Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 21

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 21
21Ljósmæðrablaðið - júní 2016 áfallaröskun meðal ljósmæðra og með því að vera meðvituð um sálfræðileg áhrif vinnunnar eru auknar líkur á að það geti hjálpað til við að efla og vernda andlega vellíðan (Leinweber og Rowe, 2010). Umhyggja yfirmanns gagnvart starfsmanni, hvetjandi, styðjandi og þægilegur starfsandi ásamt hvatningu fyrir vel unnin störf eru þættir sem taldir eru auka starfsánægju (Steinunn Hrafnsdóttir, 2004). Þeir sem hafa menntað sig til þeirra starfa sem þeir sinna og hafa valið starf vegna köllunar eru líklegri til að blómstra í starfi en þeir sem sinna störfum sínum á öðrum forsendum. Það að starfa við öryggi, áskorun, jákvæðni, fjölbreytni og ábyrgð í starfi er einnig mikilvægt ásamt því að eignast vini og kunningja í vinnu (Peterson, Park, Hall og Seligman, 2009). Hamingja á vinnustað eykur lífsgæði fólks, jafnt í einkalífi þess og í samfélagi við annað fólk. Það er mikilvægt að einstaklingar hafi ánægju af vinnunni sinni, finnist starfið hæfilega ögrandi og að starfið nýti og ýti undir notkun styrkleika einstaklingsins (Steger, Dik og Shim, 2009). Vellíðan í vinnu er líkleg til að hafa áhrif á það hvort einstaklingur helst í starfi (Fisher, 2010). Vertu upp á þitt besta Styrkleikar eru eftirsóknarverðir eiginleikar sem einstaklingar hafa og er einn af þeim þáttum sem jákvæð sálfræði leggur mikla áherslu á. Peterson og Seligman (2004) gerðu stóra rannsókn á sammann- legum styrkleikum í heiminum og nýttu þær niðurstöður við gerð VIA-styrkleikagreiningar sem er ein mest notaða aðferðin til að greina styrkleika í dag (Peterson, 2006). Ástæða er til þess að hvetja lesendur til þess að fara á heimasíðuna www.viacharacter.org og greina þar styrkleika sína án endurgjalds. Þar er einnig mikið af rann- sóknum sem tengjast þessu efni. Samkvæmt Clipton og Anderson árið 2001 getum við aukið innsæi í eigið líf, eflt sjálfstraust og aukið bjartsýni með því að þekkja og nýta styrkleika okkar (í Hefferon og Boniwell, 2011). Rannsókn sem gerð var árið 2011 á tengslum vellíðanar og notkunar styrkleika leiddi í ljós að þeir sem sögðust nota styrkleika sína meðvitað þróuðu með sér aukna vellíðan. Í þriggja og sex mánaða eftirfylgd var aukin notkun styrkleika tengd betri sjálfsmynd, lífsorku, jákvæðum áhrifum og minni upplifun á streitu, sem er í samræmi við kenningar Peterson og Seligman (2004). Þeir sem nota styrkleika sína meðvitað og ekki síst á annan hátt en vanalega hafa meira sjálfsálit og búa yfir meiri orku og lífsneista. Einnig hafa þeir almennt jákvæðari upplifun af lífinu miðað við þá sem ekki nýta styrkleika sína meðvitað (Selig- man, Steen, Park og Peterson, 2005). Talað er um að það að nota styrkleikana gefi fólki aukna orku fremur en taka frá því orku (Peter- son, 2006). Þessar niðurstöður sýna fram á að ástæða er til að leggja áherslu á að byggja upp styrkleika, því ef notkun styrkleika leiðir til aukinnar vellíðanar til lengri tíma getur það byggt upp langtíma seiglu hjá einstaklingum og hjálpað fólki að vera upp á sitt besta (Wood, Linley, Kashdan og Hurling, 2011). Rannsóknir hafa sýnt að það að nýta styrkleika sína í vinnu hefur mikil áhrif í þá átt að efla starfsá- nægju, skuldbindingu og að finna tilgang með vinnunni sinni (Berg og Karlsen, 2012). Með því að þekkja styrkleika okkar og nýta þá getum við haft áhrif á það hvernig okkur líður í vinnunni sem hefur áhrif á daglegt líf. Jákvæðar tilfinningar og hugarfar Hugarfar er það viðhorf sem einstaklingurinn tileinkar sér og hefur áhrif á það hvernig hann lifir lífinu. Þeir sem trúa því að við fæðumst með ákveðna, óbreytanlega hæfileika og eiginleika eru með festu- hugarfar. Fólk sem býr yfir gróskuhugarfari trúir því að með reynslu, fyrirhöfn og þátttöku geti fólk vaxið og þroskast. Litið er svo á að þó við séum fædd með mismunandi hæfileika þá geti þeir þróast í