Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 9

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 9
9Ljósmæðrablaðið - júní 2016 konu sína, flestir hafa mikla trú á læknisfræðilegu umhverfi og skortur virðist vera á umræðu við þá um mögulega fæðingarstaði, en í breskri viðtalsrannsókn þar sem 19 feður tóku þátt stefndu allir feðurnir að sjúkrahúsfæðingu, án þess að það hefði verið rætt sérstaklega, og virtist það vera sjálfsögð ákvörðun. Viðhorf þeirra virtist vera að sjúkrahús fæli í sér öryggi og að það væri auðveldara fyrir þá að vera á sjúkrahúsi þar sem þeir nytu verndar starfsfólks (Bedwell o.fl., 2011). Þegar heimilið er valið sem fæðingarstaður er það gjarnan gert til að auðvelda fæðingaferlið. Þar er umhverfið kunnuglegt, verðandi foreldrar við stjórn og minni hætta á trufl- unum sem styður við lífeðlisfræðilegt ferli fæðingarinnar (Hadjig- eorgiou, Kouta, Papastavrou, Papadopoulos og Mårtensson, 2012; Jouhki, Suominen og Åstedt-Kurki, 2015; Lindgren og Erlandsson, 2011). Sjúkrahús er sá staður sem samfélagið gefur skilaboð um að sé hinn eðlilegi fæðingarstaður (Bedwell o.fl., 2011; Berg o.fl., 2012; Hadjigeorgiou o.fl., 2012; Lindgren og Erlandsson, 2011) og stundum veit fólk ekki af öðrum möguleikum eða á ekki annan raun- hæfan möguleika en sjúkrahúsfæðingu (Berg o.fl., 2012). Reynslu feðra af heimafæðingum hefur verið lýst í nokkrum rann- sóknum. Notaðar hafa verið eigindlegar aðferðir þar sem viðtöl hafa verið tekin við feður og þemagreind (Jouhki o.fl., 2015; Lindgren og Erlandsson, 2011; Sweeney og O´Connell, 2015). Lindgren og Erlandsson (2011) lýsa reynslu átta sænskra feðra sem ferli þar sem þeir fylgja konu sinni eftir frá ákvörðun um heimafæðingu. Lögð er áhersla á að þeir treysti konu sinni og vilji vera til staðar fyrir hana og geri það sem þarf til að hún upplifi öryggi og vellíðan. Jouhki og félagar (2015) lýsa reynslu finnskra feðra (n=11) þar sem meginþemað er að feðurnir deili ábyrgð og styðji konu sína. Áhersla Sweeney og O´Connell (2015) sem lýsa reynslu írskra feðra (n=8) er á ákvarðanatökuna um heimafæðinguna og hvernig feðurnir upplifa sig sem hluta af heild í fæðingunni sem þeir upplifa að breyti sér til framtíðar. Í öllum rannsóknunum voru dregnar fram vangaveltur um ákvörðunina um heimafæðingu sem var sumum feðrunum erfið. Upp komu meðal annars vangaveltur um öryggi, náttúrulegan gang fæðingar og viðhorf samfélagsins. Á Íslandi tók Guðlaug H. Björgvinsdóttir (2010) hálfstöðluð viðtöl við sex pör sem höfðu reynslu af heimafæðingu á Íslandi tengt forprófun á spurningalista rannsóknarinnar Heimafæðingar á Norðurlöndum (Blix o.fl., 2016; Hildingsson o.fl., 2015). Öll pörin höfðu fyrri reynslu af sjúkrahúsfæðingu. Foreldrarnir tjáðu allir ánægju með fæðinguna og að þeir myndu velja heimilið aftur sem fæðingarstað ef til frekari barneigna kæmi. Frumkvæði að heima- fæðingunni áttu mæðurnar og studdu feðurnir þá ákvörðun eftir að hafa kynnt sér málið. Í hugmyndafræði íslenskra ljósmæðra og stefnu Ljósmæðrafé- lags Íslands (2000) er litið á barneignarferlið sem ferli sem nær til fjölskyldunnar allrar og breyti lífi allra innan hennar. Það að veita upplýsingar og að styðja konur og fjölskyldur þeirra í að taka virkan þátt í allri ákvarðanatöku í barneignarferli er meðal megin hlutverka ljósmæðra samkvæmt Alþjóðasiðareglum ljósmæðra (International Confederation of Midwives (ICM), 2008). Því er mikilvægt að upplýsingar og umræða eigi sér stað við bæði mæður og feður á þeirra forsendum til þess að hægt sé að styðja við upplýstar ákvarðanir. Í dag er nánast gengið út frá því að feður séu viðstaddir fæðingu barna sinna og séu þátttakendur í barneignarferlinu öllu. Til þess að geta komið til móts við þarfir þeirra er mikilvægt að bæta við þekkingu um reynslu feðra af barneignarferlinu og fæðingar- stað. Tilgangur þessarar rannsóknar er að skoða og dýpka skilning á reynslu feðra af heimafæðingu. Rannsóknarspurningin er: Hver er reynsla feðra af heimafæðingu? AÐFERÐIR Þessi rannsókn er hluti rannsóknarinnar Heimafæðingar á Norð- urlöndum sem er samnorræn rannsókn þar sem horft er til ýmsa þátta er lúta að útkomu heimafæðinga og reynslu af þeim. Sú rann- sókn var með lýsandi sniði þar sem spurningalistum