Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 16

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 16
16 Ljósmæðrablaðið - júní 2016 fyrir því liggja mismunandi ástæður (Cooke, Mills og Lavender, 2010). Fleiri eldri konur verða þungaðar í dag og eru konur einnig eldri þegar þær eignast sitt fyrsta barn. Þrátt fyrir að frjósemi fari minnkandi eftir aldri fresta margar konur barneignum sínum til að gefa menntun og starfi sínu forgang, finna fjárhagslegt öryggi og réttan lífsförunaut (Schytt, Nilsen, Bernhardt, 2014). Konur sem eiga í erfiðleikum með að verða þungaðar geta sótt sér aðstoðar við þungun með tæknifrjóvgun. Líklegt er að fleiri eldri konur verði þungaðar með utanaðkomandi aðstoð eins og tæknifrjóvgun sem er bæði tæknisæðing (IUI) og glasafrjóvgun (IVF) (Artmedica, 2015). Í dag eru barnshafandi konur á aldrinum 35 ára og eldri líklegar til að vera vel menntaðar (Carolan, 2003) hafa góða félagslega stöðu (Hammarberg og Clarke, 2005) og eiga færri börn (Carolan og Fran- kowska, 2010). Hækkandi aldur kvenna á meðgöngu er tengdur við aukna tíðni burðarmálsdauða og andvana fæðingu þrátt fyrir tilheyrandi meðhöndlun undirliggjandi sjúkdóma meðal barnshafandi kvenna (Fretts o.fl., 1995; Pasupathy, Wood, Pell, Fleming og Smith, 2011). Eldri konur fá sömu meðgöngukvilla og yngri konur en tíðni þeirra eykst með hækkuðum aldri kvenna. Algengustu vandamál á meðgöngu eru háþrýstingur og sykursýki sem bæði getur tengst meðgöngu eða verið undirliggjandi sjúkdómur hjá móður. Tíðni háþrýstings og sykursýki eykst með hækkandi aldri, sér í lagi hjá konum sem eru einnig í yfirþyngd (Fretts, 2015). Á Íslandi hefur þróunin verið á þann veg að árin 1986‒1990 var meðalaldur kvenna 27,6 ár en 20 árum síðar var hann 29,6 ár. Þá hefur meðalaldur frumbyrja einnig farið hækkandi en meðal- aldur var 23,7 ár á tímabilinu 1986‒1990 en var kominn í 26,7 ár 20 árum síðar (Hagstofa Íslands, 2015). Þegar rýnt er í gögn frá Hagstofu Íslands sem ná yfir 40 ára tímabil má sjá fjölgun fæðinga hjá 40‒45 ára konum. Í aldurshópnum 40‒45 ára fæddu konur 61 barn árið 1983, 103 börn árið 1993, 127 börn árið 2003 og árið 2013 fæddust 166 börn innan aldurshópsins, sjá mynd 1. Á sama tíma og fæðingum fer fjölgandi hjá þessum hópi kvenna má sjá mikla aukningu á frumbyrjum í hópnum, sjá mynd 2. Þessar tölur lýsa glöggt hvernig íslenskar konur hafa seinkað barneignum sínum (Hagstofa Íslands, 2015). Áhrif hækkandi aldurs kvenna á útkomu fæðingar Aukin tíðni inngripa er í fæðingum eldri kvenna (Carolan og Fran- kowska, 2011) og einnig eru áhaldafæðingar og keisaraskurðir algengari hjá þessum hópi kvenna (Carolan o.fl., 2011; Wang o.fl., 2011; Gilbert o.fl., 1999; Patel o.fl. 2005; Ecker o.fl., 2001; Smith o.fl., 2008; Treacy o.fl., 2006; Hsieh o.fl., 2010). Rannsóknum ber ekki saman um orsök aukinnar tíðni keisaraskurðar og áhalda- fæðingar meðal eldri kvenna en talið er að virkni legvöðvans skerðist með hækkuðum aldri kvenna (RCOG, 2013). Með hækkuðum aldri kvenna og aukinni meðgöngulengd er aukin hætta á óútskýrðum andvana fæðingum (Flenady o.fl., 2011b; Haavaldsen o.fl., 2010; Hilder o.fl., 1998; Nybo o.fl., 2000). Hækkaður aldur kvenna við meðgöngu er tengdur hærri tíðni burðarmálsdauða og andvana fæðingar þrátt fyrir tilheyrandi meðhöndlun undirliggjandi sjúkdóma (Fretts o.fl.,. 1995; Pasup- athy, Wood, Pell, Fleming og Smith, 2011). Svipuð tíðni andvana fæðingar er hjá konum 40 ára og eldri við 39 vikna meðgöngu samanborið við 25‒29 ára við 41 viku meðgöngu (Reddy o.fl., 2006; Wyatt o.fl., 2005). Hætta á andvana fæðingu hjá konum 35 ára og yngri við 41. viku meðgöngu er 0,75 af hverjum 1000 konum samanborið við 2,5 af hverjum 1000 konum 40 ára eða eldri (Reddy o.fl., 2006). Tengsl hækkandi aldurs kvenna og andvana fæðingar Huang o.fl. (2008) framkvæmdu yfirlitsrannsókn með það að markmiði að skoða tengsl hækkandi aldurs kvenna á meðgöngu við aukna hættu á andvana fæðingu. Rannsóknin náði yfir 37 rannsóknargreinar sem allar voru með háan gæðastuðul, samkvæmt gæðastigun Newcastle-Ottawa. Af þessum 37 rann- sóknum voru meira en 80% sem sýndu tölfræðilega marktæka hækkun á tíðni andvana fæðingar meðal kvenna með hækkandi aldri þeirra. Hlutfallslega aukin hætta meðal eldri kvenna ≥ 35 ára er 4,53 af hverjum 1000 fæðingum samanborið við 1,20 hjá yngri konum, 20‒34 ára. Rannsakendur ályktuðu einnig að orsök andvana fæðingar væri óljós og þörf væri á framtíðarrannsóknum (Huang, Sauve, Birkett, Fergusson og Walraven, 2008). Reddy o.fl. (2006) gerðu afturskyggða rannsókn í Ameríku og skoðuðu tengsl aldurs kvenna á meðgöngu við andvana fæðingar og tóku þar einnig mið af meðgöngulengd. Rannsóknin náði til yfir fimm milljón kvenna á tímabilinu 2001 til 2002, sem gengu með einbura og voru ekki með skráða þekkta galla hjá fóstri. Í rannsókninni var andvana fæðing (e. stillbirth) skilgreind sem dáið fóstur við 20 vikna meðgöngu eða meira. Flokkað var eftir aldri kvenna, yngri en 20 ára, 20‒24 ára, 25‒29 ára, 30‒34 ára, 35‒39 ára og 40 ára og eldri. Niðurstöður sýndu að meðal kvenna á aldrinum 35‒39 ára við 37.‒41. viku meðgöngu var hættan á andvana fæðingu 1 af hverjum 382 meðgöngum. Það er 1,32 sinnum hærri tíðni samanborið við konur yngri en 35 ára. Meðal Mynd 1. Samanburður á fjölda lifandi fæddra barna yfir 40 ára tímabil hjá konum á Íslandi við 40‒45 ára aldur (Hagstofa Íslands, 2015). Mynd 2. Fjöldi frumbyrja á aldrinum 40‒45 ára yfir 40 ára tímabil (Hagstofa Íslands, 2015). Tíðni andvana fæðingar meðal eldri kvenna eykst með aukinni meðgöngulengd.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.