gegnum lífið. Þeir sem búa yfir gróskuhugarfari eiga auðveldara með að takast á við krefjandi aðstæður. Þeir eru ekki hræddir við mistök og eru því opnir fyrir því að fara nýjar leiðir til árangurs. Í grósku- hugarfari felst að það að leggja hart að sér sé ómissandi hluti af því að ná árangri og því er ekki litið á bakslag sem mistök heldur hluta af ferlinu (Hefferon og Boniwell, 2011). Mikilvægt er að hafa í huga að einstaklingur þarf ekki að vera annaðhvort með festu- eða grósku- hugarfar, hann getur notað festuhugarfar í ákveðnum aðstæðum en gróskuhugarfar á öðrum tímum eða í öðrum aðstæðum. Því geta flestir þróað með sér gróskuhugarfar. Jákvæðar tilfinningar hafa góð áhrif á líf okkar. Rannsóknir Fredrickson síðustu áratugi á jákvæðum tilfinningum hafa leitt í ljós að jákvæðar tilfinningar víkka hugsun okkar, geta unnið gegn neikvæðum tilfinningum og byggja upp seiglu. Að víkka hugs- anasviðið felur í sér að við erum reiðubúnari að „hugsa út fyrir boxið“, þ.e. sjá fleiri möguleika en ef við erum neikvæð. Á þann hátt verðum við meira skapandi í hugsun og máli og þannig lausn- amiðaðri. Þegar við finnum fyrir jákvæðum tilfinningum tengjumst við öðrum frekar og leyfum okkur að finna til samkenndar með öðru fólki. Með jákvæðari tilfinningum sjáum við hlutina í víðara samhengi, sjáum frekar sjónarhorn annarra, myndum sterkari sambönd við aðra og metum sjálf okkur og aðra á jákvæðari máta (í Hefferon og Boniwell, 2011). Við getum aukið jákvæðar tilfinningar með því að gefa þeim aukið vægi í daglegu lífi og gefa þeim meiri gaum. Það er fullt af jákvæðum hlutum í kringum okkur ef við bara horfum eftir þeim og veitum þeim athygli. Hér er það spurningin um það sem við getum sjálf gert til að hafa áhrif á líf okkar og vellíðan. Góðvild í eigin garð Að sýna sjálfum sér góðvild (e. self-compassion) snýst einfaldlega um það að beina velvild sinni inn á við. Að sýna sjálfum sér góðvild felur í sér að sýna sjálfum sér hlýju og skilning, t.d. þegar við finnum til, mistekst eitthvað eða þegar við tökumst á við erfiðar aðstæður í lífinu sem við höfum ekki stjórn á. Góðvild í eigin garð tengist styrk- leikum eins og bjartsýni, visku og forvitni. Með góðvild í eigin garð róum við okkur og sýnum okkur elsku þegar við tökumst á við sárs- auka okkar í staðinn fyrir að finna fyrir reiði þegar lífið er ekki alveg eins og við viljum hafa það. Við fáum ekki alltaf það sem við viljum og erum ekki alltaf nákvæmlega eins og við viljum vera en þetta er bara hluti af því að vera manneskja. Við gleymum því gjarnan að það að mistakast og að vera ófullkomin er eðlilegt (Germer og Neff, 2013). Mikilvægt er að sýna sjálfum sér góðvild í þeim krefjandi aðstæðum sem ljósmóðurstarfinu fylgja oft. Við erum að gera okkar besta og þurfum að sætta okkur við það að stundum dugir okkar besta ekki til að bæta eða breyta líðan skjólstæðinga okkar. Við þurfum líka að huga að okkur sjálfum. Hvað getum við gert? Jákvæð inngrip hafa það markmið að auka hamingju og vellíðan. Þau eru hugsuð fyrir alla þá sem vilja láta sér líða betur, óháð líðan þeirra í upphafi (Seligman o.fl., 2005). Jákvæðum inngripum er lýst sem meðferðum eða athöfnum sem miða að því að ýta undir jákvæðar tilfinningar, hegðun eða hugsanir en ekki að því að laga eða að koma í veg fyrir veikindi (Sin og Lyubomirsky, 2009). Inngripin fela í sér mismunandi áherslur t.d. á hreyfingu, samveru, hegðun og/eða líðan. Þau hafa áhrif á hugarfar einstaklinga og með þeim er hægt að þjálfa og tileinka sér gróskuhugarfar. Talað er um að notkun á jákvæðum inngripum auki meðvitund einstaklingsins þannig að hann áttar sig á að hann geti haft áhrif á líðan sína og niðurstöður með því að leggja sig fram (Morris, 2012). Aukinn fjöldi rannsókna síðustu ára sýnir að hægt er að auka hamingju og vellíðan Með því að þekkja styrkleika okkar og nýta þá getum við haft áfhrif á hverning okkur líður í vinnunni.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.