Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 10

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 10
10 Ljósmæðrablaðið - júní 2016 NIÐURSTÖÐUR Íslenskum spurningalistum samnorrænu könnunarinnar svöruðu 94 feður. 29 þeirra voru að eignast sitt fyrsta barn en 65 þeirra áttu börn fyrir. Af þeim sem áttu börn fyrir hafði mikill meirihluti feðranna reynslu af sjúkrahúsfæðingu með fyrra barn eða börn, eða um 70% þeirra. 97,8% voru í sambúð (ýmist kvæntir eða ekki), 60,7% höfðu einhverja háskólamenntun og 88 gáfu upp fæðingarár og skiptist það eins og sjá má á mynd 1. Af þeim 94 sem taka þátt eru 65 sem svara opnu spurningunni um reynslu af fæðingunni sem er hér greind í þemu. Sumir nota örfá orð til að svara en aðrir koma með smásögur. Feðurnir tveir sem tekin voru viðtöl við með fyrirbærafræðilegu aðferðinni áttu báðir barn/ börn fyrir og höfðu reynslu af sjúkrahúsfæðingu með þau. Þeir voru báðir á aldrinum 30‒40 ára þegar heimafæðingin átti sér stað og höfðu einhverja háskólamenntun. Bakgrunnsupplýsingar voru ekki þekktar þegar haft var samband við þá, einungis að fæðingin hefði átti sér stað á síðustu 6‒24 mánuðum og hvaða ljósmóðir var viðstödd. Í viðtölunum kom fram að annar þeirra hafði svarað spurn- ingalistanum en hinn hafði ekki gert það. Meginþemað sem greint var er eftirfarandi: Heimafæðing er vel ígrunduð ákvörðun verðandi foreldra sem leiðir til jákvæðrar upplif- unar föður af fæðingarferlinu. Það skiptist í tvö yfirþemu sem eru ígrunduð ákvarðanataka og frábær upplifun sem hafa hvort um sig nokkur undirþemu (sjá mynd 2). Vísað er til þátttakenda með númeri spurningalista (1‒65). Feðurnir sem lýsa reynslu sinni í djúpvið- tölunum fá hér nöfnin Ari og Baldur sem eru ekki þeirra réttu nöfn. Ígrunduð ákvarðanataka Þegar feður eru beðnir um að lýsa reynslu sinni af heimafæðingu í spurningalistanum virðast þeir horfa á það sem ferlið frá ákvörðun og þar til fæðingin er afstaðin. Margir minnast á ákvörðunina, annað- hvort ákvarðanatökuna eða að þetta hafi verið rétt ákvörðun (1, 8, 12, 13, 14, 22, 24, 28, 45). Sumir lýsa því hvernig þeir lásu bækur eða vísindagreinar um fæðingarferlið og/eða öryggi heimafæðinga (1, 12, 28). Ákvörðunin um heimafæðingu virðist hafa verið vel ígrunduð sameiginleg ákvörðun beggja foreldra (1, 8, 12, 13, 14, 20, 28). Í upphafi voru þó ekki allir feður hrifnir af hugmyndinni um heimafæðingu en aðrir höfðu frumkvæði að heimafæðingu. Einu neikvæðu tilfinningarnar sem feður lýsa í skrifum sínum er að finna hjá þeim sem voru smeykir við heimafæðingu til að byrja með en þeir lýsa samt góðri upplifun af fæðingunni að henni afstaðinni. Einn lýsir því að hann hafi verið neikvæður gagnvart heimafæðingu og segist ávallt hafa verið stressaður við fæðingu barna sinna en heima hafi hann verið rólegur og liðið vel (23). Í viðtölunum lýstu Ari og Baldur því hvernig þeir hafi farið yfir kosti og galla ásamt konu sinni. Ákvörðunin er tekin af yfirvegun og er talin hluti af reynslunni af fæðingunni. Fjölmargir þættir koma inn í ákvarðanatökuna en þeir horfa meðal annars til fræða um fæðingar og leita sér upplýsinga hjá