Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 8

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 8
8 Ljósmæðrablaðið - júní 2016 INNGANGUR Á síðustu öld urðu miklar breytingar á barneignarþjónustu, ýmis tækni varð til og læknar fóru að sérhæfa sig í fæðingarfræðum (Odent, 2009). Í kjölfar þess færðist fæðingarstaður í hinum vest- ræna heimi að miklu leyti frá heimili á sjúkrahús. Á Íslandi fækkaði heimafæðingum smátt og smátt frá miðri öldinni og voru varla til staðar um 1990 en fór þá fjölgandi á ný og hefur tíðni þeirra verið um 2% allra fæðinga á Íslandi síðustu ár (Landlæknisembættið, 2014). Önnur stór breyting sem varð um allan heim er þátttaka feðra sem var sjaldséð fram á síðari hluta tuttugustu aldar. Þegar feður fóru að vera viðstaddir fæðingu barna sinna varð það fljótt að nánast undantekningarlausri venju (Odent, 2009). Þrátt fyrir að feður taki virkan þátt sýna rannsóknir að meðgönguvernd og önnur þjónusta í kringum barneignarferlið er fyrst og fremst sniðin að mæðrum (Steen, Downe, Bamford og Edozien, 2012). Reynslu feðra af barneignarferlinu, sem hefur mest verið skoðuð með eigindlegum viðtölum, er lýst sem hlutverkatogstreitu á milli þess að vera maki og foreldri, að styðja konu sína en taka tillit til eigin skoðana, bæði er kemur að upplifun af fæðingunni og vali á fæðingarstað (Bedwell, Houghton, Richens og Lavender, 2011; Lindgren og Erlandsson, 2011; Longworth og Kingdon, 2011; Steen o.fl., 2012). Í heilbrigðiskerfi þar sem meðgönguvernd og þjónusta í fæðingu og sængurlegu er sniðin að mæðrum upplifa feður sig utanveltu (Helga Gottfredsdóttir, 2005; Steen o.fl., 2012). Í kerfis- bundnum samantektum rannsókna á reynslu feðra kemur fram að feður vilja taka fullan þátt í ferlinu og styðja maka sinn (Johansson, Fenwick og Premberg, 2015; Steen o.fl., 2012). Þeir upplifa að þeir eigi hvergi heima í þjónustunni í barneignarferlinu og séu á óræðum stað bæði tilfinninga- og líkamlega með þeim afleiðingum að margir upplifa óvissu, útilokun og ótta (Steen o.fl., 2012). Þrátt fyrir að flestir feður vilji vera viðstaddir fæðingu barna sinna eru sumir hikandi og eru við fæðinguna vegna væntinga annarra (Johansson o.fl., 2015). Í fyrirbærafræðilegri rannsókn Longworth og Kingdon (2011) þar sem viðtöl voru tekin við 11 feður, fyrir og eftir fæðingu, kom fram að feðurnir treystu heilbrigðisstarfsfólki betur fyrir fæðinguna en eftir fæðinguna. Þeir voru á hliðarlínunni, fylgdust vel með öllu án þess að vera virkir þátttakendur. Fleiri rannsóknir hafa sýnt að algengt er að feður fari í hlutverk áhorfanda eða hlutverk málsvara við fæðingu. Fyrir fæðingu bera þeir traust til eigin getu og maka síns til þess að takast á við fæðinguna og treysta á stuðning heil- brigðisstarfsmanna en þegar líður á fæðingu finnst körlum erfiðara að styðja konu sína en þeir áttu von á (Johansson o.fl., 2015). Í íslenskri rannsókn þar sem viðtöl voru tekin við 15 verðandi feður með rýnihópum lýstu þeir kvíða og áhyggjum á meðgöngunni, þeir upplifðu sig á hliðarlínunni og að þeir hefðu ekki stjórn á aðstæðum. Þeir töldu bæði hlutverk sitt óljóst og hvers væri vænst af þeim og sáu hlutverk sitt fyrst og fremst sem stuðningsaðila við móðurina (Helga Gottfredsdóttir, 2005). Fæðing er tilfinningahlað- inn atburður fyrir feður, margir upplifa kvíða en jákvæðar tilfinn- ingar eru yfirleitt sterkari þar sem margir lýsa fæðingunni sem bestu stund lífs síns (Johansson o.fl., 2015). Ljósmæðraþjónusta hefur áhrif á upplifun feðra. Í sænskri rann- sókn skoðuðu Hildingsson, Cederlöf og Widén (2011) þá þætti ljósmæðraþjónustu sem tengdust jákvæðri fæðingarupplifun feðra með spurningalista sem 595 feður svöruðu. Í ljós kom að mikill meirihluti feðranna (82%) tjáði jákvæða fæðingarupplifun. Þeir þættir í ljósmæðraþjónustu sem höfðu sterkust tengsl við jákvæða upplifun voru stuðningur, viðvera og upplýsingar um gang fæðingar. Í annarri spurningalistakönnun þar sem borin var saman reynsla mæðra (n=200) og feðra (n=200) gáfu niðurstöður til kynna að foreldrarnir upplifi flest atriði fæðingar með svipuðum hætti. Feður tjáðu þó minni ánægju með stuðning og umönnun í fæðingunni en mæður (Bélanger-Lévesque, Pasquier, Roy-Matton, Blouin og Pasquier, 2014). Feður þurfa stuðning og undirbúning til þess að geta stutt maka sinn og öðlast jákvæða reynslu af barneignarferlinu og föðurhlut- verkinu (Johansson o.fl., 2015; Steen o.fl., 2012). Þegar feður upplifa að samband við ljósmæður einkennist af samvinnu, þá upplifa þeir meiri getu til að styðja maka sinn og gera gagn í fæðingunni. Það að upplifa að vera virkir þátttakendur í fæðingunni og ná að veita konu sinni stuðning eru lykilþættir í jákvæðri upplifun feðra (Hildings- son o.fl., 2011; Johansson o.fl., 2015). Þetta er í samræmi við líkan um ljósmóðurþjónustu í fæðingu sem hefur verið þróað í Svíþjóð og á Íslandi. Áhersla er á að ljósmóðir myndi gagnkvæmt samband við konu og maka hennar þar sem hún skilur og virðir óskir þeirra og samvinna ríkir. Ljósmóðir á sjúkrahúsi þarf að leggja sig meira fram til þess að ná að skapa fæðingarumhverfi sem einkennist af ró, trausti og öryggi en heima. Þegar heimilið er valið sem fæðingar- staður er umhverfið styðjandi og samfella í þjónustu ljósmóður auðveldar henni að veita foreldrum stuðning á árangursríkan hátt (Berg, Ólafsdóttir og Lundgren, 2012). Þegar fæðingarstaður er ákveðinn vilja verðandi feður vernda

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.