar fylgju eða vegna þess að þær hlutu 3°rifu. Tvö börn voru flutt á vökudeild, eitt sem var 26 vikna fyrirburi og fæddist óvænt á HSu og hitt var barn sem fæddist á heilsugæslustöðinni í Þorlákshöfn. Við teljum að það hafi gengið mjög vel og sú flokkun sem við förum eftir virki, flutningstíðni er svipuð og gerist á sambærilegum stofnunum annars staðar í heiminum. Að sjálfsögðu myndum við ljós- mæðurnar á HSu kjósa að geta þjónustað stærri hóp kvenna í fæðingu og haft áfram sólahringsvaktir sérfræðilækna en þar sem því er ekki að heilsa þá erum við mjög ánægðar að geta haldið úti fæðingaþjónustu fyrir konur í eðlilegri meðgöngu og sængurlegu. Þegar þetta er skrifað þá hafa fjárlögin fyrir árið 2012 verið lögð fram og ljóst að enn þarf að skera niður en það er von okkar ljósmæðra á HSu að sú þjónusta sem við bjóðum uppá hafi sannað sig og fái náð fyrir augum yfirboðaranna og fái að lifa og dafna um ókomna framtíð. Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir HSu Heimild: Landlæknisembættið (2007). Leiðbeiningar um val á fæðingarstað. Sótt 5. apríl 2008 af http://www. landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3304. Sigrún með nýbura í fanginu

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.