heilbrigðisstarfsmönnum og vinum auk þess sem þeir byggja á fyrri reynslu. „Þegar farið var að vega og meta kosti og galla þess að vera á sjúkrahúsi eða heima og eftir að hafa þekkt sjúkrahúsið aðeins þá kom heimafæðingin sterkari inn“ (Baldur). Fyrri reynsla af fæðingu Margir feðurnir horfa til fyrri reynslu af fæðingum. Algengt er að bera heimafæðinguna saman við fyrri sjúkrahúsfæðingar þegar þeir lýsa reynslu sinni af heimafæðingunni en margir hafa fyrri reynslu af sjúkrahúsfæðingu. Í samanburðinum leggja þeir áherslu á kosti heimafæðingarinnar. Helst nefna þeir það að þekkja ljósmóðurina og fá samfellda þjónustu í gegnum barneignarferlið, auk þess sem þeir nefna kosti þess að vera í eigin umhverfi og þurfa ekki að ferðast neitt í eða eftir fæðinguna (1, 3, 10, 11, 17, 21, 30, 36, 43, 53, 56, 60). Þrátt fyrir að það komi ekki oft fram í textunum með beinum hætti að fyrri reynsla hafi áhrif á ákvarðanatökuna er oft ýjað að því (5, 10, 11, 12, 17, 21, 30, 32, 36, 43, 46, 60). Aðeins einn nefnir galla við heimafæðinguna í samanburði við sjúkrahúsfæðingu þar sem hann nefnir að þrif eftir fæðingu lendi ekki á foreldrum á sjúkrahúsi (51). Í viðtölunum kom fram að fyrri reynsla hefur mikil áhrif þegar heimafæðing er ákveðin. Að hafa verið við fæðingu sem gengur vel gerir það að verkum að þeir hafa trú á því að fæðingin geti gengið vel og finnst þeir vita út í hvað þeir eru að fara. Slæm reynsla af fæðingu á sjúkrahúsi, sérstaklega af vaktaskiptum, samskiptum og regluverki innan stofnunar ýtir líka undir að heimafæðing sé valin. Vilji til þess að hafa stjórn á ferlinu Það að ráða því hver er viðstaddur fæðinguna og fá ekki einhvern óvænt inn skiptir máli. Það að geta lýst óskum sínum varðandi fæðinguna fyrirfram og treysta því að þær séu virtar án þess að þurfa að rökræða þær í fæðingunni eru þættir sem feður hafa í huga við ákvarðanatökuna (Ari og Baldur). Í innihaldsgreiningunni er þetta ekki eins áberandi og í viðtölunum og fáir nota orðin að vera við stjórn (22, 43) en margir lýsa þessu þó með öðrum orðum. Þeir nefna endurtekið að hafa hlutina eftir eigin höfði og ráða hverjir eru viðstaddir (1, 2, 4, 10, 12, 21, 22, 24, 32, 36, 43, 47, 56, 64). Og eftir svona „discussionir“ með móðurinni um hvaða aðstæður gætu skapast á sjúkrahúsinu. Hvað gæti haft neikvæð áhrif á hennar líðan og svona. Fólk rápandi inn og út og þess háttar. Heima yrði mun auðveldara að stjórna því öllu saman (Baldur). Öryggi Í textunum má endurtekið finna umræðu um öryggi í fæðingunni með setningum eins og „ég var öruggur,“ „mér leið vel“ eða „á öruggum stað.“ Feðurnir lýsa því hvernig þjóðfélagið horfir til sjúkrahúsa Mynd 1. Fjöldi feðra sem tók þátt í samnorrænu könnuninni eftir fæðingarárum. Mynd 2. Yfirlit yfir þemu. Heimafæðing er vel ígrunduð ákvörðun verðandi foreldra sem leiðir til jákvæðrar upplifunar föður af fæðingarferlinu Ígrunduð ákvarðanataka Frábær upplifun Fyrri reynsla af fæðingu Vilji til þess að hafa stjórn á ferlinu Öryggi Fordómar samfélagsins Virkir þátttakendur Fjölskylduatburður Traust á ljósmóður og persónulegt samband

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.