var svarað á veraldarvefnum. Leitað var eftir þátttöku allra sem höfðu skipulagt heimafæðingu á ákveðnu tímabili á Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Fyrir íslenska hluta rannsóknarinnar var tímabilið fjögur ár eða allar skipulagðar heimafæðingar árin 2010‒2013 (Blix o.fl., 2016; Hildingsson, o.fl. 2015). Notaðir voru spurningalistar sem voru þróaðir á sænsku og þýddir yfir á íslensku (Guðrún Huld Kristinsdóttir, 2010) og síðan forprófaðir (Guðlaug H. Björgvins- dóttir, 2010). Upplýsingar og spurningalistar eru aðgengilegir á heimasíðu rannsóknarinnar (http://www.nordichomebirth.com). Í þessari rannsókn var notuð eigindleg aðferð eins og jafnan er gert til þess að rannsaka félagsleg fyrirbæri og gjarnan reynslu í eigin umhverfi (Sigurlína Davíðsdóttir, 2013). Innihaldsgreining (e: content analysis) var notuð til þess að greina svör 65 íslenskra feðra við opinni spurningu á spurningalista rannsóknarinnar Heima- fæðingar á Norðurlöndum, spurningunni: Viltu lýsa reynslu þinni af heimafæðingunni með eigin orðum? Gögnin voru lesin yfir, kóðuð og flokkuð í þemu (Elo og Kyngäs, 2007). Til þess að fá meiri dýpt í niðurstöðurnar voru, með tilgangsúrtaki, einnig tekin djúpviðtöl við tvo feður með reynslu af heimafæðingu frá því fyrir 6 mánuðum til tveggja ára, þar sem fyrirbærafræðilegri aðferð, sem kennd er við Vancouver, var beitt (Sigríður Halldórsdóttir, 2013). Öllum foreldrum sem skipulögðu heimafæðingu á Íslandi á árunum 2010‒2013, að báðum árum meðtöldum, bauðst að taka þátt í samnorrænu rannsókninni. Úrtak í samnorrænu rannsókninni var allt þýðið eða allir feður sem tóku þátt í skipulagðri heimafæðingu á tímabilinu 2010‒2013. Þar sem heimafæðingar á Íslandi eru skráðar eftir því hvar fæðing á sér stað en ekki eftir vali á fæðingarstað, þá er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hve margir eru í þýði en á þessum fjórum árum eru skráðar heimafæðingar á Íslandi 360 (Landlæknisembættið, 2014). Leitast var við að ná til sem flestra með því að fá ljósmæður sem sinna heimafæðingum á Íslandi til samstarfs, og upplýsingar um alla sem þær sinntu voru fengnar frá þeim. Upplýsingar fengust um 372 fæðingar þar sem 344 konur og makar fengu upplýsingar um rannsókn, í þeim tilfellum sem maki var til staðar. Kynningarbréf var sent til þeirra sem höfðu hafið fæðingu heima árið 2010 og fyrri hluta árs 2011, eftir á. Frá síðari hluta 2011 voru flestar ljósmæður sem sinna heimafæðingum með kynningarbréf og afhentu foreldrum í kringum fæðingartímann. Þeir sem ekki voru íslenskumælandi voru útilokaðir auk þess sem nokkur pör höfðu flust búferlum og upplýsingar fengust ekki um nýtt heim- ilisfang. 94 makar tóku þátt í rannsókninni með því að svara spurn- ingalistanum. Réttmæti og áreiðanleiki Í fyrirbærafræðilega hlutanum var horft til þess að feðurnir hefðu ekki verið með sömu heimafæðingaljósmóður sem var viðleitni til að hafa breiddina í reynslunni meiri. Annar rannsakandinn (Ásrún) tók viðtölin og vann að fyrstu greiningu í fyrirbærafræðilega hlut- anum. Greiningarlíkön voru borin undir viðmælendur. Viðmælendur samþykktu greininguna með minniháttar athugasemdum um orða- lag. Rannsakendur unnu sitt í hvoru lagi að innihaldsgreiningu texta og báru saman og síðan við greiningarlíkön úr fyrirbærafræðilegum hluta. Niðurstöður beggja aðferða voru samsvarandi sem eykur jafn- framt réttmæti og áreiðanleika rannsóknarinnar. Rannsóknarsiðfræði Rannsóknin fékk leyfi vísindasiðanefndar (leyfi nr. 11‒031) og var tilkynnt til Persónuverndar. Haft var samband við feður sem höfðu gefið leyfi til þess að leitað yrði til þeirra vegna viðtala þegar þeir samþykktu þátttöku í samnorrænu rannsókninni. Rannsóknin var kynnt fyrir viðmælendum fyrirfram, tilgangur hennar, framkvæmd og hvernig niðurstöður yrðu kynntar og hverjir hefðu aðgang að þeim. Þátttakendur veittu upplýst samþykki. Metið var að líkamleg áhætta væri ekki til staðar en þátttakan gæti mögulega valdið tilf- inningaróti vegna slæmrar fæðingarreynslu. Ef svo væri var bent á þjónustu Landspítala sem kallast Ljáðu mér eyra auk þess sem rann- sakendur buðust til að aðstoða einstaklinga við að leita sér aðstoðar hjá viðurkenndum aðilum.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.